Konur ganga um heiminn (Women walk the world) er fjáröflunarviðburður sem hófst á vegum ACWW árið 2012. Hugmyndin að göngunni varð til sem leið til að vekja athygli á ACWW deginum sem er 29. Apríl. Markmiðið var að efla starf og þátttöku kvenna í ACWW og auka fjáröflun. Ástæða þess að ganga var valin, er vegna þess að það er einfalt að ganga og kostar ekkert. Engan sérstakan búnað þarf i göngutúr og hægt að ganga hvenær sem er og hvar sem er! Meðlimir ACWW um allan heim eru hvattir til að taka þátt á ýmsa vegu, til dæmis með því að skipuleggja gönguviðburði. Hvort sem það er göngutúr um hverfið, um jarðarmörkin í sveitum, í næsta almenningsgarði, göngutúr að brunninum fyrir vatn. Eða rölta saman á næsta kaffihús.
Konur á Íslandi eru hvattar til að taka þátt með því að skipuleggja göngu með öðrum konum og taka þannig þátt með konum um allan heim sem ganga til að vekja athygli í mikilvægu starfi ACWW og afla fjár fyrir þau mikilvægu verkefni sem samtökin sinna. Tilvalið að tengja gönguna við Kvennaár 2025. Þess fjár sem er aflað er hægt að koma til skila í gegnum skrifstofu KÍ eða beint til ACWW á síðunni: https://acww.org.uk/donate-to-acww
Kvenfélagasamband Íslands ætlar að taka göngu þann 8. maí klukkan 17:00 frá Hallveigarstöðum.
Associated Country Women of the World - ACWW, Alþjóðasamband dreifbýliskvenna var stofnað árið 1929. Kvenfélagasamband Íslands gerðist aðili að ACWW árið 1980.
Kynjamismunun er rótgróin í öllum samfélögum heimsins. Á hverjum degi þurfa konur að þola ofbeldi og ójöfnuð, skort á atvinnutækifærum og lægri laun en karlmenn, hljóta hvorki menntun né heilbrigðisþjónustu og fá hvorki sæti við samningaborðið né koma að ákvarðanatökum. Dreifbýliskonur eru burðarás fjölskyldna, samfélaga og þjóða, en þær verða hvað verst fyrir barðinu á loftslagsbreytingum og átökum. Um 10 milljónir kvenna í um 450 félögum í 80 löndum um allan heim eru meðlimir í ACWW, hafa samtökin staðið að mörgum þörfum og merkum málefnum. Lykilhugtakið í öllu starfi ACWW er valdefling kvenna í öllum sínum fjölbreytileika hvar sem er í heiminum. ACWW var stofnað til að magna upp raddir kvenna á landsbyggðinni, safna saman staðreyndum um líf þeirra og notar síðan þær upplýsingar til að kalla stjórnvöld til ábyrgðar.
Skipta má starfi ACWW í þrjú áherslusvið: loftslagssnjallan landbúnað, heilsu kvenna í dreifbýli og menntun og samfélagsþróun. ACWW styrkir þróunarverkefni á þessum sviðum, sem bætir ekki aðeins sveitarfélög um allan heim, heldur stuðlar einnig að skilvirkri og upplýstri hagsmunagæslu.