Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1. febrúar 1930 og fagnar því 90 árum á þessu ári.
Kvenfélagasamband Íslands (KÍ), er samstarfsvettvangur og málsvari kvenfélaganna í landinu. KÍ er fjölmennasta kvennahreyfingin á Íslandi sem starfar á landsvísu, með 17 héraðssambönd og 154 kvenfélög sem telja tæplega 5000 félaga. 1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar.
Afhending á gjöfinni:
Það var hátíðarbragur yfir móttöku sem haldin var á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi fimmtudaginn 26. september þegar Kvenfélagasambands Íslands afhenti fyrir hönd kvenfélagskvenna Gjöf til allra kvenna á Íslandi.
Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ afhenti gjöfina fyrir hönd kvenfélagasambands Íslands. Dagmar sagði frá því að með útsjónarsemi og seiglu hafi kvenfélagskonum tekist að ná markmiðinu en á þeim tíma sem söfnunin stóð yfir geisaði heimsfaraldur með öllum þeim takmörkunum sem þá voru í gildi. Þó markmið söfnunarinn hafi náðst í tíma þá var ekki hægt að hefja vinnu við verkefnið strax þar sem heilbrigðisstarfsmenn voru uppteknir við annað þá. Skýrir það að hluta þann langa tíma sem innleiðing á verkefninu hafi tekið „ en nú í dag fögnum við því að geta afhent þessa gjöf og séð á tímaplaninu hvar næstu afhendingarstaðir verða.“
Dagmar þakkaði öllum kvenfélagskonum, kvenfélögum og héraðssamböndum innan Kvenfélagasambandsins fyrir framlög þeirra til söfnunarinnar og eins öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem lögðu söfnuninni lið. Jafnframt vildi hún koma fram þakklæti til starfsfólks Landlæknis, Landsspítala og öðru því fólki sem er búið að vinna að því að þessi tækni verði að veruleika. „Við erum þess fullvissar að með þessari gjöf er verið að stíga skref til framþróunar í fjarlækningum sem mun nýtast okkur um ókomin ár.“
Björk Steindórsdóttir yfirljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók formlega á móti gjöfinni, en Björk hefur stýrt innleiðingu og öllum samskiptum við fæðingarstaði og verið faglegur sérfræðingur í innleiðingu á verkefninu.
Björk sagði að það væri sérstaklega ánægjulegt að taka á móti svo stórri og höfðinglegri gjöf. Gjöf sem konur í landinu væru að gefa konum landsins og fjölskyldum. Gjöfin eykur bæði gæði og öryggi skráninga og vistunar fósturhjartsláttarrita og niðurstöður úr ómskoðunum sem bætir tvímælalaust heilsuvernd kvenna um allt land.
Björk bætti við að fæðingastaðir séu tækjum búnir fyrir sína starfsemi, og nú með gjöfinni bætist við hugbúnaður sem rafvæðir sjúkraskrárgögn sem tengjast fósturhjartsláttarritum og sónarniðurstöðum , og vistar þau miðlægt. Einn af stóru kostunum við hugbúnaðinn er, að þetta getur komið í veg fyrir að konur séu sendar jafnvel langan veg til til frekari skoðunar. Niðurstöður eru á rafrænu formi og hægt að nálgast þær og skoða á öðrum stöðum þar sem meiri sérhæfing er til staðar.
Fósturhjartsláttarrit er hægt að sjá í rauntíma og fá þar með eftir öruggum leiðum faglegt álit frá hærra þjónustustigi, eins og t.d. LSH eða Akureyri. Ekki þarf lengur að prenta út ritin og fleiri geta séð ritin en bara sá aðili sem er inni á fæðingarstofunni þegar konur eru í fæðingu, eða að sinna eftirliti með fóstrinu á meðgöngu vegna einhverra áhættuþátta tengt meðgöngunni.
„Það að hafa sjúkraskrárgögn vistuð miðlægt er gríðarlega mikið öryggisatriði fyrir konur í meðgöngu og fæðingu. Með því móti er alltaf hægt að nálgast mikilvægar upplýsingar hvar sem er og einnig eru þær vistaðar með ábyrgum og löglegum hætti. Hægt er að meta gögn hvenær sem er, í rauntíma og milli skoðana og þessi gögn fylgja meðgönguskrá konunnar hvar sem hún býr.“ sagði Björk og bætti við að það hefði verið kjarkað og áræðið af konum í Kvenfélagasambandi Íslands að fara í svona mikla og flókna gjöf sem hefur í raun stækkað margfalt með tímanum. Þær hugsuðu að þessi hugbúnaður þyrfti að nýtast öllum konum landsins, ekki bara þjónustuþegum Landspítalans. „Ljósmæður og læknar, sem vinna út á landi, bíða af mikill tilhlökkun og gleði eftir að tengjast kerfinu.“
Innleiðingu á verkefninu var stýrt af starfshóp og var samstarf nokkurra stofnana og aðila: Kvenfélagasambands Íslands, Landspítala, embættis landlæknis, Félags ljósmæðra og fæðingarstaða á landsbyggðinni. Ákveðið var að velja Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi (HVE) sem tilraunastað fyrir verkefnið og þar kláraðist innleiðing og opnað var á kerfið 13. júní 2024. Allir fæðingastaðir landsins eru núna tilbúnir að taka við tengingum við Landspítalann. Þær innleiðingar og tengingar eru komnar í tímalínu sem unnið verður eftir í samvinnu við fæðingarstaði landsins, tæknisvið Landspítalans og seljendur hugbúnaðarins, Medexa. (Sjá tímalínuna hér að neðan.)
Björk sagði að fæðingastaðir landsins og starfsfólk þeirra væru svo sannarlega mjög stolt að taka við þessari gjöf og ánægð með þetta verkefni.
Á afhendinguna á Akranesi var afmælisnefnd, formannaráði og heiðursfélögum Kvenfélagasambands Íslands boðið til að vera fulltrúar allra þeirra fjölmörgu kvenfélaga sem lögðu söfnuninni lið. Auk kvenfélagskvenna voru á afhendingunni starfsfólk HVE, starfsfólk frá Landlækni og Landsspítala sem unnu að innleiðingunni.
Í afmælisnefnd KÍ voru: Elinborg Sigurðardóttir frá SSK, Eva Michelsen frá KSK, Ágústa Magnúsdóttir frá KSGK og Linda B. Sverrisdóttir frá SBK. Fulltrúar KÍ í nefndinni voru Guðrún Þórðardóttir þáverandi forseti KÍ, Þórný Jóhannsdóttir þáverandi varaforseti KÍ, Sólveig Ólafsdóttir í varastjórn KÍ og Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ. Dagmar Elín Sigurðardóttir núverandi forseti KÍ og Elinborg Sigurðardóttir í afmælisnefnd hafa fylgt verkefninu eftir fram að innleiðingu og munu gera það áfram þar til það er komið í gagnið um allt land.
Tímalína frekari innleiðingar:
- Vika 40 – Milou uppfært á LSH og Akranesi
- Vika 41-42 – Uppsetning á Ísafirði
- Vika 44 – Uppsetning á Neskaupsstað
- Vika 46 – Uppsetning í Vestmannaeyjum
- Vika 48 – Uppsetning í Keflavík
- 2025 – Uppsetning á Selfossi
- 2025 – Uppsetning á SAK
Til hamingju allar konur með þessa gjöf.
Í tilefni 90 ára afmælisins munu kvenfélög um land allt standa fyrir söfnun.
Kvenfélagskonur safna fyrir tækjum og hugbúnaði honum tengdum, sem kemur til með að gagnast öllum konum um landið allt. Um er að ræða mónitora og ómtæki, nýja eða uppfærða eftir því sem við á og rafrænar tengingar á milli landsbyggðar og Kvennadeildar Landspítalans.
Þau munu nýtast öllum konum á Íslandi, hvort sem er við meðgöngu og fæðingu, eða skoðana vegna kvensjúkdóma. Tækin sem safnað verður fyrir geta aukið öryggi í greiningum og í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að senda þurfi konur á milli landshluta vegna ýmissa óvissuþátta. Sjá nánar hér að neðan.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tileinkað árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum og það er okkur því sérstakt gleðiefni að safna tækjum sem nýtast þessum starfsstéttum.
Kvenfélagskonur hafa stutt við l Landsspítalann frá stofnun hans og staðið fyrir söfnunum á peningum og tækjum sem hafa komið sér vel fyrir fjölmarga þegna landsins.
Á meðan söfnuninni stendur munu kvenfélagskonur víða um land selja falleg armbönd sem í eru grafin gildi sambandsins, Kærleikur – Samvinna – Virðing og Ég er kvenfélagskona.
Í samvinnu við Omnom verður líka selt súkkulaði frá Omnom þrjár plötur í pakka.
Þú getur nú pantað bæði armbönd og súkkulaði á Heimkaup.is
Ef vinnustaðurinn þinn vill fá heimsókn frá kvenfélagskonum með armbönd og súkkulaði, láttu okkur vita og við finnum tíma með þér. Sendu póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Hægt er að leggja beint inn á söfnunarreikninginn:
Markmiðið er að safna 36 milljónum króna.
Söfnunin stendur til 1. febrúar 2021.
Allar nánari upplýsingar fást hjá skrifstofu KÍ s: 5527430 This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og afmælisnefnd.
Kvenfélög hafa samband við skrifstofu til að fá aðgang að pöntunarformi.
Afmælisnefnd skipa:
Eva Michelsen KSK, Elinborg Sigurðardottir SSK, Linda Sverrisdóttir SBK, Harpa B. Hjálmtýsdóttir KSK, Ágústa Magnúsdóttir KSGK ásamt fulltrúum stjórnar KÍ, Þórný Jóhannsdóttir varaforseti KÍ, Sólveig Ólafsdóttir varastjórn KÍ og Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ.
Nánar um tækin og hugbúnaðinn sem verið er að safna fyrir:
Frá Önnu Sigríði Vernharðsdóttur, yfirljósmóður fæðingarvaktar 23-B
Um Milou: Milou er hugbúnaður og tengibox sem gerir kleift að skoða og vinna með fósturhjartsláttarrit á rafrænan hátt. Þannig er hægt að fylgjast með fósturhjartslætti utan fæðingarstofunnar, t.d. á vaktherbergi fæðingardeildar. Tæknin býður einnig upp á þann möguleika að skoða fósturhjartsláttarrit í tölvu utan stofnunar. Þannig getur t.d. læknir sem er á bakvakt heima, skoðað og metið rit. Einnig er mögulegt fyrir minni fæðingarstaði að fá álit á fósturhjartsláttarriti frá stærri fæðingarstað, t.d. frá Landspítala eða Akureyri. Milou býður upp á kerfisbundið mat á fósturhjartsláttarritum sem byggir á nýjustu þekkingu á því sviði. Þetta matstæki hefur verið þýtt af ljósmæðrum og læknum á Landspítala og notað þar síðustu 2 ár. Kerfisbundið mat er talið áreiðanlegra og ætti því að veita aukið öryggi í fæðingu. Með tilkomu Milou er ekki lengur þörf á útprentun fósturhjartsláttarrita þar sem þau eru vistuð á rafrænan hátt og hægt að nálgast þau rafrænt hvenær sem er. Það er margt sem fæst með því að að innleiða Milou á fæðingarstaði landsins. Aukið öryggi fæst með kerfisbundnu mati rita og að fleiri geti séð rit en eingöngu sá fagaðili sem er inni á fæðingarstofunni. Aukið öryggi gagna og aukið aðgengi fæst með rafrænni vistun ritanna.
Frá Huldu Hjartardóttur Yfirlæknir fæðingarþjónustu Kvenna- og barnasviði LSH :
Um Astraia hugbúnaðinn: Astraia hugbúnaðurinn hefur verið í notkun á fósturgreiningardeild Landspítala í um 15 ár. Sjúkrahúsið á Akureyri er einnig með þennan hugbúnað og við vinnum með sama gagnagrunninn sem er vistaður hér á Landspítala. Myndir og myndskeið eru flutt úr ómtækjunum í þennan gagnagrunn og vistuð þar undir kennitölu konunnar. Þannig höfum við á einum stað allar upplýsingar um ómskoðanir allra kvenna sem koma í skoðanir á meðgöngu á Landspítala og Akureyri. Út frá þessum gögnum getum við síðan reiknað meðgöngulengd, fylgst með vexti og gefin út svör um þessa þætti sem birtast í rafrænni sjúkraskrá konunnar hvar sem hún er stödd á landinu. Einnig hefur konan aðgang að svörunum í gegnum heilsuveru.is í sínum farsíma eða tölvu ef hún óskar þess. Á landsbyggðinni er enginn gagnagrunnur til staðar og svörin eru útbúin með ýmsum hætti. Einnig er ekki staðlað hvaða viðmið eru notuð til að reikna út meðgöngulengd og vöxt. Aðgengi að þessum svörum er ekki nægilegt fyrir annað heilbrigðisstarfsfólk og kemur oft fyrir að engar eða takmarkaðar upplýsingar eru til staðar þegar konum er vísað til frekari skoðunar þar sem meiri sérhæfing er til staðar eða þegar vandamál koma upp síðar í meðgöngu. Gagnagrunnurinn nýtist einnig til að vista myndir og gefa út góð svör við ómskoðanir á kvenlíffærum utan þungunar.
Sameiginlegur gagnagrunnur fyrir landið væri mjög æskilegur til að við getum samræmt vinnubrögð okkar hvar sem er á landinu til að tryggja sem best gæði þjónustunnar. Einnig auðveldar það öll samskipti og getur komið í veg fyrir að það þurfi að senda konur um langan veg til frekari skoðana ef hægt er að skoða myndir/myndskeið á þeim stöðum á landinu þar sem mesta sérhæfingin er til staðar. Upplýsingar um allar fyrri skoðanir yrðu einnig tiltækar hvar sem konan kemur næst til skoðunar. Engin gögn eða upplýsingar tapast og hægt að bera saman bæði milli skoðana og jafnvel milli meðgangna sömu konunnar. Gagnagrunnurinn er mjög auðveldur í notkun og hægt að sníða að þörfum notendanna varðandi útlit svara, tungumál og val á vaxtarviðmiðum. Það er trú okkar sem störfum við fósturómskoðanir og ómskoðanir á kvenlíffærum að aðgengi alls staðar á landinu að þessum gagnagrunni væri veruleg viðbót við eftirlit með heilbrigði kvenna og tryggði betur gæði slíks eftirlits.