NORRÆNA BRÉFIÐ: Frá Finnlandi
Sjálfbær fæða og umhverfisvænn hversdagur
Sirpa Pietikäinen
Loftslagsbreytingar og ágengni gagnvart náttúruauðlindum eykst með ógnarhraða. Það er erfitt fyrir okkur að skilja þegar eitthvað eykst með veldishraða. Tveir verða tíu, tíu verða eitt hundrað, eitt hundrað verður tíu þúsund ... Margfeldisáhrifin leiða til þess að loftslagsbreytingar gerast mun hraðar en ella. Til að stöðva þessa þróun þarf að tvöfalda það sem gert er í dag. Viðfangsefnin verða að vera mörg og stór. Það er nauðsynlegt að koma á umsnúningi (backcasting-method). Mikilvægt er að byrja á að setja markmið um það sem við viljum ná fram og finna svo leiðirnar.
Löggjöf í ESB-ríkjum er nauðsyn til að draga úr loftslagsbreytingum í Evrópu. En það er einnig mikilvægt að einstaklingar og heimili taki málefnið föstum tökum. Við getum annaðhvort flýtt eða hægt á þróuninni með vali okkar í daglegu lífi. Margir einstaklingar eru nú þegar virkir þátttakendur í að bjarga jörðinni en það verður að fá alla hina með, einnig þá sem efast. Stofnanir og félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki við að virkja sitt fólk, einfaldlega vegna þess að stór hluti þjóða tilheyrir stofnunum eða samtökum. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að finna hagnýtar lausnir og skipuleggja starfsemina í þágu jarðarinnar. Fyrr á tímum varð til hreyfing fólks sem vildi stuðla að almennri þekkingu meðal þjóða með hjálp ýmissa samtaka. Nú þarf svipaða hreyfingu meðal almennings til að bjarga jörðinni og sporna við loftslagsbreytingum.