Aðalfundur SAHK – Sambands austur-húnvetnskra kvenna var haldinn á Blönduósi, fimmtudaginn 2. maí. Árið 2018 átti Sambandið 90 ára afmæli og var ákveðið að halda fjáröflunarsamkomu í tilefni afmælisins og að allur ágóði skyldi renna til Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, til kaupa á baðlyftu.
Á aðalfundinum þann 2. maí 2019 afhenti síðan stjórn Sambandsins formanni stjórnar Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, Sigurlaugu Hermannsdóttur, afraksturinn að fjáröflunarsamkomunni peningagjöf að fjárhæð 725 þúsund krónur til kaupa á baðlyftu fyrir heilbrigðisstofnunina.
Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands mætti á fundinn og ávarpaði fundargesti og færði Sambandinu gjöf í tilefni 90 ára afmælisins, skrautritaða gestabók myndskreytta af Lindu Ólafsdóttur listakonu.
Kvenfélögin í Sambandinu eru sex og kvenfélagskonur eru 78. Starfsemi kvenfélaganna er mikilvæg í samfélaginu og fjölbreytt. Kvenfélögin hlúa að líknarmálum, menningarmálum, menntamálum, og umhverfismálum, fyrst og fremst í heimahéraði. Árið 2018 námu gjafir/styrkir kvenfélaganna í SAHK samtals um 1,5 milljónir króna.