Húfuverkefni Kvenfélagasambands Íslands

Húfuverkefni KÍ
Erna Lind, fædd 28.10.09, með húfuna.
Mynd tekin á fæðingardeild Landspítalans.

Í tilefni 80 ára afmælis Kvenfélagasambands Íslands árið 2010 fengu öll börn sem fæddust á landinu það ár handprjónaðar húfur með kveðju frá Kvenfélagasambandinu.

  • Húfuverkefnið snérist um að prjóna húfur og afhenda þær öllum börnum sem fæddust á Íslandi árið 2010. Áætlað var að um 5000 húfur þyrfti í verkefnið, en reyndin var sú að það fæddust 4907 börn árið 2010.
  •  Kvenfélagasamband Íslands í samvinnu við Ljósmæðrafélag Íslands og kvenfélögin í landinu stóðu að verkefninu.
  •  Kvenfélagasamband Íslands dreifði verkefnislýsingu og uppskrift að litlum húfum, passlegum á nýbura, ásamt merkimiðum til að merkja húfurnar en þá lagði Ístex leggur til. Á merkimiðunum voru upplýsingar um verkefnið og leiðbeiningar um meðhöndlun á húfunum sem prjónaðar voru úr Kambgarni.
  •  Kvenfélagskonur prjónuðu húfurnar og skráðu nafn sitt og kvenfélags síns á merkimiða sem fylgdu hverri húfu.
  • Hvert kvenfélag skipaði húfumeistara sem hafði umsjón með verkefninu í sínu félagi. Húfumeistararnir tóku á móti húfunum, sáu um að þær væru merktar og komu þeim til formanna kvenfélaganna, húfumeistara héraðssambandanna eða beint til KÍ eða húfumeistara KÍ.
  • Húfumeistararnir eða formenn héraðssambandanna tóka á móti húfum og voru tengiliðir við húfumeistara KÍ sem sáu um að fjöldi móttekinna húfa og áætlaður fjöldi fæðinga færi saman. Þær skipulögðu einnig dreifingu á húfunum til ljósmæðra á fæðingardeildir um allt lan d.  Húfumeistarar KÍ voru Ása Steinunn Atladóttir og Margrét Baldursdóttir.
  • Ljósmæður afhentu svo foreldrum nýburanna húfurnar við útskrift af fæðingardeildum og í heimahúsum þar sem fæðingar áttu sér stað.
  • Einstaklingum utan kvenfélaganna var einnig velkomið að leggja verkefninu lið og var nokkuð um þáttöku utanfélagsfólks í verkefninu. 

    Almenn þátttaka varð um þetta góða verkefni. Markmið þess var tvíþætt, annars vegar að láta gott af sér leiða og gefa öllum nýfæddum börnum handprjónaða  húfu og hins vegar um að vekja athygli á kvenfélögunum í landinu og starfssemi þeirra.
    Kvenfélagasamband Íslands þakkar þátttakendum í Húfuverkefni KÍ 2010 og öllum þeim sem lögðu verkefninu lið, kærlega fyrir ánægjulegt samstarf.

Uppskrift af KÍ húfunni.

Stærð: 0-3 mánaða.
Efni:     Kambgarn frá Ístex
Prjónar: 40 cm. hringprjónn  og sokkaprjónar nr: 2,5 – 3,5
Prjónfesta: Slétt prjón: 24 L  = 10 cm á prjóna nr. 2,5 - 3,5
Sannreynið prjónfestu og skiptið um prjónastærð ef þarf.

Aðferð:
Húfan er prjónuð í hring, fyrst með hringprjóni og síðan með sokkaprjónum þegar lykkjum fækkar í úrtöku.

Fitjið upp 102 lykkjur á 40 cm hringprjón nr. 2,5 – 3,5
Tengið í hring og prjónið 5 umf. perluprjón eða garðaprjón.

Umf. 1. – 3. – 5. – 7. – 9. – 11. o.sv.frv. eru munsturumferðir og prjónaðar skv. eftirfarandi:

*Prjónið 15 lykkjur sléttar, takið 1 lykkju óprjónaða af, prjónið 2 lykkjur sléttar saman, steypið óprjónuðu lykkjunni yfir þá prjónuðu.
Prjónið 15 lykkjur sléttar, sláið bandi upp á prjóninn, prjónið 1 lykkju slétta, sláið bandi upp á prjóninn.*
Endurtakið frá * til * út umferðina.
Síðasta lykkjan í umferðinni er þá "bandið sem slegið var upp á prjóninn"

Umf. 2. – 4. – 6. – 8. – 10. – 12. o.sv.frv. eru prjónaðar slétt (einnig bandið sem slegið var uppá í lok munsturumferðarinnar).
Það band (lykkja) verður síðan alltaf talin lykkja nr. 1 í sléttu umferðinni á eftir til þess að munstrið passi, þó svo að hún sé í rauninni síðasta lykkjan í fyrri umferð.
Þannig að þegar taldar eru 15 lykkjur í byrjun umf. 1. – 3. – 5. o.sv.frv. þá er byrjað að telja í umferðinni á undan þegar síðasta lykkjan er prjónuð.

Prjónið alls 12 útaukningar og 12 úrtökur, samtals 24 umferðir.

Úrtaka í kollinum.
Eftir 24 umferðir er hætt að auka út (ekki er lengur slegið uppá prjóninn) en haldið áfram að taka úr eins og áður (takið 1 lykkju óprjónaða af,  prjónið 2 lykkjur sléttar saman, steypið óprjónuðu lykkjunni yfir þá prjónuðu) en nú er það gert í hverri umferð þar til 12 lykkjur eru eftir.
Prjónið 2 lykkjur saman út umferðina, þá eru 6 lykkjur eftir. Slítið bandið frá og skiljið eftir smá spotta,  þræðið spottann gegnum lykkjurnar og gangið frá.

Böndin:
Teknar eru upp tvær til þrjár lykkjur sitt hvoru megin á húfunni. Ekki er prjónað fram og til baka heldur alltaf í sömu átt. Þegar næsta umferð byrjar liggur bandið af síðustu lykkjunni fyrir aftan og er notað í fyrstu lykkju og myndast þá hringlaga band.(gert með því að ýta prjóninum niður svo lykkjurnar færist á hinn enda hans).
Prjónuð eru ca. 20-25 cm löng bönd.

Ath. Þegar uppskrift byggir á aðferðunum að – taka úr og auka út - þarf að auka út jafn oft og tekið er úr yfir umferðina svo  lykkjufjöldinn breytist ekki.

Uppskriftin er upprunalega frá Storkinum garnverslun en hefur verið einfölduð og breytt nokkuð.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands