95. ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna var haldinn að Borg í Grímsnesi laugardaginn 29. apríl sl. Yfirskrift fundarins var Virðum veröld - Vöndum valið - Nýtum nærumhverfið. Kvenfélag Grímsneshrepps var gestgjafi fundarins og tók vel á móti fulltrúum. Nýr formaður sambandsins var kjörinn Sólveig Þórðardóttir úr Kvenfélagi Villingaholtshrepps, en hún tekur við góðu búi frá Elinborgu Sigurðardóttur sem verið hefur formaður sambandsins í níu ár. Elinborgu voru færðar þakkir fyrir ötult starf síðastliðin ár frá stjórn sambandins og frá Jennýju Jóakimsdóttur starfsmanni KÍ. Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri KÍ sagði frá starfi Kvenfélagasambands Íslands í máli og myndum. Á fundinum var valinn Kvenfélagskona ársins innan sambandsins og var það Guðrún Þóranna Jónsdóttir í Kvenfélagi Selfoss sem var valinn að þessu sinni fyrir sitt góða starf.
Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands og byggðaþróunarfulltrúi SASS var með erindið: Get ég fjármagnað verkefnið mitt? - þáttur Uppbyggingasjóðs Suðurlands. Margrét Steinunn Guðjónsdóttir sagði frá starfsemi í Krabbameinsfélags Árnessýslu. ásamt því að stjórnarkonur í félaginu tóku nokkur lög fyrir gesti fundarins. Að loknum fundi var boðið til móttöku í Ártanga þar sem Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir tóku á móti gestum og sögðu frá starfsemi gróðurhússins þar.
Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í boði sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps og dagskrá og skemmtun í umsjón Kvenfélags Grímsneshrepps.
Nýr formaður SSK Sólveig Þórðardóttir og Elinborg Sigurðardóttir fráfarandi formaður SSK.
Elinborg ásamt kvenfélagskonu ársins innan SSK, Guðrún Þórönnu Jónsdóttur
Elinborg ásamt Jennýju Jóakimsdóttir starfsmanni sem mætti á fundinn og þakkaði Elinborgu gott samstarf síðastliðinna ára.
Nýkjörinn formaður SSK Sólveig Þórðardóttir, fráfarandi formaður Elinborg Sigurðardóttir ásamt fyrrum formönnum þeim; Rosemarie Brynhildur Þorleifsdóttir, Þórunn Drífa Oddsdóttir og Drífa Hjartardóttir.
Móttaka í gróðurhúsunum í Ártanga.