Ályktanir 38. landsþings KÍ á Húsavík 12. - 14. október 2018

 

„38. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Húsavík  12. – 14. október 2018, fagnar þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur um umhverfismál. KÍ hvetur almenning sem og stjórnendur verslana til að vinna áfram gegn matar- og fatasóun. Innkaup þurfa að vera ábyrg. Fatnað og annan vefnað má endurnýta á ýmsan hátt og stuðla þannig að minni mengun. Takmarka þarf notkun á plasti og öðrum mengandi efnum eins og kostur er.“

Kvenfélagasamband Íslands hefur undanfarin ár staðið fyrir verkefnum sem miða að því að sporna gegn matar- og fatasóun. Á 37. landsþingi sendum við frá okkur ályktun sem hvatti almenning og verslanir til að nýta matvæli betur og á sú ályktun jafn vel við í dag. Við megum aldrei sofna á verðinum.

---------

„38. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Húsavík 12. – 14. október 2018, hvetur konur á Íslandi til að hugsa vel um hjarta sitt og hlusta á það á tímum aukinnar streitu. Við hvetjum einnig stjórnvöld að tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og styðja og styrkja heilsugæslustöðvar út um allt land. Þannig getum við stuðlað að betri heilsu almennings.“

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum.

------

„38. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Húsavík 12. – 14. október 2018,  hvetur stjórnvöld á Íslandi til að styðja betur við Kvenfélagsamband Íslands. KÍ eru regnhlífarsamtök og stærsta tengslanet kvennasamtaka á Íslandi sem leggja mikla sjálfboðavinnu á sig til að styðja og styrkja samfélögin hvert í sinni heimabyggð.

Kvenfélagasamband Íslands fékk til margra ára fjárveitingar frá stjórnvöldum. Félög innan vébanda KÍ hafa í gegnum tíðina stutt við margvísleg verkefni, safnað fé til kaupa á tækjum, átt þátt í að reisa byggingar og aðstoðað á margvíslegan hátt einstaklinga og fjölskyldur.  Á árunum 2006 – 2016 veittu félögin styrki til samfélagsverkefna fyrir um 1 milljarð króna skv. niðurstöðum rannsóknar Rebekku Helgu Pálsdóttur 2017. Því má með sanni segja að stjórnvöld hafi fengið margfalda ávöxtun á því fjármagni sem þau hafa veitt til KÍ.  Til að svo megi áfram verða þarf Kvenfélagasamband Íslands stuðning stjórnvalda.“

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands