Húsfreyjan er að vanda stútfull af fjölbreyttu efni fyrir lesendur.
Forsíðuviðtalið að þessu sinni er við Sesselju Ingibjörgu Barðdal Reynisdóttur. Sesselja er framkvæmdastýra DRIFTAR EA á Akureyri, félags sem hefur það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Fyrir fimm árum síðan eignuðust hún og maður hennar Einar, Selmu Sól sem er einstök stelpa en hún fæddist með sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast Apert Syndum. Sesselja ræðir um sólargeislann Selmu Sól og fallegu fjölskylduna sína í einstöku viðtali.
Það er svo hvunndagshetjan Guðný Guðmundsdóttir ásamt manni sínum Sveini Björnssyni sem er í viðtali um lífið og tilveruna á Siglufirði. Í viðtalinu segir Guðný frá lífinu eftir að hún þá nýorðin þrjátíu og þriggja ára gömul fékk heilablóðfall þá nánast fullgengin með yngra barn sitt.
Síðan eru það úrslitin í Smásögusamkeppni Húsfreyjunnar sem eru kynnt. En margir hafa beðið eftir því að heyra af þeim. Verðlaunasagan er birt. Ritstjórn Húsfreyjunnar þakkar öllum þeim sem sendu inn sögur en alls bárust 33 smásögur í keppnina. Auk Verðlaunasögunnar verða níu sögur birtar í næstu tölublöðum. Sögur til að lesa og njóta.
Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ deilir með lesendum hugleiðingum sínum að lokinni ferð sinni á Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna í New York í mars síðastliðnum.
Sædís Ólöf Þórsdóttir ræðir við Húsfreyjuna um kertaframleiðslu og ferðaþjónustu á Vestfjörðum sem hún ásamt manni sínum Gunnari Inga Hrafnssyni reka á Ísafirði.
Hildur Dagbjört Arnardóttir, landslagsarkitekt, vistræktarkennari, grænmetisbóndi og frumkvöðull í umhverfismálum segir frá Gróanda á Ísafirði sem hún hefur rekið síðastliðin 8 ár. Hún ræðir um umhverfismálin og gefur góð ráð fyrir áhugasama um ræktun
Aðalbjörg Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og rithöfundur skrifar um einmanaleika og bókina sína “Einmana – tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar”
Í hannyrðahorninu gefur Sjöfn Kristjánsdóttir lesendum uppskriftir af einstaklega fallegum prjónuðum flíkum fyrir yngstu kynslóðina.
Í matarþætti Húsfreyjunnar fer Albert Eiríksson með lesendur í boð til Bjarkar Jónsdóttur söngkonu. Björk galdrar fram veislur að því er virðist fyrirhafnarlaust og gefur uppskriftir að góðgætinu sem borið var fram í boðinu, má þar nefna; sítrónuköku með vanilla og sítrónusírópi, Ostastangir, marengsrúllutertu með hindberjarjóma, arabískar kjötbollur, vatnsmelónusalat og margt fleira gómsætt sem gaman verður að spreyta sig á í veislum sumarsins.
Guðrún Guðjónsdóttir, framhaldsskólakennari segir sögu um ferð sem hún fór í ein til Balí en þar ferðaðist hún um og fór á jóganámskeið.
Leiðbeiningastöð heimilanna er svo með pistil um hversu oft við eigum að þvo rúmfötin okkar. Þetta ásamt Krossgátunni á sínum stað í vorblaði Húsfreyjunnar.
Þú getur gerst áskrifandi á husfreyjan.is, Húsfreyjan er einnig seld í lausasölu víða um land.