Kveðja
forseta Íslands
Guðna Th. Jóhannessonar
til
Kvenfélagasambands Íslands
Á 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands færi ég því heillaóskir. Á stofndegi sambandsins, 1. febrúar 1930, var margt með öðrum brag í samfélaginu en um okkar daga. Mjög hallaði á konur á flestum sviðum. Vissulega var tekið að rofa til eftir óralanga undirokun. Konur höfðu öðlast kosningarétt og æðri menntastofnanir voru þeim ekki lengur með öllu lokaðar. Þeir sigrar unnust í krafti fjöldans og þeirra kvenna sem stóðu í fylkingarbrjósti þótt hliðhollir karlar hafi að sjálfsögðu einnig haft sitt að segja; þeir voru jú áfram í öllum valdastöðum.