1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar.
Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, (1930) var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Það var enda löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.
Dagurinn hefur fest sig í sessi undanfarin ár og er hans nú getið á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum. Kvenfélagasamband Íslands í samstarfi við RÚV og sveitarfélögin í landinu minnir á og vekur athygli á deginum í fjölmiðlum.
Kvenfélög og kvenfélagskonur eru hvattar til að muna eftir deginum og jafnvel gera sér dagamun hver og ein eða saman, en einnig að vera tilbúnar til að taka á móti hamingjuóskum og athygli þennan dag.
 
Dagur kvenfelagskonunnarvef

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) hefur í samstarfi við Saumahorn Siggu gefið út þrjú myndbönd með algengum viðgerðum á fatnaði.   Myndböndin eru hluti af verkefninu Vitundarvakning um fatasóun sem KÍ hefur unnið að síðastliðin ár með stuðningi frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytini.

Myndböndin sína einfaldar aðferðir við algengar viðgerðir.

Þau eru: að þrengja streng, að stytta buxur og að gera við gat.

Myndböndin er hægt að sjá hér að neðan og á Youtube rás Kvenfélagasambands Íslands.

Jólablað Húsfreyjunnar hefur nú verið sent til áskrifenda og komið í verslanir. Að venju er blaðið stútfullt af efni.

Í forsíðuviðtalinu að þessu sinni er Sesselja Ómarsdóttir sviðsstjóri lyfjaþróunardeildar Alvotech. Sesselja segir frá sjálfri sér, starfi sínu og áhugamálum en hún æfir meðal annars kraftlyftingar af mikum krafti. Í blaðinu er sagt frá nýliðnu landshelgi Kvenfélagasambandsins sem haldið var í Borgarnesi í október síðastliðin og sagt er frá kjólunum Laufey sem frumsýndir voru á þinginu.

Albert Eiríksson eldar fyrir Húsfreyjuna og gefur uppskriftir að ljúffengum réttum sem kitla bragðlaukana á aðventu og jólum en hann hélt jólaboð á Ísafirði sem hann segir lesendum frá.

Fleiri smásögur eru í blaðinu og nú er það sú saga sem fékk þriðju verðlaun í Smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar; Mangógrautur og döðlubrauð eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur og Þórdís Sigurbjörnsdóttur fær aðra sögu birta „Barnasaga fyrir fullorðna“ sem á vel við í aðventu- og jólablað.

Dagbjört Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur í Mývatnssveit hitti Húsfreyjuna og segir frá sér og sínum hugðarefnum. Þær Alda og Þóra, eigendur Hannyrðabúðarinnar á Selfossi sjá um Hannyrðahornið og gefa uppskriftir að Dömuhönskum, glitrandi snjókorni ofl.

Við fáum innsýn í jólin og aðventuna í Skotlandi hjá mæðgunum Ingu Geirsdóttur og Margréti Snorradóttur sem segja okkur aðeins frá því hvernig Skotar halda upp á jólin. Að sjálfsögðu er svo Krossgátan á sínum stað. Njótið aðventunnar kæru lesendur.

Smelltu hér til að skrá þig í áskrift:

Arnar Björnsson fréttamaður og Landinn kíktu við á Vinnusmiðju í fatabreytingum sem haldin var á Hallveigarstöðum 17. nóvember sl.  Var sýnt frá því í Landanum síðastliðin Sunnudag og fjallað um verkefni KÍ Vitundarvakning um fatasóun. Rætt var við aðalleiðbeinanadnann á Vinnusmiðjunni, Sigríði Tryggvadóttur í Saumahorn Siggu, Guðrúnu Kristjönu Hafsteinsdóttur kvenfélagskonu í Mosfellsbæ sem er í vinnuhóp verkefnisins og Jennýju Jóakimsdóttur starfsmann KÍ og umsjónarmann verkefnisins. Kvenfélög geta haft samband við skrifstofu KÍ ef þau óska eftir að halda svona vinnusmiðjur eða óska eftir fræðslu um verkefnið. 

Ágústa Magnúsdóttir Kvenfélagi Garðabæjar og Guðrún K. Hafsteinsdóttir Kvenfélagi Mosfellsbæjar voru þátttakendum til aðstoðar ásamt Sigríði leiðbeinanda.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands