40. landsþing Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) fer nú fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 11. – 13. október. Samband vestfirskra kvenna er gestgjafi landsþingsins. Yfirskrift landsþingsins er „Valkyrjur milli fjalls og fjöru”
Kvenfélagskonur láta sig margvísleg málefni varða einsog sést á dagskrárliðum þingsins.
Þingsetning fír fram föstudaginn 11. október í Ísafjarðarkirkju kl: 18:00 og höfðu aðstandendur þingsins; KÍ og Samband vestfirskra kvenna hvatt þingfulltrúa til að mæta sem flestar í þjóðbúning við þingsetninguna þar sem íslenski þjóðbúningurinn verður sérstaklega til umræðu á þinginuá laugardag.
Að lokinni þingsetningu bauð Samband vestfirskra kvenna þingfulltrúum í móttöku í Edinborgarhúsinu. Móttakan hófst á ávarpi frá bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar; Örnu Láru Jónsdóttir. Í móttökunni tók svo Heilbrigðisstofnun Vestfjarðaformlega á móti Gjöf til allra kvenna, en tenging er nú að komast við tæknibúnaðinn sem safnað var í tilefni 90 ára afmælis KÍ 2020 við Fæðingadeildina á Ísafirði. Hildur Elísabet Pétursdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar tók formlega á móti gjöfinni. En það var einstaklega ánægjulegt að hafa við þessa afhendingu fulltrúa frá flestum þeim kvenfélögum sem söfnuðu fyrir gjöfinni við þessa afhendingu. (sjá nánar um gjöfina á www.gjoftilallrakvenna.is og kvenfelag.is )
Á vinnustofu á laugardagsmorgun voru meðal annars sýning og erindi frá Margréti Skúladóttur formanni í Þjóðbúningafélagi Íslands og félögum hennar í Þjóðbúningafélagi Vestfjarða. En mikill áhugi er nú á íslenska þjóðbúningnum og hefur KÍ lengi hvatt til fræðslu um búninginn og hvatt til notkunar á honum. Á vinnustofu voru þingfulltrúar einnig beðnar um að koma með hugmyndir um og tilllögur að verkefnum tengdum 95 ára afmæli KÍ á næsta ári og 100 ára afmælið.
Eftir hádegi á laugardag verða framsöguerindi samkvæmt yfirskrift þingsins Valkyrjur milli fjalls og fjöru. Eftirfarandi erindi verða flutt:
- Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.
- Er byggðaþróun karlamál?
- Nanný Arna Guðmundsdóttir
- Borea Adventures á Ísafirði
- Dóra Hlín Gísladóttir - Kerecis
- Nýsköpun á landsbyggðinni – Reynslusaga
- Íris Ösp Heiðrúnardóttir listakona Netagerðinni á Ísafirði.
- YOGER - jógaspil fyrir heimaiðkun
Á vinnustofa á sunnudagsmorgun verða svo tvö mál til umræðu : hvernig kvenfélögin geta veitt konum af erlendum uppruna stuðning á sínum svæðum og hvað kvenfélögin geta gert til að styðja við fólk á sínum svæðum varðandi Einsemd og einmanaleika.
225 konur af öllu landinu eru mættar á þingið og er það löngu uppselt. Öll kvenfélög á landinu eiga rétt á að senda fulltrúa á landsþingið með atkvæðisrétt en þingið er opið fyrir allar kvenfélagskonur sem hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) var stofnað árið 1930 sem sameiningar og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu. Innan KÍ starfa 135 kvenfélög í 17 héraðs- og svæðasamböndum með um 4000 félaga.
Á landsþingum koma saman allar kynslóðir kvenna frá um 18 ára – 90 ára.
Á undanförnum árum hefur afrakstur vinnu kvenfélaganna, numið tugi milljóna á ári hverju, sem runnið hefur til hinna ýmsu menningar- og líknarmála auk annarra samfélagsverkefna. Í skýrslu stjórnar KÍ til þingsins kemur fram að kvenfélög innan KÍ hafa gefið 165.017.547 kr. alls til samfélagsins á árunum 2021 – 2023.
Landsþing KÍ er æðsta vald sambandsins og er haldið á 3ja ára fresti, var síðast haldið í Borgarnesi 2021.
Sjá nánar dagskrá þingsins.
Nokkrar myndir frá þinginu:
Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ og Gyða Björg Jónsdóttir formaður Sambands vestfirskra kvenna sem eru gestgjafar þingsins við þingsetninguna í Ísafjarðarkirkju.
Stjórn SVK og Elinborg Sigurðardóttir ritari afmælisnefndar afhentu Gjöf til allra kvenna til heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Kristín Gréta Bjarnadóttir yfirljósmóðir tók formlega á móti gjöfinni.