Vel mætt á kvenfélags kvöldkaffi á Zoom

Vel var mætt í Kvenfélags kvöldkaffi KÍ á Zoom í gærkvöldi. Skráningar enduðu í 130 en líkast til voru mun fleiri með okkur þar sem margar félagskonur hittust í heimahúsum, í félagsheimilum og víðar á fundum um allt land til að fylgjast með af stórum skjám. Nokkrar konur voru líka erlendis og fór því fundurinn víða um heim.
Gestur fundarins var Bryndís Steina Friðgeirsdóttir sem sagði meðal annars frá því þegar hún ásamt öðrum konum gengu í það í febrúar 2019 að stofna nýtt Kvenfélag í Kópavogi sem fékk nafnið Félag kvenna í Kópavogi kallað FKK. Bryndís var formaður félagsins fyrstu 4 ár þess. Erindið hennar hét "Í fylgd með fullorðnum" sem tengist því að félagskonur FKK voru spurðar að því á landsþingi í Borgarnesi hvort þær væru á þinginu með mæðrum sínum sem var svo sannarlega ekki. Bara hressar ungar konur úr Kópavogi sem hafa gaman að kvenfélagsstarfinu. Bryndís hvatti gesti á fundinum að vera óhræddar við að bjóða ungum konum að taka þátt í kvenfélagsstarfinu.
Stjórn KÍ kynnti sig og Húsfreyjan tímarit fékk sér dagskrárlið.
Síðan fékk Gyða Björg Jónsdóttir formaður Sambands vestfiskra kvenna orðið, en sambandið þeirra er gestgjafi á fertugasta Landsþingi KÍ sem haldið verður á Ísafirði að ári. Hún kynnti meðal annars yfirskrift þingsins sem verður: Valkyrjur milli fjalls og fjöru
Hér má sjá myndband frá þeim að vestan sem spilað var á fundinum. https://youtu.be/gqoR9QLMvzk?si=DK7NgL7gqhkaSwRh
 
Að sjálfsögðu var svo sagt frá Kvennaverkfallinu 24. október og konur hvattar til að taka þátt í skipulagningu á sínum svæðum og að sjálfsögðu að taka þátt á hvern þann hátt sem þær geta. En Kvenfélögin í landinu hafa alla tíð tekið þátt í þessum degi allt frá fyrsta skiptinu fyrir 48 árum. Kvenfélagasamband Íslands er einn af fjölmörgum aðstandendum Kvennaverkfallsins.
Lukkuhjólið var svo að sjálfsögðu á sínum stað og dregið þannig úr happadrættinu. En nöfn allra sem skráðu sig voru á hjólinu. Þakkir til allra sem gáfu vinninga í happadrættið. Haft verður samband við alla vinningshafa.
Takk allar fyrir góða samveru. 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands