21. júní sl. fór fram á Hallveigarstöðum Minningarathöfn til að minnast 100 ára dánardags Ólafíu Jóhannsdóttur.
Ólafía var forvígismaður íslenskrar kvennabaráttu, byltingarkona og heimskona. Hún ferðaðist víða um Ísland og hélt fyrirlestra á vegum Hvítabandsins. Síðar fór hún til Bandaríkjanna, Kanada, Englands, Skotlands og Noregs til að halda fyrirlestra um jafnréttismál, menntamál, trúmál, lífeyrisréttindi og heilbrigðismál.
Árið 1912 stofnaði hún heimili fyrir utangarðskonur og skrifaði síðan bókina Aumastar allra: Myndir frá skuggahliðum Kristjaníu.
Bókin vakti mikla athygli bæði á Íslandi og erlendis, var endurútgefin oft í Noregi og einnig þýdd yfir á ensku og gefin út í Kanada. Ólafía ritaði síðar endurminningar sínar Frá myrkri til ljóss. Bókin, sem gefin var út árið 1925, var tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu en þetta var í fyrsta sinn sem sjálfsævisaga konu kom út á prenti. Saga Ólafíu er samofin sögu íslenskra kvenna á ofanverðri nítjándu öld og fram yfir aldamótin 1900. Hún er jafnframt saga skapríkrar konu sem fór ævinlega sína leið og þegar öll sund virtust lokuð fann hún frelsi sitt og lífsbjörg í trú á kærleiksríkan Guð. Í krafti þess gerði hún sér heimili meðal vændiskvenna, fátæklinga og drykkjumanna í Ósló.
Ólafía er þjóðkunn í Noregi fyrir störf sín þar en í heimalandi sínu er hún síður þekkt. Fáir vita að hún var forvígismaður íslenskrar kvennabaráttu, byltingarkona og heimskona sem ferðaðist víða og kynntist jafnt hefðardömum sem niðurbeygðum konum götunnar.
Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir ritaði Ævisögu Ólafíu sem kom út 2006.