Haustblað Húsfreyjunnar er komið út . 
Að venju er blaðið stútfullt af greinum, viðtölum, fræðslu og góðu efni.
Á forsíðunni er Dr. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðaháskóla Íslands, en hún er jafnframt í aðalviðtali blaðsins. Ragnheiður segir frá sjálfri sér, skólanum og ræðir landbúnaðinn.
Nýtt í Húsfreyjunni er Póstkort og þar er skyggnst inn í Blómasetrið – Kaffi Kyrrð sem er fjölskyldurekið fyrirtæki í Borgarnesi. Sagt er frá bókinni Konur sem kjósa sem kom út fyrir nokkru, en bókin var gefin út í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttarins og fjallar um íslenska kvenkjósendur.
 
Lesendur fá nú nýja smásögu að lesa, en það er smásagan Hugrenningar og hófatak eftir Þórdísi Sigurbjörnsdóttur en hún hlaut önnur verðlaun í Smásögusamkeppni Húsfreyjunnar fyrr á þessu ári.
Á síðum Leiðbeiningastöðvar heimilanna er afturnýtingu og endurnýtingu gerð skil með grein um verk Guðrúnar Borghildar Ingvarsdóttur, en hún afturnýtir það sem aðrir eru búnir að henda.
 
Nýjar konur sjá nú um Hannyrðahornið. Það eru þær Alda Sigurðardóttir og Þóra Þórarinsdóttir. Þær gefa lesendum uppskriftir að skemmtilegum handavinnuverkefnum, m.a. heklað langsjal, fallega barnapeysu og fallega kvenpeysu. Húsfreyjan býður þær velkomnar í Hannyrðahornið og það verður gaman að fylgjast með hvað þær munu bjóða lesendum upp á í næstu blöðum.
Albert Eiríksson sem flestir þekkja hefur aftur tekið að sér að sjá um matarþátt Húsfreyjunnar og hann býður lesendum upp á uppskriftir sem henta haustinu, enda heitir matarþátturinn hans að þessu sinni Matartöfrar haustsins. Þar má finna m.a. uppskrift að Smalaböku, ávaxtafylltum hjörtum, „Coq au vin“ eða hana í víni og fleira gómsætt.
Unnur Pálmarsdóttir gefur lesendum sjö ráð til að koma sé af stað í heilbrigðan lífstíl í haust, auk þess að gefa uppskriftir að heilsusamlegum detoxdrykkjum. Guðrún Hannele gefur uppskrift af skemmtilegum íslenskum vettlingum sem lesendur geta spreytt sig á í haust.
Þetta og margt fleira í haustblaði Húsfreyjunnar. Þú getur gerst áskrifandi á husfreyjan.is eða nálgast blaðið í lausasölu á næsta sölustað

Rakel Kvennasögusafn afhending 2021webMánudaginn 30. ágúst sl. afhenti Kvenfélagasamband Íslands gögn sem höfðu verið í geymslu KÍ á Hallveigarstöðum frá því 2006. En þá hafði Kristín Guðmundsdóttir fyrrum starfsmaður KÍ unnið að því að skrásetja og pakka mikið magn af  skjölum KÍ í þó nokkurn tíma. Elstu skjölin í safninu eru frá landsþingi KÍ sem haldið var árið 1945. Þó gæti vel leynst þar eldri skjöl því ekki er dagsetning á öllum kössunum.  Nú geta áhugasamir nálgast skjölin á aðgengilegan hátt á Kvennasögusafninu.

Á myndinn sem fylgir er Rakel Adolphsdóttir fagstjóri Kvennasögusafnsins ásamt hluta þeirra skjala sem afhent voru sl. mánudag. 

 

Skógræktin og Landgræbirkifræ mynd smallðslan hafa tekið höndum saman og óskað eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Í haust sem leið var safnað umtalsverðu magni af birkifræi sem var að hluta dreift haustið 2020 en í vor var afganginum dreift á valin, beitarfriðuð svæði.  Efnt verður til annars landsátaks í söfnun birkifræja nú í haust 2021. Söfnunarátakið í fyrra gekk afar vel og áhugi almennings var mikill. Kvenfélagasamband Íslands er nú einn af samstarfsaðilum verkefnisins og hvetur kvenfélagskonur til að taka þátt í að safna birkifræjum á sínum landssvæðum. Það skemmtilega við átakið er að þarna geta ungir og aldnir sameinast. Kvenfélagasamband Íslands vonar að kvenfélagskonur geri frætínsluna að árlegu verkefni og njóti útiverunnar, jafnvel grilla í lok dagsins. 

Þegar fræ á birki hefur þroskast er hægt að hefja söfnun fræsins. Á sumum stöðum má gera ráð fyrir að birkireklar verði fullþroskaðir fyrir eða um miðjan september. Í fyrra safnaðist mest á Suður- og Vesturlandi en þar var með eindæmum gott fræár en frekar lélegt á Norður- og Austurlandi. Núna hefur þetta snúist. Á Norðurlandi og víða á Austurland er fræmagn á trjám með ágætum en mun lakara fyrir sunnan og vestan.  Ekki er óalgengt að fræþroski sé mismikill á milli ára. Í fyrra var tekið á móti 274 kg af birkifræi. Mjög margir dreifðu sjálfir fræinu sem þeir söfnuðu í fyrra.

Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Ef landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Svona verkefni eru því líka loftslagsverkefni.

Birkið er frumherjategund sem sáir sér mikið út á eigin spýtur ef hún fær til þess frið. Birkið heldur því starfinu áfram ef vel tekst til að koma því af stað á nýjum svæðum.

Í haust verða fræbox að finna í verslunum Bónus um land allt. Einnig getur fólk fengið box á starfsstöðvum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Hægt er að skila fræjum í fræsöfnunartunnur sem eru í Bónus og víðar. Þá er tekið á móti fræi í starfsstöðvum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Sjá upplýsingar á birkiskogur.is.

Þessa dagana er verið að þétta net móttökustaða á Norður- og Austurlandi. Upplýsingar um mögulega móttökustaði eru vel þegnar í síma 834 3100 (Kristinn) eða 896 3313 (Áskell).

Í fyrra skiluðu margir fræi í bréfpokum og eða pokum úr taui. Í pokana þarf setja miða með upplýsingum um söfnunarstað og dagsetningu – og muna að loka pokunum vel. Ekki nota plastpoka því nýtínd og rök fræ skemmst mjög fljótt í of þéttum umbúðum.  Án efa eru sumir  tilbúnir til að sauma fræpoka. Svona pokar eru tilvalin tækifærisgjöf!

Samstarfsaðilar Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í birkisöfnunarverkefninu eru Terra, Prentmet Oddi, Bónus, Landvernd, Skógræktarfélag Íslands, Kópavogsbær, Skógræktarfélag Kópavogs, Heimilistæki, Tölvulistinn, Kvenfélagasamband Íslands og Lionshreyfingin.

Safna má birkifræi frá lokum ágúst og fram í byrjun október eða svo lengi sem reklar eru á birkitrjám. Yfirleitt hefur verið mælt með frætínslu í september og október, en í hlýjum árum mætti byrja tínslu fyrr þ.e. frá lokum ágúst.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu söfnunarinnar: www.birkiskogur.is

Skrifstofa Kvenfélagasambands Íslands og Húsfreyjunnar verður lokuð vegna sumarleyfa 28. júní - 4. ágúst 2021.

Njótið sumarsins, það ætlum við að gera 

Vorblað Húsfreyjunnar er nú komið út og ætti að hafa borist flestum áskrifendum. 

Einsog alltaf er Húsfreyjan stútfull af ýmsu efni sem má njóta í sumar.

Á forsíðunni að þessu sinni er listaverk, ljósmyndaverk eftir Sigríði Sigurlínu Pálsdóttur, Sillu Páls ljósmyndara Húsfreyjunnar til ellefu ára. Áslaug Sverrisdóttir sagnfræðingur er í meginviðtali blaðsins. En Sögufélagið gaf síðastliðið haust út bókina Handa á milli um hundrað ára sögu Heimilisiðnaðarfélagsins. Um svipað leyti fagnaði Áslaug, höfundur bókarinnar áttræðisafmæli sínu. Húsfreyjan forvitnaðist um áttatíu ára ævigöngu Áslaugar.

Í þessu vorblaði er einnig upplýst um verðlaunahafa í smásögukeppni Húsfreyjunnar. Það er Húsfreyjunni heiður að birta lesendum nýjar og áhugaverðar smásögur til að lesa og njóta og kunnum við öllum þeim sendu inn sögur í keppnina bestu þakkir fyrir.  Um leið óskum við verðlaunahöfum til hamingju. Í blaðinu er að sjálfsögðu sagan sem lenti í fyrsta sæti.

Eydís Ösp Eyþórsdóttir kvenfélagskona og verkefnastjóri fræðslu- og fjölskyluþjónustu Glerárkirkju svarar spurningum Húsfreyjunnar í skemmtilegu spjalli. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur heldur áfram að segja okkur frá fyrrum forsetum Kvenfélagasambands Íslands sem byrjað var á, á 90 ára afmæli KÍ á síðasta ári. Að þessu sinni skrifar Kristín um þær Helgu Magnúsdóttur og Sigríði  Thorlacius.

Katrín Ólafar Egilsdóttir,meistari í vinnusálfræði og stjórnun, fræðir lesendur um kosti þess að vera með lifandi plöntur og plöntuveggi á heimilum og vinnustöðum. Ragnheiður Eiríksdóttir hefur umsjón með handavinnuþættinum að þessu sinni og hún býður upp á viðtal við Guðlaugu Svölu Steinunni Kristjánsdóttir sem gefur lesendum uppskrift að fiðrildapeysu. Ragnheiður býður einnig upp á uppskrift af göngupilsi sem er tilvalið í útivist sumarsins.

Í matarþættinum er farið í heimsókn og spjall til Hrannar Vilhelmsdóttur í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ og gefur Hrönn lesendum uppskriftir af bragðgóðum og spennandi réttum. Meðal annars uppskriftir úr eggaldinum, hrossalund og geggjaðar djúpsteiktar gellur. Leiðbeiningastöð heimilanna fjallar og afhjúpar algengar mýtur um mat sem of margir hafa tekið sem heilögum sannleik.

Verðlaunakrossgátan er að sjálfsögðu á sínum stað.

Húsfreyjan er líka aðgengileg rafræn á áskriftarvefnum.  

Smelltu hér til að gerast áskrifandi, hvort eð er rafrænt eða á prenti. 

Njótið lestursins og sumarsins.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands