Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands kom saman á 60. fundi formannaráðs í Hótel Kríunesi helgina 28. - 29. febrúar 2020.

Góð mæting var á fundinn og voru fulltrúar frá flestum héraðssamböndum sem tilheyra KÍ. Fundurinn hófst á gefandi erindi frá Séra Jónu Hrönn Bolladóttur sóknarpresti í Garðasókn. Ræddi hún um gildin Kærleikur- samvinna - virðing og mikilvægt framlag kvenfélaganna með sínu starfi og söfnun KÍ sem nú stendur yfir. Þar sem þetta var aðalfundur voru lagðar fram skýrslur og reikningar og fjárhagsáætlun KÍ fyrir árið 2020 lögð fram.

Bryndís Steina Friðgeirsdóttir formaður Félags kvenna í Kópavogi (FKK) sagði frá fyrsta starfsári félagsins og Harpa Hjálmtýsdóttir stjórnarkona í FKK var með skemmtilegt happadrætti yfir kvöldverðinum þar sem flestar fundarkonur fengu vinning. Samverunni var svo fram haldið eftir kvöldmat og áttu konur þar góðar stundir og efldu þannig tengslin og kynntust hvor annarri betur.

Á Laugardeginum var svo fundi haldið áfram og voru þau verkefni sem KÍ stendur fyrir á árinu gerð skil. Sagt meðal annars frá þeim verkefnum sem fengust styrkir fyrir á þessu ári. Þar má nefna Vitundarvakning um fatasóun, menning og saga KÍ í 90 ár og samstarfsverkefnið Loftslagsvernd í verki með Landvernd. 

Samstarfið innan NKF var krufið í hópavinnu og gaf þannig stjórn gott veganesti á næsta stjórnarfund NKF. En sumarþing NKF verður að þessu sinni haldið á Íslandi í Reykjanesbæ og eru skráningar á það hafnar sjá : https://www.kvenfelag.is/norraent-sumarthing-2020-skraning Þema þingsins er "Konur, loftslag og kraftur jarðar".  Allar kvenfélagskonur eru velkomnar á þingið.

Evrópuþing ACWW var einnig kynnt en það fer fram í Glasgow í Skotlandi í október. Sjá nánar hér.

Stjórnarkjör fór fram og er stjórn óbreytt þar sem Sólrún Guðjónsdóttir ritari og Björg Baldursdóttir varastjórnarkona gáfu kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Hér hefur aðeins verið farið yfir hluta þess sem fram fór og var rætt á fundinum. Það var samhljóma álit þeirra sem mættu á fundinn að fundarstaðurinn hefði verið framar vonum góður og andinn góður á fundinum. Stjórn KÍ þakkar öllum þeim sem mættu á fundinn kærlega fyrir góða helgi og hlakkar til góðs samstarfs á árinu. 

Fundurinn samþykkti og sendir frá sér eftirfarandi ályktanir:

60. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í Kópavogi 28. -29. febrúar 2020, skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja að greining og meðferð krabbameinssjúkra verði snögg, skilvirk og flæði þjónustu gott. Nauðsynlegt er að stytta biðtíma og tryggja að þjónustan verði samfelld frá greiningu til loka meðferðar. Eins er gríðarlega mikilvægt að allir hafi greiðan aðgang að þjónustunni.

---

60. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, haldinn í Kópavogi 28.- 29. febrúar 2020, skorar á heilbrigðisráðherra að koma sem fyrst af stað reglubundinni skimun fyrir ristilkrabbameini. Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbameinið og oft einkennalaust. Því er mikilvægt að hefja skimun sem fyrst til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll, óþarfa álag og kostnað.

---

60. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, haldinn í Kópavogi 28. og 29. febrúar 2020 skorar á Ríkisstjórn Íslands að standa vörð um mannréttindi sem eru eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ekki má gleyma því að réttindi kvenna eru mannréttindi. Þau réttindi sem þegar hafa áunnist má ekki taka til baka. Fundurinn vísar í áskorun Alheimssamtaka dreifbýliskvenna, Associated Country Women of the world (ACWW) þess efnis. https://www.acww.org.uk/cswletter.html

---

 

 

 

 

 

 

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) var stofnað 1. febrúar 1930 og fagnar því 90 árum í ár.  Ómældar vinnustundir, erfið ferðalög og mikil skoðanaskipti höfðu farið fram þegar að þeim degi kom. Grunnur þess að Kvenfélagasambandið var stofnað var rík löngun kvenna til að hafa áhrif í þjóðfélaginu, saman yrðu þær sterkari til að koma þeim málum á framfæri sem þær brunnu fyrir. Menntun, heilsuvernd, hreinlæti, vinnuhagræðing á heimilum, sparnaður, fræðsla barna, ræktun jarðar, símenntun, samhjálp og margt fleira sem kvenfélagskonur vildu koma til leiða. Þessi vegferð hófst með stofnun Kvenfélags Rípuhrepps árið 1869. 

Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1. febrúar 1930 og fagnar því 90 árum á þessu ári.

Í tilefni 90 ára afmælisins munu kvenfélög um land allt standa fyrir söfnun.

Kvenfélagskonur safna fyrir tækjum og hugbúnaði honum tengdum, sem kemur til með að gagnast öllum konum um landið allt. Um er að ræða mónitora og ómtæki, nýja eða uppfærða eftir því sem við á og rafrænar tengingar á milli landsbyggðar og Kvennadeildar Landspítalans.

Þau munu nýtast öllum konum á Íslandi, hvort sem er við meðgöngu og fæðingu, eða skoðana vegna kvensjúkdóma.

Á haustmánuðum barst óvenjuleg beiðni frá Þjóðleikhúsinu, sem í senn var bæði skrýtin og of skemmtileg til að neita henni. Kvenfélagasamband Íslands var semsagt beðið um að taka þátt í leiksýningunni Engillinn sem verið var að setja á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu.   Um er að ræða sýningu upp úr verkum Þorvaldar Þorsteinssonar (1960-2013), en hann skildi eftir sig fjölda verka sem notið höfðu mikla hylli. Það er Finnur Arnar Arnarson myndlistamaður og leikmyndahöfundur sem hefur skapað þess sýningu þar sem koma saman örverk, brot úr lengri verkum og vísanir í myndlist og gjörninga Þorvalds.   Beiðni Þjóðleikhússins fólst í að fá kvenfélög til að vera með kökubasar í hléinu. Hér er vísað í innsetningsverk Þorvaldar frá árinu 1996: „Næsti basar verður á laugardaginn klukkan 15:00“ á einkasýningu hans í Listasafni Akureyrar. Þorvaldur gerði þá samkomulag við fjögur kvenfélög á Akureyri um að halda sinn árlega kökubasar og handverksmarkað á sýningunni, á opnun hennar og síðan á hverjum laugardegi á meðan sýningin stóð yfir. Á hverjum laugardegi urðu þá til ný verk, heimagerðar kökur, handverk og jólaskraut.

Sýningin Engillinn var frumsýnd 21. desember í Kassanum og hafa kvenfélög tekið vel í þetta óvenjulega verkefni, mætt á sýningar, verið með kökubasar í hléinu og hafa haft gaman af.  Ágóðinn af sölunni rennur til góðgerðamála. Áhorfendur geta keypt sér kökur og annað bakkelsi og fá góðgætið afhent að lokinni sýningu.  Áhorfendur hafa tekið vel í þetta og hefur hingað til allt selst upp á hverri sýningu.  

Bæta má við að leikmyndin er öll úr nytjahlutum og er innblásin af verki Þorvaldar „tapað-fundið“ sem var hluti af yfirlitssýningu hans í Listasafni Reykjavíkur árið 2004.  Safnað var í gám á endurvinnslustöð Sorpu í Ánanaustum í Reykjavík og fylltist hann á einni helgi. Á sýningum geta áhorfendur keypt það sem þeir girnast úr leikmyndinni og fengið það afhent að eftir að sýningum lýkur. Öll innkoman af þessari sölu rennur til góðgerðamála og er það hlutverk Kvenfélagasambands Íslands að ráðstafa henni.

Tvö kvenfélög bíða nú spennt eftir að mæta á fjalirnar næstu helgi á næstu sýningar á Englinum 10. og 11. janúar nk.   Meðfylgjandi eru myndir af þeim sýningum sem kvenfélögin hafa tekið þátt í.

Kvenfélagasambandið þakkar kvenfélögunum kærlega fyrir að taka svona vel í þetta skemmtilega verkefni og þakkar Þjóðleikhúsinu fyrir samstarfið, en við vitum ekki enn hversu margar sýningarnar verða. 

Ef þitt kvenfélag vill taka þátt í sýningu, hafðu þá samband við Jenný á skrifstofu KÍ á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

 Nánar um sýninguna á vef Þjóðleikhússins: https://www.leikhusid.is/syningar/engillinn

 

fkk

Eva Michelsen og Bryndís Friðgeirsdóttir mættu fyrir hönd Félags kvenna í Kópavogi á Aðalæfinguna.

81527983_2594516544103480_6466696803185065984_n.jpg

Sólveig Ólafsdóttir, Þórný Jóhannsdóttir, Guðrún Þórðardóttir og Jenný Jóakimsdóttir mættu fyrir hönd stjórnar KÍ á frumsýninguna.

81702244_554443195138566_3989989618295504896_n.jpg

grimsnesminni

Kvenfélag Grimsneshrepps mætti á sýningu milli jóla og nýárs. 

82024436 1439734246189675 6136473397908996096 n

Ágústa Magnúsdóttir og Una Sveinsdóttir mættu á sýninguna 4. janúar. 

grindavik

Hressar konur frá Kvenfélagi Grindavíkur

grindo.jpg

Borðið fullt af kræsingum og allt seldist upp. 

 

grindokve.jpg

Já það er alltaf fjör hjá kvenfélagskonum. 

husfreyjanminnimyndFjórða tölublað Húsfreyjunnar á 70 ára útgáfuafmælis ári er komin út. 

Það er Eliza Reid forsetafrú sem er í aðalviðtali Húsfreyjunnar í þessu síðasta tölublaði ársins. Ritstjóri ræddi við hana um jafnréttismál, matarsóun og fatasóun, lífið sjálft og jólin sem koma senn.

Í blaðinu eru birt þau þrjú ljóð sem unnu 1. – 3. sætið í Ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar og sagt frá höfundum þeirra. Kristín Ástgeirsdóttir skrifar um við hvaða konur hefur verið talað í þau 70 ár sem Húsfreyjan hefur komið út og Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur fer á skemmtilegan hátt yfir hvernig matargerð og uppskriftir haf birst í Húsfreyjunni í gegnum árin. Brynja Björk Halldórsdóttir sýnir hvernig hægt er að gera fallegar skreytingar úr því sem náttúran gefur okkur. Leiðbeiningastöð heimilanna birtir nokkrar uppskriftir af sykurlausum smákökum og Vilmundur Hansen fjallar um blómin sem algengust eru á aðventu og jólum og gefur ráð um umhirðu þeirra. Gefin er uppskrift af verðlaunasjali Dóru Líndal sem fékk fyrstu verðlaun í prjónasamkeppni á Prjónagleðinni á Blönduósi í sumar. Dagný í Hendur í höfn deilir tertuuppskriftum með lesendum. Sagt er frá jólaskeið Guðlaugar A. Magnússonar. Ásamt fjölmörgu öðru efni er matarþátturinn í umsjón Alberts Eiríkssonar á sínum stað og Steinunn Þorleifsdóttir gefur lesendum m.a. uppskrift af keðjuhekluðum vettlingum og hekluðu snjókorni í Handvinnuþættinum. 

Húsfreyjan fæst í áskrift á husfreyjan.is og er seld í lausasölu víða um land.

Njótið aðventunnar!

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands