Febrúarblað Húsfreyjunnar er komið út

Húsfreyjan_1._tbl._2025_small.pngFyrsta tölublað Húsfreyjunnar á þessu ári en nú komið út.  Er komið eða er á leið til áskrifenda. Húsfreyjuna má líka finna á sölustöðum víða um landið.

Að þessu sinni er 95 ára afmæli Kvenfélagasambandsins fagnað í blaðinu meðal annars með umfjöllun um hátíðar formannaráðsfund KÍ sem fór fram á afmælisdaginn á Degi kvenfélagskonunnar 1. febrúar. Í tilefni af afmælinu bauð Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir formannaráði til móttöku á Bessastöðum. Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands skrifar um 95 ára afmælið í pistli sem hún nefnir Hreyfiafl um land allt. Í þessu fyrsta tölublaði vill þannig til að Álftanesið er nokkuð áberandi því formaður Kvenfélags Álftaness, Sigríður Sif Sævarsdóttir er í forsíðuviðtali þar sem hún ræðir við Húsfreyjuna um lífið og til tilveruna og starf kvenfélagsins. Eins og sjá má á fallegri forsíðunni stundar hún sjósund af kappi.

Matarþáttur Húsfreyjunnar í umsjón Alberts Eiríkssonar er að þessu sinni einnig á Álftanesinu en það er Björn Skúlason maki forseta sem bauð Húsfreyjunni á Bessastaði og gefur hann lesendum girnilegar uppskriftir af m.a. Blómkálssteik með capers og chilimayo, Skyrmús með berjum og íslensku hrauni og steiktir þorskhnakkar með tómat- og basilsósu. Við þökkum Birni kærlega fyrir góðar móttökur.

Í febrúarblaði Húsfreyjunnar er hefð fyrir því að kvenfélög fái birt efni til að kynna sitt starf og í blaðinu er að finna ferðasögu og rímur frá Kvenfélaginu Fjallkonan sem Guðný A. Valberg á Þorvaldseyri deilir með okkur. Ingibjörg Daníelsdóttir í Kvenfélagi Hvítársíðu deilir svo með lesendum umfjöllun um dásamlega lystilegar veitingar félagsins í gegnum tíðina. Samband sunnlenskra kvenna segir frá gjöfum sinna kvenfélagskvenna til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Kristín Linda Jónsdóttir sem er lesendum Húsfreyjunnar að góðu kunn sem fyrrum ritstjóri segir frá ævintýrum sínum í Tansaníu þar sem hún beinir augunum að þeim konum sem hún hitti í ferðinni.

Silla Páls ljósmyndari Húsfreyjunnar gefur lesendum góð ráð varðandi myndatökur. Hannyrðahornið í umsjón Kristínar Örnólfsdóttur er að vanda fjölbreytt og þar býður hún upp á uppskriftir af húfu, leikskólapeysu og fallegri fullorðinspeysu sem tilvalið er að prjóna á meðan sólin hækkar á lofti. Í tilefni páska er svo uppskrift að skemmtilegum hekluðum túlípönum. Smásagan Dillandi eftir Sveinbjörgu Sveinsdóttir er ein af þeim sem valin var til birtingar af dómnefnd í Smásögusamkeppninni síðastliðið vor.  Þorbjörg I. Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður ræðir við Húsfreyjuna um Kvennaráðgjöfina sem starfað hefur óslitið síðan 1984. En henni var á sínum tíma ætlað að bæta aðgang kvenna að endurgjaldslausri sérfræðiaðstoð.  Kvennasögusafnið varð 50 ára í byrjun árs og í tilefni Kvennaárs 2025 hefur Rakel Adolphsdóttir tekið að sér að skrifa um safnið og kvennasöguna sem þar má finna í Húsfreyjuna á þessu ári. Í fyrsta pistlinum segir Rakel frá stofnun og upphafi safnsins.

Allt þetta, Krossgátan og margt fleira í nýjasta tölublaði Húsfreyjunnar.

Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári og við hvetjum þau sem ekki eru enn í hópi ánægðra áskrifenda að skrá sig á www.husfreyjan.is   Við sendum þér strax nýjasta blaðið ásamt einu eldri blaði í kaupbæti.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands