Ályktanir 37. landsþings KÍ, 9. - 11. október 2015

Ályktanir 37. landsþings Kvenfélagasambands Íslands, Selfossi 9. - 11. október 2015

Í ár  fögnum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi. 37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 hvetur allar konur til að nýta kosningarétt sinn. Enn í dag hafa ekki allar konur í heiminum kosningarétt eða fá að nýta kosningarétt sinn. Þá er dræm kosningaþátttaka ungs fólks áhyggjuefni. Kvenfélagskonur, fræðum yngri kynslóðir um skyldur og ábyrgð sem fylgir kosningarétti, mikilvægi þess að mæta á kjörstaði og nýta réttindi sín.

Á formannaráðsfundi KÍ í nóvember 2013 var samþykkt að boða til aðgerða með kvenfélagskonum og þjóðinni allri til að sporna gegn sóun matvæla.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 fagnar vitundarvakningu sem orðið hefur um bætta nýtingu matvæla og hvetur almenning sem og stjórnendur matvöruverslana, mötuneyta og veitingastaða til að vinna áfram gegn matarsóun. Innkaup þurfa að vera ábyrg.

Matvara sem komin er á síðasta söludag eða nálgast “best fyrir” stimpil, er í flestum tilfellum í lagi sé hún nýtt strax eða fryst. Slíkar matvörur ætti að gefa eða bjóða til sölu á niðursettu verði.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 hvetur atvinnurekendur til að kynna sér og sækja um jafnlaunavottun.

Jafnlaunavottun er markviss leið fyrir atvinnurekendur til að uppfylla kröfur jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands. Vottunin er tæki til að meta stöðu kynjanna með viðurkenndri aðferðafræði og samræmdum viðmiðum. Ferlið gefur atvinnurekendum jafnframt tækifæri til að leiðrétta kynbundinn launamun, ef slíkur munur er til staðar.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 hvetur til þess að sjálfboðin störf séu metin að verðleikum, gerð sýnileg og tekið mið af þeim við gerð efnahagslegra líkana og félagshagfræðilegrar áætlanagerðar.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 fagnar því að ríkisstjórn Íslands ætlar að taka á móti flóttafólki frá stríðshrjáðum löndum. Þingið leggur áherslu á að vandað verði til móttöku fólksins. Fræðsla og menntun eru meginforsendur aðlögunar að íslensku samfélagi. Mikilvægt er að tryggja flóttamönnunum gott aðgengi að íslensku menntakerfi og þeir fái tækifæri til að miðla þekkingu sinni og reynslu. Gagnkvæm virðing og þekking á ólíkum menningarheimum eru forsendur fyrir umburðarlyndi og góðum samskiptum. Þá hvetur þingið kvenfélög til að leggja sitt að mörkum í móttöku nýbúa hvert á sínu starfssvæði og kynna félagsstarfið fyrir konum af erlendum uppruna.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 fagnar “Þjóðarsáttmála um læsi” sem mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög hafa undirritað. Þingið hvetur alla foreldra og forráðamenn til að vera meðvitaða um mikilvægi þess að byrja snemma að lesa fyrir og með börnum.  Einnig hvetur fundurinn til aukinnar útgáfu hljóðbóka. Notkun þeirra getur stuðlað að betri málþroska og hlustunarskilningi. Góður málþroski er undirstaða að góðu læsi.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 skorar á stjórnvöld að ljúka gerð geðheilbrigðisstefnu og framkvæmdaáætlunar henni tengdri. Málið þolir enga bið.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 krefst þess að stjórnvöld standi vörð um öll menntastig á landsbyggðinni, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.

37. landsþing KÍ haldið á Selfossi 9. – 11. október 2015 skorar á skólafólk og yfirvöld menntamála að efla fræðslu í kynjafræði, í öllum grunn- og framhaldsskólum.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands