HeiðursfélagarKSGK90. aðalfundur Kvenfélagasambands Gullbringu og Kjósarsýslu KSGK var haldinn í Gjánni í Grindavík laugardaginn 2. mars sl. Gestgjafi var Kvenfélag Grindavíkur. Var fundurinn vel sóttur af þeim 10 félögum sem saman mynda KSGK. Félög kynntu fjölbreytt störf sín á sínum svæðum.

Sigríður Finnbjörnsdóttir  og Ása Atladóttir voru gerðar að heiðursfélögum KSGK á aðalfundinum. Eru þær á myndinni hér til hliðar. 

Að loknum fundi var svo móttaka þar sem Bæjarstjóri Grindavíkur Fannar Jónasson, hélt ávarp og bauð konur velkomnar í bæinn og sagði frá sögu Grindavíkur. Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir bauð síðan upp á stórkostlegan söng.

Um kvöldið var svo haldin afmælishátíð í Gjánni þar sem félögin buðu upp á fjölbreytt heimatilbúin skemmtiatriði. Forseti KÍ Guðrún Þórðardóttir færði félaginu fallega gestabók og góðar kveðjur frá Kvenfélagasambandi Íslands. Vel heppnað kvöld þar sem um 150 konur sungu fjöldasöng og skemmtu sér við hlátur og dans fram undir miðnætti.

Sambands sunnlenskra kvenna sendir frá sér eftirfarandi ályktun sem samþykkt var á formannafundi á Selfossi 27. febrúar 2019

Ályktun samþykkt á Formannafundi Sambands Sunnlenskra kvenna 27. Febrúar 2019.
Mikilvægt er að viðhalda sérstöðu Íslands hvað varðar hollustu matvæla og heilbrigði búfjár. Sýklalyfjaónæmar bakteríur eru nú taldar ein stærsta ógn við lýðheilsu um heim allan. Einnig eru víða landlægir dýrasjúkdómar, sem íslenskt búfé og gæludýr hafa ekki ónæmi gegn.
Við teljum að neytendur geti haft mikil áhrif á hvernig þessi mál þróast með því að vanda valið við innkaup matvæla. Með því að velja matvörur, grænmeti, kjöt og mjólkurvörur, sem framleiddar eru innanlands stuðla neytendur að matvælaöryggi og bættri lýðheilsu. Ísland hefur sérstöðu á þessu sviði sem ber að viðhalda.
Varðandi merkingar á innfluttum matvælum ætti að vera ófrávíkjanleg skylda að þær séu greinilega merktar með upprunalandi og vottun á hreinleika, sé slík vottun fyrir hendi.

Á 58. formannaráðsfundi sem haldin var á Hallveigarstöðum helgina 22. - 23. febrúar sl. voru kosnar tvær nýjar konur inn í stjórn Kvenfélagasambands Íslands.  Þórný Jóhannsdóttir (áður varastjórnarkona KÍ) var kosin varaforseti tvær nýjar varastjórnarkonur voru kosnar þær Björg Baldursdóttir formaður Sambands skagfirskra kvenna og félagskona í Kvenfélagi Hólahrepps og Sólveig Ólafsdóttir formaður Kvenfélags Grindavíkur. 

Vilborgu Eiríksdóttur fráfarandi varaforseta og Kristínu Árnadóttur fráfarandi varastjórnarkonu voru færðar þakkir fyrir störf sín í stjórn Kvenfélagasambands Íslands sl ár. 

Stjórn KÍ er nú þannig skipuð:

Guðrún Þórðardóttir, forseti

Þórný Jóhannsdóttir, varaforseti

Sólrún Guðjónsdóttir, ritari

Bryndís Ásta Birgisdóttir, gjaldkeri

Þuríður Guðmundsdóttir, meðstjórnandi

Björg Baldursdóttir og Sólveig Ólafsdóttir, varastjórnarkonur. 

 

 

Husfreyjan1tbl2019Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar á 70 ára afmælisárinu er komin út. 
Í þessu fyrsta tölublaði afmælisársins er fjölbreytt efni að vanda. Fjallað er um sögu Húsfreyjunnar í 70 ár. Sólveig Ólafsdóttir formaður kvenfélagsins i Grindavík er í forsíðuviðtali og segir frá sjálfri sér og þeim fjölbreyttu verkefnum sem kvenfélagið í Grindavík starfar að. Albert Eiríksson hefur umsjón með matarþættinum og fjallar um samverustundir og gefur uppskriftir að góðu á borðið þegar boðið er til samveru. Helga Jóna Þórunnardóttir, kennari í hinum þekkta Skals hönnunar- og handverkskóla í Danmörku sér um handavinnuþáttinn og gefur meðal annars uppskrift að tösku sem prjóna má í sundi eða heita pottinum þríhyrnu úr íslenskri ull og silki og uppskrift af fallegri peysu. Áfram er rætt um verkefni Kvenfélagasambandsins "Vitundarvakning um fatasóun". Að venju er Norræna bréfið birt í fyrsta tölublaði ársins,en það er Sirpa Pietikäinen sem er höfundur bréfsins í ár. Sirpa er finnskur fulltrúi Evrópuþingsins. Ljóðaveislan heldur áfram og ný ljóðasamkeppni kynnt til sögunnar. 

Kvenfélagasamband Íslands hefur fengið áframhaldandi styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti fyrir verkefnið Vitundarvakning um fatasóun. Með verkefninu mun KÍ halda áfram að vekja kvenfélagskonur og almenning til að taka þátt í að minnka fatasóun. Áfram verður því vakin athygli á umhverfisáhrifum fatasóunar með fyrirlestrum, viðburðum og greinum í Húsfreyjunni og á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna. Næsti Umhverfisdagur verður á Hallveigarstöðum þann 23. mars nk. og eins og í fyrra verður þar fræðsla, fataskiptimarkaður, boðið upp á fataviðgerðir og fleira tengt sóun.  Takið daginn frá! Meðfylgjandi mynd er frá Umhverfisdeginum í nóvember sl.

Guðrún snæbjörnsdóttir og margrét Lilja Magnúsdóttir kvenfélagi Álftanesssmaller 

Guðrún Snæbjörnsdóttir og Margrét Lilja Magnúsdóttir frá Kvenfélagi Álftaness við saumavélarnar að aðstoða við fataviðgerðir. 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2019 Kvenfélagasamband Íslands