Norræna kvenfélagasambandið NKF (Nordens Kvinnoförbund) hélt sitt árlega sumarþing í Maríuhöfn á Álandseyjum dagana 17.-18. ágúst 2018.
Kvenfélagskonur víðsvegar af landinu og af Norðurlöndum tóku þátt í þinginu og nutu fjölbreyttrar dagskrár í góðu veðri í fallegu umhverfi Álandseyja. Ísland gegnir nú formennsku í norrænu samtökunum NKF og fóru þær Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambandsins og formaður NKF og Vilborg Eiríksdóttir varaforseti KÍ á þingið fyrir hönd stjónar KÍ. Þær höfðu í nógu að snúast á þinginu, Guðrún sem formaður og Vilborg sem tók m.a. þátt í pallborðsumræðum þar sem rætt var um öryggi í norrænu samhengi. Britt Lundberg, varaformaður sendinefndar Álandseyja í Norðurlandaráði stjórnaði pallborðsumræðunum.
Efnistök fundarins voru m. a. um að skapa öryggi hversdagsins og að sýna tillitssemi.
Á þinginu var samþykkt ályktun um mikilvægi þess að lifa við tryggt og öruggt daglegt líf.
Ályktun þingsins er svohljóðandi:
Öryggi daglegs lífs á Norðurlöndum
Sumarið sem hefur verið óvanalega heitt og þurrt á stórum svæðum beinir athyglinni að loftlagsmálum. Langtímaspár sýna að hitastig á jörðinni fer hækkandi með alvarlegum afleiðingum fyrir umhverfið. Þar má sérstaklega nefna ræktun nytjajurta og matvælaframleiðslu sem hefur bein áhrif á menn og dýr.
Þessar öfgar í veðurfari, sem hafa til dæmis leitt til mikilla skógarelda í Norðurlöndum, geta leitt til frekari náttúruhamfara ef við reynum ekki að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar skógareldarnir hafa verið slökktir færist daglegt líf smám saman í eðlilegt horf á ný en öryggistilfinning okkar hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli.
Norðurlöndin einkennast af sterkri lýðræðishefð. Íbúar landanna hafa svipaðar skoðanir í mörgum mikilvægum málum sem varða öryggi daglegs lífs. Samfélög okkar hafa svipuð gildi þegar um er að ræða mannréttindi, jafnrétti og sjálfbærni svo eitthvað sé nefnt. Óháð pólitískum skoðunum, erum við sammála um að efnahagslegur, félagslegur og menningarlegur lífsstíll og ómengað nærumhverfi er grunnurinn að öryggi hversdagsins.
NKF vill stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins. Við væntum þess líka að ríkisstjórnir Norðurlandanna séu í fararbroddi og drifkrafturinn í þróun umhverfismála á heimsvísu.
Við erum öll hluti af lausninni. Hver og einn getur með hagnýtum aðgerðum og skynsömu vali í daglegu lífi orðið hvatning fyrir aðra. Þannig er hægt að vinna markvisst að betri heimi. Við megum ekki gefast upp heldur höldum ótrauð áfram og tryggjum velferð komandi kynslóða.
Fulltrúar NKF eru sammála um mikilvægi öryggis og trausts í daglegu lífi og eru þess fullviss að norræna módelið er styrk undirstaða. NKF vinnur saman að ákveðnum markmiðum og gildum sem hafa gefist vel í áranna rás enda hefur sambandið tæplega 100 ára samstarf að baki.
Álandseyjar, 17.08.2018
Nordens Kvinnoförbundet (NKF)
Meðfylgjandi mynd er af íslensku þátttakendum þingsins.
Takk Kvenfélag Álftanes fyrir myndina.