Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar þetta árið er komið út. Húsfreyjan fagnar 75 árum í ár, en fyrsta tölublaðið kom út 1949. Allan þennan tíma hefur Kvenfélagasamband Íslands gefið Húsfreyjuna út fjórum sinnum á ári, með aðeins örfáum undantekningum. Húsfreyjan er mikilvægur hluti af menningu þjóðarinnar og hefur nú í sjötíu og fimm ár varðveitt og endurspeglað á einstakan hátt íslenska kvennasögu.
Forsíðuviðtalið að þessu sinni er við Snædísi Yrju Kristjánsdóttur. Snædís var aðeins sex ára gömul þegar hún uppgötvaði sjálf að hún hefði fæðst í röngum líkama. En hún var samt ekki tilbúin að viðurkenna það fyrir sjálfri sér fyrr en hún varð sextán ára. Í dag blómstrar hún í réttum líkama. Hún hefur alla tíð verið afar opinská varðandi allt það ferli sem hún hefur gengið í gegnum um.
Að venju er í fyrsta tölublaðinu í tilefni Dags kvenfélagskonunnar 1. Febrúar, lögð sérstök áhersla á að kynna starf kvenfélaganna víða um land. Sagt er frá 100 ára afmæli Kvenfélags Grindavíkur, en þær héldu upp á afmælið í boði á Bessastöðum þar sem flauta þurfti af afmælisveislu sem búið var að undirbúa af miklum dugnaði í nóvember síðastliðnum vegna jarðhræringanna sem ekki hafa farið fram hjá neinum. Dagný Finnbjörnsdóttir formaður Kvenfélagsins Hvatar í Hnífsdal sem frá öflugu starfi kvenfélagsins, í félaginu eru skráðar 70 konur og félagið verður 112 ára í desember á þessu ári. Kvenfélagið Ársól á Suðureyri var stofnað 1920. Vilborg Ása Bjarnadóttir segir frá starfi félagsins og íslenskukennslu sem þær hafa haldið úti síðan 2017. Nemendurnir koma víða að og gera námskeiðin þeirra þátttakendum auðveldara að aðlagast samfélaginu á Suðureyri.
Smásagan að þessu sinni er skrifuð af Eyrúnu Ósk Jónsdóttur og sagan hennar heitir Fræ. Við minnum á að skilafrestur í smásögusamkeppni Húsfreyjunnar að þessu sinni hefur verið framlengdur til 20. mars nk.
Á síðum Kvenfélagasambandsins er að finna kveðju til Grindvíkinga, nokkur orð frá forseta KÍ Dagmari Elínu Sigurðardóttur, og sagt frá jólafundi KÍ í nóvember síðastliðnum. Sagt er frá verkefni ACWW- samtökum dreifbýliskvenna í Mongólíu. Í ágúst síðastliðnum fór fram leiðtogafundur í Mongólíu um valdeflingu kvenna sem leiddi saman 328 þátttakendur. En um 85% kvenna þar verða fyrir heimilisofbeldi einhvern tímann á fullorðinsárum. Því er verkefnið brýnt.
Það er ýmislegt fyrir handavinnufólkið í Húsfreyjunni að þessu sinni. Elsa Harðardóttir sem gaf út bókina Hekla nýlega gefur hekl uppskrift af fallegum farfuglum. Sjöfn Kristjánsdóttir sem sér um hannyrðahornið gefur uppskriftir af tveimur fallegum peysum sem henta vel á öllum árstímum. Falleg Mynsturpeysa fyrir fullorðna og síð fullorðins peysa.
Í Matarþætti Húsfreyjunnar er Kvennakór Ísafjarðar heimsóttur og lesendur fá að njóta uppskrifta frá þeim, viðhafnarmiklar páskaveitingar sem bornar voru fram á löngum æfingadegi hjá þeim. Páskalegar veitingar sem gleðja augað og bragðlaukana. Þar má meðal annars finna Sítrónuköku með vanillurjóma og bláberja -compote, jarðaberjaostaköku , gulrótarbollakökur með rjómaostakremi og Hjarta með kanil- og vanillufyllingu.
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir er í viðtali, en Sigríður er skólastjóri Lýðskólans á Flateyri og forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Hún býr í Önundarfirði ásamt eiginmanni sínum og börnum. Hún segir frá starfi sínu við skógrækt, Lýðskólann og samfélagið fyrir vestan.
Leiðbeiningastöð heimilanna býður upp á verkefni til að njóta, og hvetur okkur til að skoða neysluvenjurnar í upphafi árs. Allt þetta, krossgátan og margt fleira í fyrsta tölublaði Húsfreyjunnar.
Þú getur skráð þig sem áskrifanda á www.husfreyjan.is og við sendum þér þetta blað og tvö eldri blöð að auki í kaupbæti.