corona 5124524 640Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands fundaði á Teams sl. laugardag 21. nóvember á 61. formannaráðsfundi.   Mjög góð mæting var á fundinn og voru umræður góðar. Ásamt venjubundnum dagskrárliðum voru kynnt verkefni ársins og þau verkefni sem eru framundan. Eva Michelsen sagði frá verkefnum afmælisnefndar og stöðu söfnuninarinnar Gjöf til allra kvenna á Íslandi. Þá fór fram undirbúningur og umræður vegna landsþings sem haldið verður  í Borgarnesi  í október 2021.  Fundarhald hefur að mestu legið niðri hjá samböndunum en kvenfélögin hafa sýnt mikla hugmyndaauðgi í verkefnum sínum og fjáröflun á þessu skrýtna ári. Vonast er til að formannaráð geti fundað í febrúar á næsta ári með venjubundnum hætti. 

Stjórn KÍ þakkar fulltrúum á fundinum kærlega fyrir góða mætingu á fundinn. 

 

Fundurinn sendir frá sér eftirfarandi ályktanir. 

Ályktun um sérfræðiþjónustu lækna

61. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í fjarfundi laugardaginn 21. nóvember 2020 beinir því til stjórnvalda að tryggja jafnt aðgengi allra landsmanna að sérfræðilæknum. Í dag þurfa margir að ferðast um langan veg til að fá þjónustu þeirra.  Því fylgir ferðakostnaður og vinnutap fyrir þann sem sækir þjónustu og jafnvel fyrir fylgdarmann. Mun hagkvæmara væri að fá þessa þjónustu í meiri mæli í heimabyggð, ýmist með fjarheilbrigðislausnum eða reglulegum heimsóknum sérfræðinga.

 

 

Ályktun um heilsu og hreyfingu félagskvenna

61. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í fjarfundi laugardaginn 21. nóvember 2020 hvetur kvenfélög til að huga vel að félagskonum sínum á tímum samkomutakmarkana í heimsfaraldri. Á meðan félagsstarf er takmarkað þarf að leita leiða til að rjúfa einangrun og hvetja félagskonur til að huga að heilsu og hreyfingu.

 

 

ÁHEITABAKSTUR KVENFÉLAGSKVENNA – BAKAÐ Í HEILAN SÓLARHRING - BÖKUM BETRA SAMFÉLAG

Kvenfélagskonur í Kvenfélagasambandi Íslands standa fyrir áheitabakstri í heilan sólarhring til að styðja við söfnunina Gjöf til allra kvenna á Íslandi.

Söfnunin hefur staðið allt árið í tilefni 90 ára afmælis Kvenfélagasambands Íslands.  Landssöfnunin Gjöf til allra kvenna á Íslandi safnar fyrir tækjakosti og hugbúnaði þeim tengdum, þ.e. rafrænar tengingar við sérfræðinga kvennadeildar LSH og stuðla þannig að bættri heilsuvernd kvenna um land allt.  

Á þessu herrans ári hefur heimsfaraldur Covid- 19 haft víðtæk áhrif á söfnunina þar sem ekki hefur verið hægt að halda þá fjölmörgu viðburði sem áttu að styðja við söfnunina, en kvenfélagskonur eru hugmyndaríkar og ætla sér að ná takmarki sínu. 

Því ætlar hópur kvenfélagskvenna að standa fyrir áheitabakstri eftir að hafa fengið grænt ljós hjá almannavörnum og heilbrigðiseftirlitinu. Bakað verður í deilieldhúsinu Eldstæðið sem er fullvottað eldhús. Þær munu byrja baksturinn klukkan 18:00 föstudaginn 27. nóvember til klukkan 18.:00 Laugardaginn 28. nóvember. Í takt við tíðarfarið munu Kvenfélagskonur víða um land taka þátt með fjarbakstri heimavið.  Hægt er að skrá sig til þátttöku í bakstrinum á skráningarformi

Áheit er hægt að leggja inn á söfnunarreikninginn 513-26-200000 kt: 710169-6759, framlög eru frjáls.

Auk þess mun afraksturinn verða boðin til sölu og hægt að sækja eða fá sent heim eftir því hvað hentar fólki best. Öll vinna kvenfélagskvenna er að sjálfsögðu unnin í sjálfboðavinnu og allur ágóði rennur beint í söfnunina.

Frábært tækifæri til að nálgast löglegar sörur og fleira góðgæti.   Hægt verður að leggja inn pantanir á heimasíðunni www.gjoftilallrakvenna.is 

Pöntunarform

Nánar á viðburðinum á facebook

 

Helgina 20. - 21. nóvember nk. var fyrirhugað að halda jólafund og afmælisfagnað í tilefni 90 ára afmælis KÍ, en þeir viðburðir verða því miður felldir niður vegna sóttvarna.    

Formannaráðsfundur  laugardaginn 21. nóvember verður færður í netheima og mun fara fram rafrænt. Formannaráð hefur verið sent fundarboð, vinsamlega notið skráningarformið í fundarboðinu og tilnefnið annan fulltrúa ef þið einhverra hluta vegna getið ekki mætt. 

kvennafri-1018-360-768x272.jpg

 

Konur lifa ekki á þakklætinu!

24. október 1975 lögðu konur niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Í dag, 45 árum síðar, er framlag kvenna til samfélagsins ekki enn að fullu metið að verðleikum.  

Konur eru enn með 25% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Þar með hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir sex klukkustundir og eina mínútu miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 15:01.

Við glímum við mesta heimsfaraldur í heila öld. COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif á efnahag okkar, heilsu og jafnrétti. Konur bera hitann og þungan af baráttunni gegn faraldrinum og verða að sama skapi fyrir mestum skaða af völdum hans, fjárhagslegum, heilsufarslegum og samfélagslegum.  

Húsfreyjan 3. tbl. 2020 LQHaustblað Húsfreyjunnar er komin til áskrifenda eða á leið til þeirra og komin á sölustaði víða um land. Áskrifendur taka nú eftir því að blaðið kemur núna í umslagi en ekki í plastpoka einsog verið hefur. Það er stefnan að losa okkur við plastið, og á vel við núna í Plastlausum september.
Efni blaðsins er fjölbreytt að vanda. Margrét D. Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans prýðir forsíðuna í garði skólans. Hún segir frá sögu skólans og frá sjálfri sér í aðalviðtali blaðsins, ásamt því að gefa lesendum klassískar uppskriftir í matarþætti. Enn fáum við að njóta ljóða sem bárust í Ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar á 70 ára afmælinu. Ásdís Sigurgestsdóttir sér um handavinnuþáttinn og gefur uppskriftir að fallegri barnapeysu, eyrnabandi og skemmtilegt útsaumsverkefni. Kristín Aðalsteinsdóttir er ein þeirra sem nýtur þess að baka brauð, hún deilir langri reynslu sinni, aðferðum og upskriftum að brauði með lesendum. Dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir ræðir mikilvægi þess að fara vel með röddina. Leiðbeiningastöð heimilanna gefur uppskriftir úr rabarbara og fjallar um þrif á tímum Covid 19. Margréti Einarsdóttur skólastjóri Vesturbæjarskóla er viðmælandi í spurt og svarað. Þetta og margt fleira í Húsfreyjunni að þessu sinni. Að lokum vill útgáfustjórn Húsfreynnar minna á að í blaðinu er kynnt til sögunnar smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar í vetur. Sögurnar skulu hafa borist fyrir 1. mars 2021. Samkeppnin er öllum opin. Njótið blaðsins

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands