Jólablað Húsfreyjunnar er komið út sem er jafnframt fyrsta blað nýs ritstjóra. En Jenný Jóakimsdóttir sem jafnframt starfar á skrifstofu Kvenfélagasambands Íslands var ráðin nýr ritstjóri þegar Sigríður Ingvarsdóttir hætti sem ritstjóri, en Sigríður hefur verið ritstjóri sl. tvö ár. Sigríði er þakkað innilega fyrir góð störf og við bjóðum Jennýju velkomna til starfa.

Jólablaðið að þessu sinni er eins og ávallt stútfullt af áhugaverðu efni sem ljúft er að lesa við kertaljós á aðventunni. Við mælum með að lesendur fái sér líka kakóbolla og vel af þeyttum rjóma með.

Halldóra Eydís skóhönnuður úr Mývatnssveitinni er í einlægu viðtali, þar sem hún segir frá því hvernig skódellan á barnsárunum varð að ástríðu hennar. Halldóra hefur í mörg ár hannað fallega og þægilega skó sem margar konur eiga jafnvel nokkur pör af.

Umfjöllun um landsþing Kvenfélagasambandsins sem haldið var í október á Ísafirði er fyrirferðarmikið í blaðinu. Á landsþingið mættur 220 konur víðs vegar af landinu. Í þessu tölublaði er einnig sagt frá afhendingu Gjafar til allra kvenna sem afhent var formlega í haust á sjúkrahúsinu á Akranesi. Með söfnuninni og verkefninu við innleiðingu tækjabúnaðarins hafa kvenfélagskonur nú rutt brautina fyrir möguleikum á rafrænni tengingu milli landsbyggðar og Kvennadeildar Landspítalans.

Jólablað Húsfreyjunnar gerir sorgina sem margir finna fyrir í kringum jólin að umtalsefni, ritstjóri hitti Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur fagstjóra hjá Sorgarmiðstöðinni og ræddi þar um mikilvægt starf Sorgarmiðstöðvarinnar ásamt því að fá góð ráð fyrir syrgjendur og aðstandendur þeirra sem gott er að hafa í huga kringum hátíðarnar.

Bergrós Kjartansdóttir prjónahönnuður og gullsmiður segir frá bókinni sinni Sjalaseiður en hún var einmitt með fallega sýningu á sjölunum sínum í Edinborgarhúsinu á landsþingi á Ísafirði.

Albert Eiríksson umsjónarmaður Matarþáttarins fer með okkur í jólaveislu hjá starfsfólki Grafarvogskirkju og deilir uppskriftum að því sem þar var boðið fram. Þar má nefna m.a. jólalegt geitaostasalat, sveppa Wellington, kalkúnaskip, humar og grænmeti í hvítlaukssósu og fallega desserta sem gaman er að spreyta sig á í næstu jólaveislu. Sóknarprestur Grafarvogskirkju er svo með jólahugvekju í blaðinu.

Björg Baldursdóttir formaður útgáfustjórnar Húsfreyjunnar skrifar um Húsfreyjuna sem er 75 ára á þessu ári. Í blaðinu er einnig að finna textann af skemmtilegu rappi sem hluti útgáfustjórnar Húsfreyjunnar flutti við mikinn fögnuð á þingfundi á Ísafirði.

Kvenfélag Ólafsvíkur segir frá listaverkinu Gleði-Framtíð sem er listaverk eftir Sigurð Guðmundsson listamann, en þær söfnuðu fyrir listaverkinu á 70 ára afmæli félagsins. Listaverkið er gert fyrir börn og hugmyndin er að þau megi leika sér í verkinu.

Kristín sem sér um Hannyrðahornið gefur uppskriftir að fallegu jólaprjóni, þar má finna barnapeysu og húfur, jólagjafapoka og jólalega vettlinga. Allt prjón sem er tilvalið í jólapakkann.

Síðastliðið sumar setti Safnasafnið upp sýninguna Fjallasýn þar sem flosuð landslagsverk Þórunnar Franz voru sýnd. Lesendur fá að kynnast þessari merkilegu konu sem var bæði frumkvöðull og hannyrðakona. Á tímabili var útsaumur með mynstrum Þórunnar á nánast hverju heimili.

Smásagan í jólablaðinu er sagan Svín og BenSín eftir kvenfélagskonuna, Kristínu Gunnarsdóttur frá Kópaskeri en hún lenti í þriðja sæti í Smásögusamkeppni Húsfreyjunnar.

Kristín Sif Jónínudóttir er í viðtali við ritstjóra og segir frá ótrúlegri leit sinni að líffræðilegum föður sínum. Viðtalið er einlægt og gefur lesendum innsýn í þær mörgu tilfinningar sem upp koma þegar fólk fer í svona leit. Húsfreyjan þakkar Kristínu Sif innilega fyrir að deila sögu sinni með lesendum.

Á næsta ári verða liðin 50 ár frá því að 90% kvenna lögðu niður launuð og ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi framlags síns til samfélagsins sem stöðvaðist þann dag. Til að fylgja eftir kvennaverkfallinu 2023 og þessum stóru tímamótum hafa fjölmörg samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks tekið höndum saman og boða nú til Kvennaárs 2025. Lesa má um kröfurnar sem aðstandendur setja fram í blaðinu. Þetta, krossgátan og margt fleira í jólablaði Húsfreyjunnar. Njótið lestursins og hafið það sem allra best á aðventu og jólum.

 

Húsfreyjan_4._tbl._2024small.png

 

Smelltu hér til að gerast áskrifandi:

Húsfreyjan er líka seld í lausasölu, smelltu hér til að sjá hvar

Lagabreytingar voru nokkrar  á  nýliðnu landsþingi KÍ á Ísafirði, en þar ber þó helst að nefna eina breytingu sem getur haft töluverð áhrif á starfsemi Kvenfélagasambandsins. Hún er svohljóðandi og var samþykkt samhljóða

Einstök kvenfélög geta ekki orðið beinir aðilar að KÍ. Undanskilin eru kvenfélög þar sem héraðssamband á þeirra félagssvæði er ekki aðili að KÍ, þá geta þau kvenfélög átt beina aðild meðan svo er. Þau félög njóta sömu réttinda og þurfa að uppfylla sömu skilyrði og héraðssamböndin. Það kvenfélag, sem þegar var beinn aðili samkvæmt eldri lögum þegar breytt ákvæði tók gildi, er áfram félagi á upprunalegu forsendunum og lýtur einnig sömu skilyrðum og héraðssamböndin

Nú geta því stök kvenfélög á þessum svæðum sótt um beina aðild. Það er von stjórnar að nú muni kvenfélögum innan KÍ fjölga í kjölfarið á þessari lagabreytingu. Öll kvenfélög sem uppfylla þessi skilyrði eru boðin velkomin í starf Kvenfélagasambands Íslands.

Í tilefni af 40. landsþingi, hefur KÍ núna til sölu vörur sem framleiddar voru sérstaklega fyrir þingið. 

Hafið samband við skrifstofu KÍ til að panta vörurnar. Hringið í síma 5527430 eða sendið töluvpóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kvenfélagskonur láta sig ýmis málefni varða og voru andleg heilsa, heilbrigðisþjónusta og einsemd og einmanaleiki sem voru meðal umræðuefna á 40. landsþingi á Ísafirði.

Þingið sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands