Vika einmanaleikans 3. - 10. október

Vinnum saman gegn einmanaleika 

Vika einmanaleikans verður dagana 3. til 10. október næstkomandi. 

Vika einmanaleikans er vitundarvakning Kvenfélagasambands Íslands gegn einsemd og einmanaleika. Verkefninu er ætlað að opna á umræðu um einmanaleika í samfélaginu, upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar, hvetja til aðgerða og efla samtakamátt í þjóðfélaginu gegn einmanaleika. Styrktaraðilar verkefnisins eru félags- og húsnæðismálaráðuneytið og Lýðheilsusjóður.

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að leggja höfuðið í bleyti og skipuleggja viðburði sem snúa að góðri samveru og samtali.

Fyrst og fremst er einmanaleiki eðlileg mannleg tilfinning en ef ekki er brugðist við getur langvarandi einmanaleiki dregið úr geðheilbrigði og leitt til kvíða eða þunglyndis. Rannsóknir sýna að hann er jafn skaðlegur og reykingar eða ofþyngd og getur haft áhrif á alla, óháð aldri, stöðu eða búsetu. 

Vika einmanaleikans býður upp á verkfæri og vettvang til að takast á við þetta málefni.

„Við erum spennt að hefja þetta mikilvæga verkefni,“ segir Jenný Jóakimsdóttir, talsmaður verkefnisins. „Við viljum vekja samfélagið til umhugsunar um hvernig við getum öll verið virkari í að mynda tengsl. Vikan er ekki bara ætluð þeim sem upplifa sig einmana, heldur okkur öllum. Hún er tækifæri til að sýna samstöðu og skapa umhverfi þar sem góð samvera er í forgrunni.“

„Kvenfélögin í landinu eru ótrúlega dýrmæt og hafa lengi verið sameiningarafl í sínum samfélögum, það er því mjög ánægjulegt að fá þau og aðra í lið með okkur í þessu átaki”, segir Jenný jafnframt. 

Frá og með deginum í dag geta einstaklingar, fyrirtæki, skólar, félagasamtök og aðrir aðilar skráð viðburði sína inn á vefsíðuna www.vikaeinmanaleikans.is. Viðburðir geta verið af öllum toga: kaffiboð, gönguferðir, opið hús, listasmiðjur eða hvað sem er sem hvetur til góðrar samveru. Markmiðið er að skapa fjölbreytta dagskrá sem höfðar til sem flestra og auðveldar fólki að finna viðburði í sínu nærumhverfi. Á síðunni eru einnig fleiri verkfæri til að skapa tengsl, meðal annars hugmynd að spjallbekkjum og spjallborðum sem við vonumst til að sjá sem víðast. Samverubingó er síðan enn eitt verkfærið sem verkefnið býður upp á. 

Dagana 3. til 10. október sameinumst við í þeim tilgangi að brúa bilið á milli fólks og minna á mikilvægi mannlegra samskipta.

 

Á formannaráðsfundi Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) 1. febrúar 2025 var skipaður stýrihópur kvenna úr héraðssamböndum til að halda utan um verkefnið. 

Í stýrihóp verkefnisins 2025 sitja: 

  • Ása Erlingsdóttir (Samband borgfirskra kvenna)

  • Ása Steinunn Atladóttir (Kvennasamband Reykjavíkur)

  • Vilborg Eiríksdóttir (Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu)

  • Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir (Kvennasamband Kópavogs)

  • Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ er fulltrúi stjórnar í hópnum

  • Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ er verkefnastjóri verkefnisins.

  • Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og höfundur bókarinnar “Einmana – tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar” er sérstakur ráðgjafi í hópnum.

Húsfreyjan stýrihópir vika einmannaleikanns Silla Páls 3

Frá vinstri: Ása Erlingsdóttir, Eva Björk Harðardóttir, Jenný Jóakimsdóttir, Vilborg Eiríksdóttir, Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir. Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir og Ása Steinunn Atladóttir. Mynd: Silla Páls

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands