Kvenfélagskonur láta sig ýmis málefni varða og voru andleg heilsa, heilbrigðisþjónusta og einsemd og einmanaleiki sem voru meðal umræðuefna á 40. landsþingi á Ísafirði.
Þingið sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:
40. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið á Ísafirði dagana 11.-13. október 2024, hvetur landsmenn til að huga vel að andlegri heilsu sem meðal annars er hægt að gera með því að njóta gæðastunda með fjölskyldu og vinum. Gott er að reyna að aðskilja vinnu og einkalíf og fjölga þeim stundum þar sem öll fjölskyldan kemur saman, talar við hvert annað, deilir áhugamálum og nýtur samvista.
Og eftirfarandi ályktun sem hefur því miður verið ályktað um með mismunandi orðalagi oftar en einu sinni frá landsþingi KÍ. Enda málið jafn brýnt nú sem fyrr.
40. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið á Ísafirði dagana 11.-13. október 2024, hvetur stjórnvöld til að efla og bæta heilbrigðisþjónustu í landinu. Efla þarf fræðslu og forvarnir fyrir landsmenn sem getur bætt lífsgæði okkar og sparað í heilbrigðiskerfinu.
Mikill áhugi er nú á íslenska þjóðbúningnum. Á þinginu var erindi og sýning á þjóðbúningum frá Þjóðbúningafélagi Vestfjarða. KÍ hefur í gegnum tíðina hvatt til fræðslu um búninginn og hvatt til notkunar á honum. En þingið sendir einmitt frá sér ályktun þar sem hvatt er til notkunar á þjóðbúningum við sem flest tækifæri.
40. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Ísafirði dagana 11-13 október 2024, hvetur til notkunar á þjóðbúningum við sem flest tækifæri.
Þingið sendi frá sér eftirfarandi ályktun varðandi einsemd og voru þingfulltrúar sammála um að leggja sitt af mörkum með sérstökum verkefnum til að vinna gegn einsemd og einmanaleika á næstu árum. Tillaga lá fram fyrir þinginu um að kvenfélögin sameinuðust um verkefni gegn einsemd í samfélaginu og var það rætt í vinnustofum.
40. landsþing Kvenfélagasamband Íslands haldið á Ísafirði 11.-13. október 2024 vekur athygli á þeirri samfélagslegu vá sem stafar af vaxandi einsemd fólks. Þingið leggur áherslu á að unnið verði markvisst gegn einmanaleika og kallar stjórnvöld til ábyrgðar.