Norrænir Mörtudagar í Kuopio í Finnlandi 15.–17.  júní 2023

 Smökkum á Savo

 Á dagskránni verður kynning á matarmenningu Savo, heimsóknir til matvælaframleiðenda á svæðinu, borgin býður gestum í móttöku, heimsókn á víngarð, leiðsögn um borgina og gægst verður inn í eldhús hjá kvenfélagskonum (Mörtum) í Savo.

Meðal gesta og fyrirlesara verða þingmenn Evrópuþingsins, Sirpa Pietikäinen, forseti Marttaliitto, og  Marianne Heikkilä, framkvæmdastjóri Marttaliitto.

Verðið er 280 evrur. (Hótelherbergi og ferðakostnaður til Kuopio eru ekki innifalin í verði.)

Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar:

Mörtudagar1.png

Mörtudagar2.png

Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) fundaði á Hótel Laka, Kirkjubæjarklaustri á 67.  formannaráðsfundi helgina 10. – 11. mars sl.

Formannaráð fer með æðsta vald um málefni KÍ milli landsþinga KÍ sem haldin eru á þriggja ára fresti. Á fundinn mæta formenn og fulltrúar héraðssambanda KÍ ásamt stjórnarkonum KÍ.

Fundurinn að þessu sinni var aðalformannaráðsfundur milli landsþinga og ásamt öðrum aðalfundarstörfum var kosin nýr ritari í stjórn, varastjórnarkona var endurkjörin og kjörnefnd kosin fyrir landsþingið á Ísafirði 2024.

Formannaráðið lætur sig mörg mál varða og ræðir á fundum sínum mál er varða kvenfélögin í landinu og þau mál sem eru í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Að þessu sinni sendir formannaráð frá sér eftirfarandi ályktun varðandi geðheilsu.

67. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn á Hótel Laka, Kirkjubæjarklaustri dagana 10.-11. mars 2023 sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Geðheilsa er vaxandi vandamál í þjóðfélaginu.  Fundurinn hvetur stjórnvöld til að gefa þessum málaflokki enn meiri gaum en nú er, hlúa betur að veikum einstaklingum og grípa þá fyrr inn til aðstoðar.

Geðheilsa er jafn mikilvæg og líkamleg heilsa og því má ekki sofna á verðinum þó svo að geðheilsan sé ekki eins sýnileg og líkamlegt sár.  Í þjóðfélagsumræðunni heyrast margar alvarlegar sögur um mjög veika einstaklinga sem kerfið nær ekki að grípa.  Átröskun, kvíði, sjálfsvíg, kulnun, allt eru þetta alvarlegir sjúkdómar sem einstaklingar bera oft ekki utan á sér og skellur hart á aðstandendum.  Því þarf að gera átak í að grípa einstaklingana fyrr, hlúa að þeim og aðstandendum þeirra sem oftar en ekki þurfa að glíma við áföll í kjölfarið.

Kosin var ný kona í stjórn Kvenfélagasambands Íslands. Helga Magnúsdóttir frá Félagi Kvenna í Kópavogi (FKK) í Kvenfélagasambandi Kópavogs (KSK) var kosin ritari KÍ til næstu þriggja ára. Sólrúnu Guðjónsdóttur frá Kvenfélaginu Gleym mér ei í Grundarfirði var þakkað fyrir vel unnin störf síðastliðin 6 ár sem ritari KÍ.  Björg Baldursdóttir frá Kvenfélagi Garðabæjar var endurkjörin í varastjórn KÍ til þriggja ára.

Kjörnefnd var endurkjörin og í henni sitja:

Aðalkonur

Elfa Eydal Ármannsdóttir, Kvenfélagi Ólafsvíkur (KSH)

Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Kvenfélagi Selfoss (SSK)

Gyða Björg Jónsdóttir, Kvenfélaginu Hvöt Hnífsdal (SVK)

Varakonur

Ágústína Sigríður Konráðsdóttir, Kvenfélagi Eiðaþinghár (SAK)

Sólrún Tryggvadóttir, Kvenfélagi Selfoss (SSK).

Það var Samband vestur skaftfellskra kvenna sem var gestgjafi þessa 67. formannaráðsfundar og er sambandinu þakkað kærlega fyrir góða skemmtun og viðgjörning á Kirkjubæjarklaustri.

 

Stjorn KI small web

Stjórn KÍ: Frá vinstri: Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ, Björg Baldursdóttir varastjórnarkona, Helga Magnúsdóttir nýkjörin ritari, Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ, Þuríður Guðmundsdóttir meðstjórnandi og Magðalena Karlotta Jónsdóttir gjaldkeri.  á myndina vantar Helgu Guðmundsdóttir varastjórn sem ekki átti heimangengt á fundinn. 

  hopur small web

 Kátar konur á Kirkjubæjarklaustri að loknum góðum fundi. 

Efst frá vinstri: Eydís Dóra Einarsdóttir SASK, Þóra Sverrisdóttir SAHK, Jóna Rún Gunnarsdóttir KSGK, Gyða Björg Jónsdóttir SVK, Regína Sigurðardóttir KVSÞ, Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir SSK, Elinborg Sigurðardóttir SSK, Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri KÍ, Ása Erlingsdóttir SBK, Sólrún Guðjónsdóttir fráfarandi ritari KÍ, María Sigurbjörnsdóttir Líkn, Miðröð frá vinstri: Helga Magnúsdóttir ritari KÍ, Helga Magnea Steinsson SAK, Björg Baldursdóttir varastjórn KÍ, Jenný Jóakimsdóttir starfsm KÍ, Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ, Þuríður Guðmundsdóttir meðstjórnandi KÍ, Herdís Hermannsdottir Líkn, Lína Hrönn Þorkelsdóttir KSH. Neðsat röð sitjandi: Kristín Snorradóttir SSK Skagafirði, Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ og formaður SVSK, Lísa Þorsteinsdóttir SASK og Guðbjörg Ósk Jónsdóttir SASK. 

 

 

 

 

 

 

 

Á dögunum voru fáni og forseta keðja Norrænu kvennasamtakanna (Nordens Kvinneforbund - NK) afhent Kvennasafninu (Kvinnemuseet) í Kongsvinger í Noregi til varðveislu.  Keðjan sem er úr silfri var gjöf frá Hjemmenes Vels Landsforbund (landssamtökum heimila og velferðarmála í Noregi stofnað 1915, seinna eða 1933 var nafni breytt í Húsmæðrasamtök Noregs og 1997 var nafninu svo  breytt í Norges Kvinne- og familieforbund).  Það var Aina Alfredsen Forde frá Norges Kvinne- og familiforbund sem afhenti safninu kveðjuna.  

Norrænu kvennasamtökin NKF voru stofnuð árið 1919 og gekk KÍ til liðs við þau árið 1949. Norðurlöndin skiptust þar á formennsku, sökum fjárskorts tók Ísland þó ekki við formennsku fyrr en árið 1976 er Sigríður Thorlacius, þáverandi forseti KÍ, varð formaður samtakanna. Á árunum 1996-2000 var Drífa Hjartardóttir þáverandi forseti KÍ formaður þeirra. Árið 2016 tók Guðrún Þórðardóttir þá  forseti KÍ við formennsku samtakanna, allt til slita þeirra árið 2022.  Árlega voru haldin sumarþing NKF, þar sem tekið var á þeim málefnum sem NKF og aðildarsamtök þeirra létu sig varða. Síðasta NKF þingið var haldið í Reykjanesbæ sumarið 2022. Á vel heppnuðu þingi á Íslandi var NKF formlega slitið, en það var sameiginleg ákvörðun stjórnar NKF að ekki væri lengur skilyrði fyrir því að halda áfram samstarfinu í mynd NKF, þar sem flest þeirra landa sem voru upphaflega í samstarfinu höfðu slitið sig frá NKF og/eða slitið sínu starfi.  Guðrún Þórðardóttir síðasti forseti NKF afhenti Ainu formanni Norges Kvinne- og familieforbund keðjuna á hátíðarkvöldverði á þinginu í Reykjanesbæ, í þeim tilgangi að koma henni til varðveislu í Noregi.  

Nánar m kvennasafnið í Kongsvinger: https://kvinnemuseet.no/

 

Overrekking av presidentkjede small

Aina Alfredsen afhendir Hilde Herming fagstjóra á Kvinnemusseet keðjuna 

Overrekking av fana small

 

Keðjan NKF Small

 

 

Guðrún og Aina web

Guðrún Þórðardóttir síðasti forseti NKF afhendir Ainu Alfredsen Forde keðjuna og fánann í Reykjanesbæ sumarið 2022. 

Nú er Húsfreyjan komin eða á leið til áskrifenda.  Í þessu fyrsta tölublaði ársins sem kemur út í febrúar er áherslan í blaðinu á fjölbreyttan hóp kvenfélagskvenna og starf kvenfélaganna víða um land. Katrín Tanja Davíðsdóttir heimsmeistari í CrossFit og kvenfélagskona í Hvítabandinu er í forsíðuviðtalinu að þessu sinni og fá lesendur að kynnast lífi þessarar kraftakonu.  Eva Michelsen er svo önnur kraftakona sem við fáum að kynnast en Eva er raðfrumkvöðull, ævintýramanneskja, bókhaldsnörd og kvenfélagskona í Kópavogi sem meðal annars rekur Eldstæðið sem er deili- eldhús í Kópavoginum.

Lilja Sverrisdóttir úr Kvenfélaginu Hjálpin í Eyjafjarðasveit segir frá bókinni Drífandi daladísir sem félagið gaf út í tilefni af 100 ára sögu félagsins. Lesendur fá svo að kynnast Hildi Harðardóttur sem er formaður stjórnar kvenna í orkumálum sem segir frá starfinu í félaginu, en hlutverk þess er að stuðla að jafnrétti í orkumálum, efla þátt kvenna og styrkja tengsl kvenna innan orkugeirans.

Í blaðinu er sagt eins og alltaf frá starfi Kvenfélagasambands Íslands, ásamt því sem nokkur kvenfélög eru heimsótt. Þeirra á meðal eru Kvenfélagið Iðunn í Eyjafjarðarsveit sem nýlega fagnaði 90 ára afmæli félagsins. Svo er það Guðný Nanna Þórsdóttir sem er í viðtali við ritstjóra og segir frá sjálfri sér og þeim fimm fræknu í Kvenfélaginu Einingu á Skagaströnd.

  1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar. Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, (1930) var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár.  Það var enda löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.

    Dagurinn hefur fest sig í sessi undanfarin 12 ár og er hans nú getið á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum.

    Kvenfélagasambandið var stofnað árið 1930 sem sameiningar og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu sem þá þegar voru orðin fjölmörg. Fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869.
    Konur hafa síðan þá stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið, sérstaklega hvað varðar málefni barna, kvenna og fjölskyldna.
    Má segja að konur hafi með því tekið völdin í sínar hendur löngu áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfinu með kjörgengi og kosningarétti.
    Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu afar mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum.

    Kvenfélagskonur um land allt halda uppá daginn hvert með sínum hætti.

    Kvenfélagasambandið hvetur allar kvenfélagskonur til að halda daginn hátíðlegan og landsmenn alla til að heiðra kvenfélagskonur þennan dag.

Dagur kvenfelagskonunnar 1

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands