Husfreyjan1tbl2019Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar á 70 ára afmælisárinu er komin út. 
Í þessu fyrsta tölublaði afmælisársins er fjölbreytt efni að vanda. Fjallað er um sögu Húsfreyjunnar í 70 ár. Sólveig Ólafsdóttir formaður kvenfélagsins i Grindavík er í forsíðuviðtali og segir frá sjálfri sér og þeim fjölbreyttu verkefnum sem kvenfélagið í Grindavík starfar að. Albert Eiríksson hefur umsjón með matarþættinum og fjallar um samverustundir og gefur uppskriftir að góðu á borðið þegar boðið er til samveru. Helga Jóna Þórunnardóttir, kennari í hinum þekkta Skals hönnunar- og handverkskóla í Danmörku sér um handavinnuþáttinn og gefur meðal annars uppskrift að tösku sem prjóna má í sundi eða heita pottinum þríhyrnu úr íslenskri ull og silki og uppskrift af fallegri peysu. Áfram er rætt um verkefni Kvenfélagasambandsins "Vitundarvakning um fatasóun". Að venju er Norræna bréfið birt í fyrsta tölublaði ársins,en það er Sirpa Pietikäinen sem er höfundur bréfsins í ár. Sirpa er finnskur fulltrúi Evrópuþingsins. Ljóðaveislan heldur áfram og ný ljóðasamkeppni kynnt til sögunnar. 

Kvenfélagasamband Íslands hefur fengið áframhaldandi styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti fyrir verkefnið Vitundarvakning um fatasóun. Með verkefninu mun KÍ halda áfram að vekja kvenfélagskonur og almenning til að taka þátt í að minnka fatasóun. Áfram verður því vakin athygli á umhverfisáhrifum fatasóunar með fyrirlestrum, viðburðum og greinum í Húsfreyjunni og á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna. Næsti Umhverfisdagur verður á Hallveigarstöðum þann 23. mars nk. og eins og í fyrra verður þar fræðsla, fataskiptimarkaður, boðið upp á fataviðgerðir og fleira tengt sóun.  Takið daginn frá! Meðfylgjandi mynd er frá Umhverfisdeginum í nóvember sl.

Guðrún snæbjörnsdóttir og margrét Lilja Magnúsdóttir kvenfélagi Álftanesssmaller 

Guðrún Snæbjörnsdóttir og Margrét Lilja Magnúsdóttir frá Kvenfélagi Álftaness við saumavélarnar að aðstoða við fataviðgerðir. 

1. febrúar, á Degi kvenfélagskonunnar var Félag kvenna í Kópavogi formlega stofnað.
Á stofnfundinn sem haldinn var í sal Siglingaklúbbsins Ými við Naustavör mættu hátt í 80 konur og var fullt út úr dyrum. Vaskar konur í Kópavogi höfðu undirbúið stofnunina í þó nokkurn tíma og var mikil gleði á fundinum, þar sem lög félagsins og nafn félagsins voru samþykkt og kosin stjórn. Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambandsins færði félaginu gestabók frá KÍ og færði hinu nýja félagi góðar kveðjur frá stjórn KÍ. Með stofnun félagsins verður haldið áfram sögu kvenfélags í Kópavogi. En á síðasta ári var Kvenfélagi Kópavogs því miður slitið en það hafði starfað í 70 ár.  Með stofnun þessa nýja félags mun kvenfélagastarf í Kópavogi halda áfram. Það er mikill eldmóður í konum í nýja félaginu og verðrur gaman að fylgjast með starfi þeirra. 

Þessar konur hlutu kosningu í stjórn Félags kvenna í Kópavogi.. 

Bryndís Friðgeirsdóttir, formaður
Eva Michelsen, varaformaður
Brynhildur Jónsdóttir, fjármálafulltrúi
Kristín Björk Viðarsdóttir, upplýsingafulltrúi
Harpa B. Hjálmtýsdóttir, viðburðastjóri
Ásta Hjálmtýsdóttir, varamaður
Þórhildur Guðsteinsdóttir, varamaður

Á myndinni sem fylgir eru konur í undribúningsnefnd stofnfundar ásamt nýkjörinni stjórn Félags kvenna í Kópavogi ásamt Guðrúnu Þórðardóttur forseta KÍ og Vilborgu Eiríksdóttur varaforseta KÍ.

 

 

Þann 18. janúar sl. fór hópur kvenfélagskvenna úr Grímsnesi í heimsókn á HSU Selfossi.  Tilefni heimsóknarinnar var að færa HSU formlega að gjöf rúmhjól, sem félagið færði stofnuninni í lok síðasta árs.  Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur ekki haft áður til umráða slíkt hjálpartæki. En þar er það notað af einstaklingum sem koma í blóðskilun.

Kvenfélag Grímsneshrepps er eitt af elstu kvenfélögum landsins og fagnar á þessu ári, þann 24. apríl 100 ára afmæli.  Í tilefni afmælisins gefur kvenfélagið út sögu félagsins þessi 100 ár.

Sjá nánar á heimasíðu HSU

Kvenfélagasamband Íslands sendir kvenfélagskonum, fjölskyldum þeirra, velunnurum, samstarfsaðilum og landsmönnum öllum hugheilar jóla og nýárskveðjur.

Með þökk fyrir ánægjulegar stundir á landsþinginu á Húsavík og árinu öllu.

Sérstakar þakkir frá félagskonur í Kvenfélagasambandi Suður- Þings fyrir dásamlegt landsþing á Húsavík og frábært samstarf við undirbúning.

Skrifstofa Kvenfélagasambandsins og Húsfreyjunnar verður lokuð frá 21. des - 3. janúar 2019

Jólakveðja KÍ 2018

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands