jafnrettisrad jafnrettisvidurkenning 2020 hopmynd 1
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs á Nauthóli í gær. Stelpur rokka! og Loftslagsverkfall ungs fólks hlutu viðurkenninguna í ár. Í rökstuðningi Jafnréttisráðs segir að Stelpur rokka! hafi með starfi sínu skapað rými fyrir stúlkur og ungt kynsegin fólk til að stíga fyrstu skrefin í tónlistarsköpun. Þær hafi einnig aukið kjark og þor sem muni setja mark sitt á framtíð tónlistarsköpunar á Íslandi. Loftslagsverkfall ungs fólks hlýtur sérstaka hvatningarviðurkenningu vegna baráttu sinnar fyrir aðgerðum á sviði loftslagsmála. Í rökstuðningi Jafnréttisráðs segir að í baráttu unga fólksins sé jafnrétti samofið skýrri framtíðarsýn. Með framtakinu felist heit inn í bjartari og réttlátari framtíð.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Samkomutakmarkanir hafa minnt okkur áþreifanlega á hversu mikilvægu hlutverki menning og listir gegna í samfélagi okkar. Stelpur rokka! hafa veitt ungum stúlkum og kynsegin ungmennum hvatningu tíl að skapa tónlist á eigin forsendum og sú sköpun mun gera líf okkar allra auðugra. Þá er einnig mikilvægt að muna að loftslagsváin hverfur ekki þó mikil athygli og áhersla sé á baráttuna við COVID-19. Nú er nauðsynlegt sem aldrei fyrr að vera meðvituð um umhverfismál, þegar samfélög um allan heim huga að enduruppbyggingu og endurreisn hagkerfa.“

Markmiðið með jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs er að veita viðurkenningu fyrir mikilvæg og metnaðarfull störf í þágu jafnréttis. Þá er viðurkenningin einnig hugsuð sem frekari hvatning til dáða.  Athöfnin var látlaus og fámenn í samkomutakmörkunum en gleðin og hátíðleikinn var til staðar í salnum eins og áður við þessa viðurkenningarathöfn.

Guðrún Þórðardóttir, forseti KÍ á sæti í Jafnréttisráði. 

 

Á mynd frá vinstri: Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Aðalbjörg Egilsdóttir (Loftslagsverkfall), Sigrún Jónsdóttir (Loftslagsverkfall), Halla Björg Randversdóttir (Stelpur rokka!), Áslaug Einarsdóttir (Stelpur rokka!), Anna Sæunn Ólafsdóttir (Stelpur rokka!) og Silja Bára Ómarsdóttir, formaður Jafnréttisráðs.

Húsfreyjan 4. tbl. 2020vefurJólablað Húsfreyjunnar er mætt til áskrifenda og í verslanir. Að venju er blaðið stútfullt af efni. Mæðgurnar Helga Möller og Elísabet Ormslev eru í einlægu viðtali við ritstjóra Húsfreyjunnar. Soffía Dögg Garðarsdóttir hjá Skreytum hús deilir með okkur hugmyndum af fallegum skreytingum á aðventunni. Söngvaskáldið og listakonan Myrra Rós Þrastardóttir segir frá sjálfri sér og tilurð þess að hún fór að hanna jólaskraut úr endurunnum orgelpípum. Útvarpskonan Sigga Lund tók að sér að svara spurningum Húsfreyjunnar í Spurt og svarað.

Að þessu sinni er það hin færeyska Marentza Poulsen sem sér um matarþátt Húsfreyjunnar. Hún segir frá sjálfri sér og gefur lesendum uppskriftir að dásamlegum smáréttum til að bjóða upp á, á aðventu og jólum.

Fleiri ljóð úr Ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar er að finna í blaðinu til að lesa og njóta.

Ásdís Sigurgestsdóttir sér um handavinnuþáttinn, þar er að finna m.a. engla hekl verkefni, fallega síða prjónaða jakkapeysu og heklaða inniskó. Í tilefni 90 ára afmælis Kvenfélagsambandsins höldum við áfram að rifja upp sögu þeirra kvenna sem lögðu brautina. Kristín Ástgeirsdóttir skrifar um systurnar frá Engey, fyrstu forseta KÍ, þær Ragnhildi og Guðrúnu Pétursdætur. Sagt er frá afmælishátíð í Múlakoti þegar afmæli Guðbjargar Þorleifsdóttur, húsfreyju í Múlakoti var minnst. Rætt er við Svanfríði Lársudóttur verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg fer yfir öryggi heimilanna.

Þetta og margt fleira í aðventu- og jólablaði Húsfreyjunnar. Njótið vel 🥰

corona 5124524 640Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands fundaði á Teams sl. laugardag 21. nóvember á 61. formannaráðsfundi.   Mjög góð mæting var á fundinn og voru umræður góðar. Ásamt venjubundnum dagskrárliðum voru kynnt verkefni ársins og þau verkefni sem eru framundan. Eva Michelsen sagði frá verkefnum afmælisnefndar og stöðu söfnuninarinnar Gjöf til allra kvenna á Íslandi. Þá fór fram undirbúningur og umræður vegna landsþings sem haldið verður  í Borgarnesi  í október 2021.  Fundarhald hefur að mestu legið niðri hjá samböndunum en kvenfélögin hafa sýnt mikla hugmyndaauðgi í verkefnum sínum og fjáröflun á þessu skrýtna ári. Vonast er til að formannaráð geti fundað í febrúar á næsta ári með venjubundnum hætti. 

Stjórn KÍ þakkar fulltrúum á fundinum kærlega fyrir góða mætingu á fundinn. 

 

Fundurinn sendir frá sér eftirfarandi ályktanir. 

Ályktun um sérfræðiþjónustu lækna

61. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í fjarfundi laugardaginn 21. nóvember 2020 beinir því til stjórnvalda að tryggja jafnt aðgengi allra landsmanna að sérfræðilæknum. Í dag þurfa margir að ferðast um langan veg til að fá þjónustu þeirra.  Því fylgir ferðakostnaður og vinnutap fyrir þann sem sækir þjónustu og jafnvel fyrir fylgdarmann. Mun hagkvæmara væri að fá þessa þjónustu í meiri mæli í heimabyggð, ýmist með fjarheilbrigðislausnum eða reglulegum heimsóknum sérfræðinga.

 

 

Ályktun um heilsu og hreyfingu félagskvenna

61. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í fjarfundi laugardaginn 21. nóvember 2020 hvetur kvenfélög til að huga vel að félagskonum sínum á tímum samkomutakmarkana í heimsfaraldri. Á meðan félagsstarf er takmarkað þarf að leita leiða til að rjúfa einangrun og hvetja félagskonur til að huga að heilsu og hreyfingu.

 

 

ÁHEITABAKSTUR KVENFÉLAGSKVENNA – BAKAÐ Í HEILAN SÓLARHRING - BÖKUM BETRA SAMFÉLAG

Kvenfélagskonur í Kvenfélagasambandi Íslands standa fyrir áheitabakstri í heilan sólarhring til að styðja við söfnunina Gjöf til allra kvenna á Íslandi.

Söfnunin hefur staðið allt árið í tilefni 90 ára afmælis Kvenfélagasambands Íslands.  Landssöfnunin Gjöf til allra kvenna á Íslandi safnar fyrir tækjakosti og hugbúnaði þeim tengdum, þ.e. rafrænar tengingar við sérfræðinga kvennadeildar LSH og stuðla þannig að bættri heilsuvernd kvenna um land allt.  

Á þessu herrans ári hefur heimsfaraldur Covid- 19 haft víðtæk áhrif á söfnunina þar sem ekki hefur verið hægt að halda þá fjölmörgu viðburði sem áttu að styðja við söfnunina, en kvenfélagskonur eru hugmyndaríkar og ætla sér að ná takmarki sínu. 

Því ætlar hópur kvenfélagskvenna að standa fyrir áheitabakstri eftir að hafa fengið grænt ljós hjá almannavörnum og heilbrigðiseftirlitinu. Bakað verður í deilieldhúsinu Eldstæðið sem er fullvottað eldhús. Þær munu byrja baksturinn klukkan 18:00 föstudaginn 27. nóvember til klukkan 18.:00 Laugardaginn 28. nóvember. Í takt við tíðarfarið munu Kvenfélagskonur víða um land taka þátt með fjarbakstri heimavið.  Hægt er að skrá sig til þátttöku í bakstrinum á skráningarformi

Áheit er hægt að leggja inn á söfnunarreikninginn 513-26-200000 kt: 710169-6759, framlög eru frjáls.

Auk þess mun afraksturinn verða boðin til sölu og hægt að sækja eða fá sent heim eftir því hvað hentar fólki best. Öll vinna kvenfélagskvenna er að sjálfsögðu unnin í sjálfboðavinnu og allur ágóði rennur beint í söfnunina.

Frábært tækifæri til að nálgast löglegar sörur og fleira góðgæti.   Hægt verður að leggja inn pantanir á heimasíðunni www.gjoftilallrakvenna.is 

Pöntunarform

Nánar á viðburðinum á facebook

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands