Frá árinu 2008 hefur 15. október verið merktur í dagatalinu sem alþjóðlegur dagur kvenna í dreifbýli. Markmiðið er að gera dreifbýliskonur sýnilegri, efla samstöðu þeirra innbyrðis og ekki síður að sýna konum í þeim löndum þar sem staða þeirra er verri, samstöðu og hvatningu. Frá 1929 hefur Alþjóðasamband dreifbýliskvenna (ACWW - Associated Country Women of the World) talað fyrir því að konur í dreifbýli og í afskekktum samfélögum verði viðurkenndar fyrir alþjóðlegt mikilvægi sitt allt árið um kring. Kvenfélagasamband Íslands hefur verið aðili að ACWW síðan 1980.
Samkvæmt tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum er þemað fyrir þetta ár "Dreifbýliskonur sem rækta góðan mat fyrir alla" og það undirstrikar það mikilvæga hlutverk sem konur og stúlkur á landsbyggðinni gegna í fæðukerfi heimsins. Allt frá framleiðslu á uppskeru til vinnslu, undirbúnings og dreifingar matvæla, vinnuafl kvenna - greitt og ólaunað – þær fæða fjölskyldur, samfélög og heiminn. Samt fara þær ekki með sama vald og karlar og þar af leiðandi fá þær minni tekjur og upplifa meira fæðuóöryggi.
Dreifbýliskonur, sem gegna mikilvægu hlutverki í landbúnaði, fæðuöryggi og næringu, standa nú þegar frammi fyrir erfiðleikum í daglegu lífi sínu. Þær eru ólíklegri til að hafa aðgang að gæða heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegum lyfjum og bóluefnum. Takmarkandi félagsleg viðmið og staðalmyndir kynjanna geta einnig takmarkað möguleika kvenna á landsbyggðinni til að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu. Enn fremur þjást margar konur á landsbyggðinni vegna einangrunar, sem og útbreiðslu rangra upplýsinga og skorts á aðgangi að mikilvægri tækni til að bæta vinnu sína og einkalíf.
Veruleikinn er sá að kyn og landafræði ræður allt of oft örlögum fólks. Það hafa orðið framfarir og það ber að viðurkenna. Leiðin framundan er hins vegar löng og ljóst að allt of mörg okkar munu ekki lifa ferðina af.
Þó að ACWW séu fyrst og fremst talsmenn fyrir konur í dreifbýli. Þá stöndum við sem kvennasamtök með fjölbreyttum hópum um allan heim, þar sem kúgunin og misréttið er jafn fjölbreytt og aðstæðurnar sem þessir hópar búa við. Áskorunin gengur út fyrir þörf kvenna til að lifa af, velferð heimsins og málstaður friðar krefst hámarks þátttöku kvenna til jafns við karla á öllum sviðum.
Réttur alls mannkyns til mannsæmandi lífs er lögfestur og samþykktur í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Tölfræðin um dreifbýliskonur sveiflast lítillega á hverju ári, en við sjáum áfram að innan við 15% landeigenda í landbúnaði eru konur. Sem leiðir til minna tekjuöryggis, lélegs aðgangs að lánsfé til að stofna fyrirtæki eða bæta framleiðni í landbúnaði og mun minni rödd í ákvarðanatöku samfélagsins. Stúlkur frá fátækum dreifbýlisheimilum eru líklegri til að giftast fyrir 18 ára aldur en stúlkur frá auðugum þéttbýlissvæðum. Í sumum löndum getur þetta þýtt að yfir 50% stúlkna eru neyddar til að verða barnabrúðir. Rannsóknir sýna að meðalaldur barnabrúða er víða aðeins 14 ára, sá sami og meðalaldur fermingarbarna á Íslandi.
Allstaðar í heiminum verða konur fyrir mismunun, ofbeldi og gífurlegri fátækt. Aukningin á heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi í COVID-19 heimsfaraldrinum sýnir hversu sveiflukenndur raunveruleiki lífsins er fyrir konur um allan heim - og þetta hefur ekki hjaðnað með heimsfaraldri. Auk þess að taka að sér langflest ólaunuð umönnunarstörf og skyldur heimsins í tengslum við fjölskyldu, eru konur síður öruggar í starfi, ólíklegri til að komast áfram eða fá sömu laun og karlarnir í kringum þær og líklegri til að verða fyrir árásum í starfi sínu og á heimilinu. Matar- og vatnsóöryggi er ásamt óstöðugum lífskjörum svo víða um heim. Þessi ójöfnuður birtist í þróunarríkjum og minna þróuðum ríkjum, en ræður lífi kvenna í svokölluðum þróuðum ríkjum líka. Þetta er alþjóðlegt vandamál.
Á hverju ári, á kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna, meðan á samningaviðræðum stendur, skuldbinda aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sig til að grípa til aðgerða í gríðarlegum fjölda mála sem myndu taka á svo mörgum af þeim áskorunum sem konur standa frammi fyrir í dreifbýli og afskekktum samfélögum. Í stað þess að búa til nýjan lista af kröfum og beiðnum, skorar alþjóðsamband dreifbýliskvenna (ACWW) á ríkisstjórnir til að uppfylla skuldbindingar sínar, innleiða framkvæmd alþjóðlegra yfirlýsinga og samþykkta eins og samningsins um afnám hvers kyns mismununar gegn konum ( CEDAW), yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi bænda og annars fólks sem vinnur í dreifbýli (UNDROP), og yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja (UNDRIP).
Í dag köllum við eftir þýðingarmiklum aðgerðum. Við viljum gjarnan sjá fullkominn heim.
Við látum fylgja hér með ályktanir sem samþykkktar voru á á heimsþingi ACWW í maí síðastliðnum og voru áskoranir til ríkisstjórna um allan heim. 10 konur frá Kvenfélagasambandinu voru fulltrúar á heimsþinginu í Malasíu.
„Kynjaáhrifagreining á landsbyggðinni“
„ACWW hvetur ríkisstjórnir til að greina áhrif þess á öll kyn að búa í dreifbýli þegar hugað er að áætlana- og stefnugerð. Tryggja þarf að skoðuð verði áhrif þessara tveggja breytna, að vera kona og að búa í dreifbýli. Lögð er áhersla á að tekið verið fullt tillit til kynjabreytunnar í dreifbýli þannig að dregið verði úr skaðlegum áhrifum fyrirhugaðra áætlana og stefnu um landsbyggðina er varða konur.“
„Stofnun aðgerðaáætlana um atvinnu kvenna í dreifbýli“
„ACWW hvetur allar ríkisstjórnir til að sinna sérstökum þörfum dreifbýliskvenna með því að vinna með fulltrúum kvennahópa til að koma á, innleiða og fylgjast reglulega með aðgerðaáætlun um atvinnumál kvenna sem tryggir aðgang þeirra að þjálfun og menntun; sanngjarna og örugga starfshætti; vinnuskilyrði þeirra og laun; aðgangi að auðlindum eins og fjármagni, efni, tækni og land/eignir og; þar á meðal en ekki takmarkað við ráðgjöf varðandi starfsferil, viðskipti og frumkvöðlastarfsemi."