Kvenfélögin rétta fram hjálparhönd
Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) hélt sinn 65. formannaráðsfund í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum laugardaginn 26. mars sl. Yfirskrift fundarins var „Af góðum hug koma góð verk“.
Á fundinn koma formenn og fulltrúar þeirra héraðssambanda um land allt sem eiga aðild að KÍ. Formannaráð samþykkti eftirfarandi áskoranir:
- Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands skorar á kvenfélagskonur að taka þátt í móttöku flóttafólks sem nú streymir til landsins. Ljóst er að flóttafólk mun þurfa margskonar aðstoð og eru kvenfélög hvött til að leggja málefninu lið hvert á sínu svæði.
- Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands lýsir yfir áhyggjum af fæðuöryggi í heiminum. Hið stríðshrjáða land Úkraína er með stærstu korn- og hveitiframleiðendum í heimi. Við Íslendingar ættum að huga vel að því hvað við getum gert til að bæta fæðuöryggi á Íslandi með meiri ræktun og framleiðslu margvíslegra matvæla.
Nýjar konur voru kosnar í stjórn KÍ en þær eru: Eva Björk Harðardóttir, Kvenfélagi Kirkjubæjarhrepps frá Sambandi Vestur-skaftfellskra kvenna var kosin nýr varaforseti og Helga Guðmundsdóttir, Kvenfélagi Eiðaþinghár frá Sambandi austfirskra kvenna var kosin í varastjórn.