Um hamingjurannsóknir í haustblaði Húsfreyjunnar

Haustblað Húsfreyjunnar er komið út og ætti nú að vera að detta inn um lúgurnar hjá áskrifendum.

Að venju er blaðið stútfullt af góðu lesefni.

Aðalviðtalið að þessu sinni er við Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra hjá landlæknisembættinu og doktor í sálfræði, en hún hefur sérhæft sig í hamingjurannsóknum. Dóra Guðrún ræðir meðal annars um veru sína í klaustri í Suður-Frakklandi, mikilvægi félagslegra tengsla, lýðheilsuáskoranir unga fólksins og hamingjurannsóknir.

Bjargey Anna Guðbrandsdóttir ræðir við Húsfreyjuna um fyrirtækið sitt Píkusaum og sína sýn á femíníska handverksbyltingu.

Drífa Snædal talskona Stígamóta settist niður með ritstjóra og sagði frá starfi Stígamóta í tilefni 35 ára afmælis samtakanna, ásamt því að ræða um eilífa baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi.

Að þessu sinni eru tvær smásögur í blaðinu. Síðbúinn gestur eftir Sigríði Helgu Sverrisdóttur og íslenskur dagur á Kanarí eftir Elínu Konu Eddudóttur.

Albert Eiríksson skellti sér ásamt Sillu ljósmyndara í Söngskólann í Reykjavík. Hluti af kennurum skólans útbjó girnilega rétti fyrir Húsfreyjuna, sem finna má uppskriftir að í Matarþættinum.

Frumkvöðlarnir, Marta Schluneger og Þórey Rúnarsdóttir, segja frá fyrirtækinu sínu FLÍK en þær hafa hannað smáforrit fyrir prjónasamfélagið.

Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri Kvennasögusafns deilir með lesendum dýrmætum dagbókum kvenna og minnir í leið á mikilvægi þess að geyma vel gögn sem gætu veirð dýrmæt seinna meir. 

Í blaðinu er umfjöllun um vitundarvakningu Kvenfélagasambands Íslands og kvenfélaganna gegn einsemd og einmanaleika. En Vika einmanaleikans fer fram dagana 3. – 10. október. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að taka þátt.

Kristín Örnólfsdóttir sem sér um Hannyrðahornið gefur uppskriftir að prjónuðum léttum treflum og litaglöðum barnavettlingum. Kristín er líka með útsaum þar sem hún gefur lesendum hina klassísku setningu Heima er best í nýrri útfærslu.

Bryndís Fjóla Pétursdóttir segir frá lífi sínu í fróðlegu viðtali, en Bryndís lýsir sjálfri sér sem „fornkvendi, frumbyggju og völvu“. Hún ræðir meðal annars um Huldustíginn í Lystigarðinum á Akureyri, mótvægiskubb sem hún hefur hannað og tilraunir sínar með tilfinningar í vatni.

Krossgátan er svo að sjálfsögðu á sínum stað í blaðinu ásamt ýmsu öðru áhugaverðu efni.

Njótið lestursins.

Smelltu hér til að skrá þig í áskrift.

 

Húsfreyjan 3. tbl. 2025 LQ

 

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands