Dagana 13. – 17. október sl. fór ellefu manna hópur kvenfélagskvenna til Búkarest í Rúmeníu frá Íslandi. Þar fór fram Evrópuþing alheimssamtaka dreifbýliskvenna (ACWW). Hátt í 70 konur frá hinum ýmsu löndum Evrópu og víðar voru þar mættar til að ræða meðal annars þema þingsins sem var „Sjálfbær vöxtur fyrir framtíðina”. Að sjálfsögðu líka til að hitta gamla og nýja vini, og njóta saman.

Íslenski hópurinn kom færandi hendi með ritföng fyrir skólakrakka í dreifbýli Rúmeníu, en venja er að á þessum þingum að óska eftir að þingfulltrúar komi með hluti með sér sem nýtast fyrir þurfandi á svæðinu.

Meðal dagskrárliða á þinginu var leiðtogafundur um valdeflingu kvenna, þar sem Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ flutti erindi um Kvennabaráttuna á Íslandi frá fyrsta kvennaverkfallinu fyrir 50 árum og sagði frá þeirri sorglegu staðreynd að þó svo Ísland nái fyrstu sætum á listum yfir lönd með hvað mest jafnrétti, þá er kynbundið ofbeldi enn staðreynd og yfir 40% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir því. Hún sagði auðvitað frá yfirvofandi Kvennaverkfalli 24. október og ekki hægt að segja annað en að vinkonum okkar á þinginu þótti mikið til koma.

Gjöf til allra kvenna á Íslandi afhent á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fimmtudaginn 16. október 2025.  

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er þriðja heilbrigðisstofnunin sem  tekur í notkun hugbúnaðinn. Búið er að afhenda Milou á Akranesi og Ísafirði og vonast er til að hægt sé að ljúka afhendingu á hina fjóra staðina fyrir árslok 2025.

Í tengslum við söfnun sem efnt var til í tilefni af 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands árið 2020 náðist að safna  samtals um 30 milljón króna. Ákveðið var að nota þær til kaupa á tækjakosti og hugbúnaði (Milou) honum tengdum, sem stuðlar að bættri heilsuvernd kvenna um land allt. Þessi hugbúnaður verður  settur upp á 7 fæðingarstöðum á landinu.

Vika einmanaleikans var sett formlega í Kringlunni föstudaginn 3. október. Fjöldi fólks fylgdist með setningunni og kynnti sér verkefnið.

Setningin hófst á því að Eva Björk Harðardóttir, varaforseti Kvenfélagasambands Íslands, sagði frá verkefninu sem stýrihópurinn hefur unnið að síðastliðið ár. Verkefni sem eru unnið í góðu samstarfi við kvenfélögin, sem ásamt öðrum bjóða upp á hina ýmsu viðburði sem er ætlað að efla félagsleg tengsl og samveru.

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti opnunarávarp og þakkaði Kvenfélagasambandi Íslands fyrir hlýtt og manneskjulegt verkefni. Hún sagði jafnframt að það ætti að vera markmið okkar allra að vilja sporna gegn því með öllum ráðum að fólk einangrist félagslega. „Með samtakamætti okkar allra þá mun okkur auðnast sú gifta að vernda jafnt unga sem aldna í baráttu þeirra gegn vanlíðan og einmanaleika.“ sagði Inga Sæland.

Næst bauð Eva Björk, biskup Íslands, séra Guðrúnu Karls Helgudóttur í pontu til að að blessa verkefnið.

Biskup þakkaði Kvenfélagasambandi Íslands fyrir að standa að þessari viku, því einmanaleiki væri alvarlegt mál og það væri mikilvægt að minna á að einmanaleiki er nokkuð sem samfélagið beri ábyrgð á. „Það er ekki skammarlegt að vera einmana. Það er ekki skömm að vera einmana. Flest okkar upplifa einmanaleika einhvern tíma á ævinni. Ef til vill hefur þú upplifað þig einmana alla þína ævi. Mögulega upplifðir þú þig einmana vegna þess að það hafa orðið stórar breytingar í þínu lífi og þínum aðstæðum. Þegar fólk kemur í sálgæsluviðtöl til presta eða djákna vegna ýmissa mála þá er einmitt oft einmanaleiki sem er stóra málið og liggur þarna djúpt að baki öllu.“ Sagði biskup meðal annars. Hún blessaði verkefnið að lokum og sagði: „Mig langar að hvetja okkur öll til þess að taka þátt í þessari viku og lyfta ef til vill augunum aðeins upp frá símanum og leggja okkur fram við að sjá hvert annað í alvörunni. Megi hinn heilagi andi sem skapar tengingar hjálpa okkur að sjá hvert annað. Guð blessi þetta dýrmæta framtak, Viku einmanaleikans.“

Að loknum ávörpum flutti Erna Salóme Þorsteinsdóttir, nemi í tónsmíðum, lag sem hún hefur samið um einmanaleikann.

Stýrihópur verkefnisins var alsæll með þetta upphaf á Viku einmanaleikans og hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að taka þátt og vinna þannig saman sem samfélag gegn einsemd og einmanaleika.

Vikunni er ætlað að kveikja neista sem heldur áfram, fram að næstu Viku einmanaleikans árið 2026.

Kringlunni er þakkað fyrir að vinna með stýrihópnum að setningunni og hýsa okkur þennan föstudag.

stjórn og styrihópur

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Eva Björk Harðardóttir, Jenný Jóakimsdóttir, Ása Steinunn Atladóttir, Rósa Marinósdóttir meðstjórnandi KÍ,  Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir og þdagmar Elín Sigurðardóttir. 

 

 

Sjá nánar á heimasíðu Viku einmanaleikans. 

Haustblað Húsfreyjunnar er komið út og ætti nú að vera að detta inn um lúgurnar hjá áskrifendum.

Að venju er blaðið stútfullt af góðu lesefni.

Aðalviðtalið að þessu sinni er við Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra hjá landlæknisembættinu og doktor í sálfræði, en hún hefur sérhæft sig í hamingjurannsóknum. Dóra Guðrún ræðir meðal annars um veru sína í klaustri í Suður-Frakklandi, mikilvægi félagslegra tengsla, lýðheilsuáskoranir unga fólksins og hamingjurannsóknir.

Bjargey Anna Guðbrandsdóttir ræðir við Húsfreyjuna um fyrirtækið sitt Píkusaum og sína sýn á femíníska handverksbyltingu.

Drífa Snædal talskona Stígamóta settist niður með ritstjóra og sagði frá starfi Stígamóta í tilefni 35 ára afmælis samtakanna, ásamt því að ræða um eilífa baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi.

Að þessu sinni eru tvær smásögur í blaðinu. Síðbúinn gestur eftir Sigríði Helgu Sverrisdóttur og íslenskur dagur á Kanarí eftir Elínu Konu Eddudóttur.

Albert Eiríksson skellti sér ásamt Sillu ljósmyndara í Söngskólann í Reykjavík. Hluti af kennurum skólans útbjó girnilega rétti fyrir Húsfreyjuna, sem finna má uppskriftir að í Matarþættinum.

Frumkvöðlarnir, Marta Schluneger og Þórey Rúnarsdóttir, segja frá fyrirtækinu sínu FLÍK en þær hafa hannað smáforrit fyrir prjónasamfélagið.

Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri Kvennasögusafns deilir með lesendum dýrmætum dagbókum kvenna og minnir í leið á mikilvægi þess að geyma vel gögn sem gætu veirð dýrmæt seinna meir. 

Í blaðinu er umfjöllun um vitundarvakningu Kvenfélagasambands Íslands og kvenfélaganna gegn einsemd og einmanaleika. En Vika einmanaleikans fer fram dagana 3. – 10. október. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að taka þátt.

Kristín Örnólfsdóttir sem sér um Hannyrðahornið gefur uppskriftir að prjónuðum léttum treflum og litaglöðum barnavettlingum. Kristín er líka með útsaum þar sem hún gefur lesendum hina klassísku setningu Heima er best í nýrri útfærslu.

Bryndís Fjóla Pétursdóttir segir frá lífi sínu í fróðlegu viðtali, en Bryndís lýsir sjálfri sér sem „fornkvendi, frumbyggju og völvu“. Hún ræðir meðal annars um Huldustíginn í Lystigarðinum á Akureyri, mótvægiskubb sem hún hefur hannað og tilraunir sínar með tilfinningar í vatni.

Krossgátan er svo að sjálfsögðu á sínum stað í blaðinu ásamt ýmsu öðru áhugaverðu efni.

Njótið lestursins.

Smelltu hér til að skrá þig í áskrift.

 

Húsfreyjan 3. tbl. 2025 LQ

 

 

Vinnum saman gegn einmanaleika 

Vika einmanaleikans verður dagana 3. til 10. október næstkomandi. 

Vika einmanaleikans er vitundarvakning Kvenfélagasambands Íslands gegn einsemd og einmanaleika. Verkefninu er ætlað að opna á umræðu um einmanaleika í samfélaginu, upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar, hvetja til aðgerða og efla samtakamátt í þjóðfélaginu gegn einmanaleika. Styrktaraðilar verkefnisins eru félags- og húsnæðismálaráðuneytið og Lýðheilsusjóður.

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að leggja höfuðið í bleyti og skipuleggja viðburði sem snúa að góðri samveru og samtali.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands