Ellefu konur frá Íslandi á Evrópuþingi ACWW í Rúmeníu

Dagana 13. – 17. október sl. fór ellefu manna hópur kvenfélagskvenna til Búkarest í Rúmeníu frá Íslandi. Þar fór fram Evrópuþing alheimssamtaka dreifbýliskvenna (ACWW). Hátt í 70 konur frá hinum ýmsu löndum Evrópu og víðar voru þar mættar til að ræða meðal annars þema þingsins sem var „Sjálfbær vöxtur fyrir framtíðina”. Að sjálfsögðu líka til að hitta gamla og nýja vini, og njóta saman.

Íslenski hópurinn kom færandi hendi með ritföng fyrir skólakrakka í dreifbýli Rúmeníu, en venja er að á þessum þingum að óska eftir að þingfulltrúar komi með hluti með sér sem nýtast fyrir þurfandi á svæðinu.

Meðal dagskrárliða á þinginu var leiðtogafundur um valdeflingu kvenna, þar sem Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ flutti erindi um Kvennabaráttuna á Íslandi frá fyrsta kvennaverkfallinu fyrir 50 árum og sagði frá þeirri sorglegu staðreynd að þó svo Ísland nái fyrstu sætum á listum yfir lönd með hvað mest jafnrétti, þá er kynbundið ofbeldi enn staðreynd og yfir 40% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir því. Hún sagði auðvitað frá yfirvofandi Kvennaverkfalli 24. október og ekki hægt að segja annað en að vinkonum okkar á þinginu þótti mikið til koma.

Á sama dagskrárlið var athyglisverður fyrirlestur frá Iluta Lace sem starfar fyrir Marta í Lettlandi, sem eru leiðandi samtök þar í landi sem berjast gegn kynbundu ofbeldi og veita þolendum mikilvæga þjónustu , ekki ólíkt Kvennaathvarfinu hér heima og Stígamótum. Hún sagði meðal annars frá því að nú er þeirra aðalbaráttumál að berjast gegn bakslagi, en þar er þingið að fara að leggja fram tillögur til að afnema lög sem hafa áður verið sett til að vernda þolendur. Á þinginu voru einnig fluttar skýrslur þeirra samtaka sem voru viðstaddar á þinginu og var mjög fróðlegt að heyra hversu svipað starf er unnið innan allra þessara samtaka, þó svo hvert og eitt hafi sína sérstöðu, sem hægt var að læra af. Jenný flutti skýrslu KÍ fyrir hönd stjórnar. Einnig voru þarna fluttir áhugaverðir fyrirlestrar og erindi frá hinum ýmsu stofnunum í Evrópu sem hafa með mál kvenna að gera og þá sérstaklega dreifbýliskvenna að gera. Meðal annars frá FAO (Food and Agriculture Organization of the United Nations). Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir að árið 2026 verði alþjóðlegt ár kvenna í landbúnaði, í kjölfar ályktunar sem Bandaríkin lögðu fram og FAO studdi. Þetta framtak miðar að því að vekja athygli á mikilvægu hlutverki kvenna í fæðuöryggi, næringu og útrýmingu fátæktar og að takast á við þær áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Það miðar einnig að því að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdefla konur í landbúnaði, með áherslu á mikilvægi kvenna í dreifbýli og smábænda við að styðja við fjölskyldur sínar og efnahagslífið. Starfsfólk skrifstofu ACWW, buðu síðan upp á fræðslu um verkefnin sem unnið er að, styrkjapórgramm og fleira.  Ísland var svo með kynningu þar sem boðið var að halda næsta Evrópuþing á Íslandi 2028. Fjöldi annarra erinda, en of langt að telja hér.

Á hátíðarkvöldverðinum, færði íslenski hópurinn þeim Afroditu Roman Evrópuforseta og Magdie de Kock, heimforseta KÍ slæðurnar góðu sem framleiddar voru fyrir síðasta landsþing.

Þingið var vel skipulagt af kvennasamtökunum Asociatia Femeia Mileniului III í Rúmeníu og var meðal annars boðið upp á skoðunarferð í Þinghöllina, sem einræðisherrann Nicolae Ceauşescu hóf byggingu á 1984 á valdatíma sínum. Þessi bygging, sem einnig var kölluð Hús fólksins á valdatíma Ceausescu, er í raun tákn um gömlu kommúnistatímana, óhóf ef svo má að orði komast. Höllin er í dag þriðja stærsta bygging í heimi og sú þyngsta og dýrasta. Nokkuð sorglegt að ganga þarna um og heyra hvað þjóðin þurfti að þola fyrir þessa byggingu.

Nokkar úr íslenska hópnum skelltu sér svo í dagsferð til að skoða meðal annars kastala Drakúla. Það voru þakklátar, ánægðar og þreyttar íslenskar konur sem lentu á Íslandi að kvöldi föstudagsins 17. október.

Nánar verður sagt frá þinginu í jólablaði Húsfreyjunnar.

Sjá mynda albúm á facebook

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands