Konur til forystu

Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands bjóða upp á súpu og spjall í hádeginu á Hallveigarstöðum mánudaginn 27. janúar.

Á fundinum verður rætt um stöðu kvenna í stjórnmálum á landsbyggðinni. Gestir fundarins eru Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi á Ísafirði, Arnbjörg Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, og Ásgerður K. Gylfadóttir bæjarstjóri Hornafjarðar.

Hlutur kvenna í íslenskum sveitarstjórnum hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugina. Konur eru í dag 40% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum landsins, en betur má ef duga skal. Á fundinum verður rætt um reynslu kvenna í stjórnmálum í bæjarfélögum úti á landi og leiðir til að auka hlut kvenna í stjórnum sveitarfélaga.

Jafnréttisstofa hefur tekið saman tölur og skýrslur um hlutfall kynjanna í íslenskum sveitarstjórnum og á framboðslistum, og hægt er að lesa þá umfjöllun hér.

Fundurinn er fyrst og fremst haldinn af brýnni þörf en einnig í tilefni merkra tímamóta í sögu Kvenfélagasambandsins og Kvenréttindafélagsins. Degi kvenfélagskonunnar og afmæli Kvenréttindafélags Íslands. Dagur kvenfélagskonunnar er 1. febrúar, hann er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands og var útnefndur Dagur kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á veigamiklu og öflugu starfi kvenfélagskvenna í þágu samfélagsins í 140 ár. Kvenréttindafélag Íslands fagnar 107 ára afmæli sínu 27. janúar, en félagið var stofnað árið 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Markmið félagsins við stofnun var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn. 

Kvenréttindafélagið og Kvenfélagasambandið eru stuðningsaðilar átaksins Konur í forystusæti.

Verið velkomin í súpu, brauð og fróðleik milli kl. 12 og 13 á Hallveigarstöðum.

Aðgangur og veitingar eru ókeypis.

Sóun matvæla, siðferði matvælanotkunnar

Kvenfélagasamband Íslands heldur hádegisfund í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum Túngötu 14, Reykjavík, nk. föstudag 29. nóvember kl. 12 – 13.
Rannveig Magnúsdóttir líffræðingur og verkefnisstjóri hjá Landvernd flytur erindi um sóun matvæla og siðferði matvælanotkunar og sýnir framá leiðir til úrbóta á þessu sviði.
Um 30% matvæla fara í súginn á vesturlöndum, fátt bendir til annars en sama staðan sé uppá á teningnum hér á landi.
Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands sendi eftirfarandi ályktun frá fundi sínum 23. nóvember sl.
Hvað þýðir ,,Best fyrir" og ,,Síðasti söludagur"?
Kvenfélagasamband Íslands ætlar ekki að sitja hjá.
Á Íslandi má áætla að um 30% matvæla sé fleygt, á heimilum, á veitingastöðum og úr verslunum. Kvenfélagasambandið boðar til aðgerða með kvenfélagskonum og þjóðinni allri til að sporna gegn sóun matvæla.

Hádegisfundurinn er liður í átaksverkefni Kvenfélagasambandsins gegn sóun matar
Boðið verður uppá grænmetissalat frá Sölufélagi Garðyrkumanna og kaffi á fundinum.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

47. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, haldinn 23. nóvember 2013

í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum sendir frá sér eftirfarandi ályktun.

Hvað þýðir ”Best fyrir,, og ”Síðasti söludagur?,,

Kvenfélagasamband Íslands ætlar ekki að sitja hjá.

Á Íslandi má áætla að um 30% matvæla sé fleygt, á heimilum, á veitingastöðum og úr verslunum.

Kvenfélagasambandið boðar til aðgerða með kvenfélagskonum og þjóðinni  allri til að sporna gegn sóun matvæla. 

Velkomin á kynningarfund þann 22. október fyrir samnorrænu kvennaráðstefnuna Nordiskt Forum sem haldin verður í Malmö í júní 2014. Fundurinn verður haldinn að Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum og hefst kl. 20.00.

Nlogonforræna kvennaráðstefnan Nordisk Forum verður haldin 12.-15. júní 2014 í Malmö, Svíþjóð. Þetta er í þriðja skipti sem boðað er til Nordisk Forum, en hún var haldin í Osló, Noregi 1988 og Turku, Finnlandi 1994.

Nordiskt Forum mun fjalla um allt milli himins og jarðar tengt jafnréttisbaráttunni og kvenréttindum, bæði á Norðurlöndum sem og annars staðar í heiminum.

Búist er við 15.000 þátttakendum á ráðstefnunni. Þegar ráðstefnan var síðast haldin 1994 voru íslenskir þátttakendur rúmlega 1.400 og íslenskar konur því hlutfallslega stærsti hópur ráðstefnugesta.

Aðstandendur ráðstefnunnar eru kvennahreyfingarnar á Norðurlöndum.

Á kynningarfundinum verður skipulagning ráðstefnunnar kynnt og rætt um þátttöku íslenskra kvenna að þessu sinni.

Veitingar og drykkjarföng eru í boði.

Mætum og látum í okkur heyra!

Stjórn og starfsfólk Kvenfélagasambands Íslands heldur uppá 50 ára afmæli Leiðbeiningastöðvar heimilanna fimmtudaginn 3. október kl. 17:00 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík. 
Boðið verður upp á léttar veitingar, fróðleik og skemmtun.
Notendur, velunnarar og aðrir áhugasamir eru velkomnir í boðið.

Kvenfélagasambandið og Leiðbeiningastöðin leggja land undir fót úr Kvennaheimilinu og verða í Kolaportinu um komandi helgi. Komið við í básnum og kynnið ykkur störf kvenfélaganna og Kvenfélagasambands Íslands og fáið góð ráð í leiðinni. 
Bók Leiðbeiningastöðvarinnar og Matarkörfunnar, Þú ert snillingur, verður þar til sölu ásamt ýmsu öðru.

Verið velkomin.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands