Annað tölublað Húsfreyjunnar 2020 er komið út og hefur verið sent til áskrifenda og á sölustaði. Blaðið er örlítið seinna á ferðinni núna vegna heimsfaraldurs og margir áskrifendur voru orðnir mikið spenntir að fá blaðið í hendurnar. Guðríður Helgadóttir eða Gurrý einsog flestir þekkja hana prýðir forsíðuna að þessu sinni og er í forsíðuviðtali sem ritstjórinn tók við hana í gegnum skjáinn á fordæmalausum tíma við vinnslu blaðsins. Gurrý segir frá uppvexti sínum á áttunda áratugnum, ánægjuefnum í lífinu og auðvitað garðyrkjunni. Hún fræðir síðan lesendur um ræktun á svölum, palli eða í glugga. Bryndís Óskarsdóttir í Skjaldarvík miðlar til lesenda þekkingu sinni á föndri, endurvinnslu og nýtni. Lesendur fá svo að lesa og njóta fjögurra ljóða sem bárust í Ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar á síðasta ári, ásamt því að fræðast um höfunda ljóðanna. Húsfreyjan lætur samfélagsmál sig varða og að þessu sinni skrifar Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur um ofbeldi í nánum samböndum. Leiðbeiningastöð heimilanna heldur áfram að fjalla um Vitundarvakningu um fatasóun, að þessu sinni er það Davíð Vigfússon skósmiður sem rekur Skóarann í Hafnarfirði sem svaraði nokkrum spurningum um hvernig við getum best farið með skóna okkar svo að þeir endist sem lengst. Helga G. Gunnarsdóttir fræðir lesendur um hvernig er best að koma sér upp góðri gönguáætlun. Matarþáttur Húsfreyjunnar er á sínum stað og að þessu sinni er það Kaja – Karen E. Jónsdóttir á Akranesi sem deilir með okkur uppskriftum af meðal annars; Grænmetisböku, Tómatsúpu, Franskri súkkulaði- og heslihnetuköku og öðru hollu góðgæti til að njóta í sumar. Helga Gísladóttir, sérkennari og tónlistarkennari svarar nokkrum spurningum fyrir lesendur. Handavinnuþáttur Húsfreyjunnar í umsjón Ásdísar Sigurgestsdóttur býður upp á uppskriftir að pjónuðu dúkkufatasetti, fallegu hekluðu sjali og prjónuðu handklæði.
Þetta og margt fleira í nýjasta tölublaði Húsfreyjunnar. Góð lesning í sumarfríinu innanlands. Njótið sumarsins.
Húsfreyjan kemur út 4x á ári og er seld í áskrift og lausasölu á sölustöðum víða um landið.