Velkomin á söguslóðir kvenna í Reykjavík!

24. október leiðir Birna Þórðardóttir göngu um Vesturbæinn, Kvosina og Þingholtin, þar sem hún segir frá konum sem hafa markað spor sín á borgina. Að lokinni göngu er boðið upp á kaffi og kökur á Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum og Lay Low  spilar lög við ljóð eftir íslenskar konur.

Gangan leggur af stað frá Hallveigarstöðum kl. 17:00 þriðjudaginn 24. október næstkomandi og tekur tæpan klukkutíma. Að lokinni göngu er gestum boðið í kaffisamsæti í samkomusal Hallveigarstaða þar sem Lay Low tekur lagið.

Ókeypis aðgangur og öll velkomin! 

Kvennaheimilið Hallveigarstaðir, Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands

 

Alþjóða beinverndardagurinn er 20. október. Í ár eru liðin 20 ár síðan Landssamtökin Beinvernd á Íslandi voru stofnuð. Þau hafa alla tíð lagt áherslu á fræðslu um þætti sem geta dregið úr beinþynningu.

Kvenfélagasamband Íslands og Samband sunnlenskra kvenna eru vakandi fyrir gildi forvarna og reglubundins eftirlits. Því ætla samtökin í samráði við Halldóru Björnsdóttur hjá Beinvernd, að standa fyrir fræðslu um beinþynningu og beinvernd ásamt beinþéttnimælingu í Selinu við Engjaveg 44 á  Selfossi  laugardaginn 21. október milli kl 11:00-14:00.  Boðið verður upp á kalkríkar veitingar.

Beinþynning er vaxandi vandamál í heiminum. Ekki eru mörg ár síðan beinþynning var skilgreind sem sjúkdómur og farið var að huga alvarlega að forvörnum gegn henni. Það kallast beinþynning þegar kalkið í beinunum minnkar svo mikið, að þau þola ekki lengur eðlilegt álag. Sjúkdómurinn hefur stundum verið kallaður „Hinn þögli vágestur“ þar sem hann læðist að fórnarlömbum sínum og getur valdið beinbrotum af litlu eða engu tilefni. Beinþéttnimæling er ókeypis og algjörlega sársaukalaus. Hún er eina leiðin til að finna „Hinn þögla vágest“

Konur jafnt sem karlar sem komin eru yfir fertugt, eru hér boðin til fræðslu um þessi mál og hvött til að mæta laugardaginn 21. október í Selið milli kl 11:00-14:00 til að láta mæla sig.

MS er aðal styrktaraðili Beinverndar

 

HúsfreyjanÍ tímaritinu er kynnt Ljóðasamkeppni sem Húsfreyjan efnir til í vetur. Nú er um að gera að taka þátt, yrkja ljóð og senda inn eða taka áður óbirt ljóð upp úr skúffunni, dusta af þeim rykið og senda í keppnina. Í blaðinu er áhugavert og hrífandi viðtal við Katrínu Halldóru leikkonu sem leikur Elly í sýningu Borgaleikhússins sem hlotið hefur einróma lof.  Kristín Linda ritstjóri fjallar um danska lífsstílinn að hygge, hafa það huggulegt, sem verkur nú heimsathygli og dregur fram níu hygge ráð til að njóta í vetur. Jenný hjá Leiðbeiningastöð heimilanna fjallar um súrdeigsbakstur sem er nú ævinsælli og Kristín Aðalsteinsdóttir um grænmeti og fæðu.  Matarþátturinn er að þessu sinni með ýmiskonar forvitnilegum uppskriftum úr sauðfjárafurðum, þar á meðal spennandi sviðasúpu. Í handavinnuþættinum fær huggulegt prjón gott vægi með prjónuðu teppi, púða, peysu og sokkum en þar er líka útsaumur.  Rætt er við Gunnhildi sem stýrt hefur, Göngum saman, verkefninu í tíu ár og fjallað um afmæli Kvennaheimilisins Hallveigarstaða sem eru 50 ára í ár. Sagt er frá starfi Kvenfélagasambands Íslands meðal annar þáttöku í norrænu samstarfi og fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Húsfreyjan er gefin út af Kvenfélagasambandi Íslands og kemur út fjórum sinnum á ári. Ritstjóri er Kristín Linda Jónsdóttir. Hægt er að gerast áskrifandi hjá Kvenfélagasambandinu til dæmis í gegnum heimasíðuna kvenfelag.is.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands