Gjöf til allra kvenna á Íslandi afhent á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fimmtudaginn 16. október 2025.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er þriðja heilbrigðisstofnunin sem tekur í notkun hugbúnaðinn. Búið er að afhenda Milou á Akranesi og Ísafirði og vonast er til að hægt sé að ljúka afhendingu á hina fjóra staðina fyrir árslok 2025.
Í tengslum við söfnun sem efnt var til í tilefni af 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands árið 2020 náðist að safna samtals um 30 milljón króna. Ákveðið var að nota þær til kaupa á tækjakosti og hugbúnaði (Milou) honum tengdum, sem stuðlar að bættri heilsuvernd kvenna um land allt. Þessi hugbúnaður verður settur upp á 7 fæðingarstöðum á landinu.
Þó svo að fæðingastaðir séu tækjum búnir fyrir sína starfsemi bætist nú við hugbúnaður sem gefur möguleika á að sjúkraskrárgögn sem tengjast fósturhjartsláttarritum og sónarniðurstöðum er nú hægt að vista miðlægt. Einn af stóru kostunum við hugbúnaðinn er, að þessi tækni getur komið í veg fyrir að senda þurfi konur jafnvel um langan veg til til frekari skoðunar. Niðurstöðurnar eru á rafrænu formi og hægt er að nálgast þær og skoða þar sem meiri sérhæfing er til staðar.
Fósturhjartsláttarritin er hægt að sjá í rauntíma og fá þar með eftir öruggum leiðum faglegt álit frá hærra þjónustustigi, eins og t.d.hjá Kvennadeild LSH eða á Akureyri. Ekki þarf lengur að prenta út ritin og fleiri geta séð þau hvort heldur er inni á fæðingarstofunni þegar konur eru í fæðingu, eða þegar sinnt er eftirliti með fóstri á meðgöngu eða vegna einhverra áhættuþátta. Það að hafa sjúkraskrárgögn vistuð miðlægt er gríðarlega mikið öryggisatriði fyrir konur bæði í meðgöngu og fæðingu. Með því móti er alltaf hægt að nálgast mikilvægar upplýsingar og einnig eru þær vistaðar með ábyrgum og löglegum hætti. Hægt er að meta gögnin hvenær sem er, í rauntíma og milli skoðana auk þess sem þessi gögn fylgja rafrænni meðgönguskrá konunnar.

Það var Guðlaug María Sigurðardóttir yfirljósmóðir á HSS sem tók formlega á móti gjöfinni sem Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ afhenti fyrir hönd Kvenfélagasambands Íslands að viðstöddum gestum.

Góður hópur kvenfélagskvenna var viðstaddur afhendinguna. ásamt konum úr Stjórn Kí.
