Haustblað Húsfreyjunnar - Valkyrjur milli fjalls og fjöru

Titillinn á haustblaði Húsfreyjunnar að þessu sinni er Valkyrjur milli fjalls og fjöru. Ástæðan er sú að landsþing Kvenfélagasambands Íslands verður haldið á Ísafirði í október og er þetta yfirskrift þingsins.

Að þessu tilefni er á forsíðunni mynd sem er tekin á Ísafirði af Sillu Páls ljósmyndara Húsfreyjunnar.

Þetta haustblað er að venju fullt af fjölbreyttu efni fyrir lesendur.

Nanný Arna Guðmundsdóttir sem er fædd og uppalin á Ísafirði er í viðtali. Hún situr í bæjarstjórn Ísafjarðar og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures. Nanný ræðir meðal annars ferðaþjónustuna á Vestfjörðum. Húsfreyjan fer í heimsókn á Eiríksstaði í Haukadal á heimili Þjóðhildar Jörundardóttir. Á Eiríksstöðum má segja að tilgangurinn sé að lofa fólki að komast nær raunveruleikanum á 10. öld. Ásdís Káradóttir sem er með MA-gráðu í ritlist skrifar um hugsanir, líðan og orð í grein með yfirskriftinni Lifið sem frásögn. Halla Benediktsdóttir umsjónarmaður Jónshúss í Kaupmannahöfn segir frá starfsemi hússins sem er fjölbreytt og starfið því oft annasamt.

Þann 21. Júní sl. Voru 100 ár frá andláti Ólafíu Jóhannsdóttur og var að því tilefni haldin minningarathöfn um Ólafíu, Sveindís Anna Jóhannsdóttir formaður handleiðslufélags Íslands skrifaði grein í blaðið um ævi og störf þessarar merku konu.

Leiðbeiningastöð heimilanna segir frá því hvernig bjarga megi kaffikorgnum frá Sorpinu. Það eru tvær smásögur í blaðinu að þessu sinni. Útfararþjónustan eftir Elísabetu Kjerúlf lenti í öðru sæti í smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar. Einnig er að finna í blaðinu smásöguna Leyndarmál í lyfjaskáp eftir Guðrúnu Egilson.

Í matarþættinum að þessu sinni þótti viðeigandi í tilefni 75 ára afmælis Húsfreyjunnar á þessu ári að útgáfustjórn fengi að láta ljós sitt skína með fjölbreyttum veisluföngum sem bornar voru fram á hátíðarfundi útgáfustjórnar sem haldinn var í Borgarnesi.

Karólína Elísabetardóttir sem er sauðfjárbóndi og athafnakona er í viðtali. Karólína segir frá starfi sínu í sveitinni og meðal annars frá baráttunni við að útrýma riðuveiki á Íslandi.

Nýr umsjónaraðili hannyrðahornsins Kristín Örnólfsdóttir færir lesendum uppskriftir af prjónuðum vettlingum og sokkum, auk fánaóróa með íslenska fánanum. Sem hægt væri að nýta sem jólakúlur til dæmis.

Þær Björg Baldursdóttir og Linda B. Sverrisdóttir í útgáfustjórn Húsfreyjunnar eru svo báðar með pistil í blaðinu.   Þetta og meira til í haustblaði Húsfreyjunnar sem ætti nú að vera komið eða á leið til áskrifenda.  Njótið vel.  Húsfreyjan er einnig seld í lausa sölu á sölustöðum víða um land.

Til að gerast áskrifandi smellir þú hér.  Vertu með í hópi ánægðra áskrifenda.

Húsfreyjan 3. tbl. 2024 smaller

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands