Frú Vigdís FinnbogadóttirÞann 28. júní nk verður því fagnað í miðbæ Reykjavíkur að liðin eru 35 ár síðan þjóðin valdi Vigdísi Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur annast skipulag hátíðarhaldanna í samstarfi við Alþingi, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, skógræktar- og landgræðslufélög ásamt fjölda annarra stofnana og félagasamtaka.
Fjölbreytt dagskrá verður flutt af stóru sviði við rætur Arnarhóls og hefst hún kl. 19:40 og stendur til rúmlega 21:10. Dagskráin verður blanda tónlistar og talaðs máls og verður hún send út í beinni útsendingu sjónvarps RÚV. Listrænn stjórnandi dagskrárinnar er Kolbrún Halldórsdóttir og stjórnandi útsendingarinnar verður Egill Eðvarðsson.