225 kvenfélagskonur víðs vegar af landinu funduðu, ræddu saman á vinnustofum, hlýddu á fyrirlestra, kusu nýja konu í stjórn KÍ, ályktuðu um mál sem á þeim brenna og heiðruðu fyrrum forseta KÍ. Svo má ekki gleyma þeim vinskap sem skapaðist meðal þeirra og allri skemmtuninni sem konur á Vestfjörðum buðu upp á þinginu. Einn innfæddur Ísfirðingur komst þannig að orði „Það var allt krökkt af hlægjandi konum í bænum alla helgina“.
Þingið hófst formlega með setningu þingsins í Ísafjarðarkirkju klukkan 18 og höfðu aðstandendur þingsins; KÍ og Samband vestfirskra kvenna hvatt þingfulltrúa til að mæta sem flestar í þjóðbúning við þingsetninguna þar sem íslenski þjóðbúningurinn var sérstaklega til umræðu á þinginu. Þar fluttu ávörp Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, Gyða Björg Jónsdóttir formaður Sambands vestfirskra kvenna (SVK og Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ sem setti svo þingið formlega.
Að lokinni þingsetningu bauð Samband vestfirskra kvenna þingfulltrúum í móttöku í Edinborgarhúsinu. Móttakan hófst á ávarpi frá bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar; Örnu Láru Jónsdóttir. Í móttökunni tók svo Heilbrigðisstofnun Vestfjarðaformlega á móti Gjöf til allra kvenna, en tenging er nú að komast við tæknibúnaðinn sem safnað var í tilefni 90 ára afmælis KÍ 2020 við Fæðingadeildina á Ísafirði. Hildur Elísabet Pétursdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar tók formlega á móti gjöfinni. En það var einstaklega ánægjulegt að hafa við þessa afhendingu fulltrúa frá flestum þeirra kvenfélaga sem söfnuðu fyrir gjöfinni við þessa afhendingu. (sjá nánar um gjöfina á www.gjoftilallrakvenna.is og kvenfelag.is )
Á laugardagsmorgun hófst svo þingið með almennum þingstörfum þar á meðal skýrslu KÍ sem Dagmar Elín Sigurðardóttir flutti helstu atriði upp úr. Skýrsluna má nálgast hér rafrænt.
Í skýrslu stjórnar kemur meðal annars fram að á undanförnum árum hefur afrakstur vinnu kvenfélaganna, numið tugi milljóna á ári hverju, sem runnið hafa til hinna ýmsu menningar- og líknarmála auk annarra samfélagsverkefna. Í skýrslunni kemur fram að kvenfélög innan KÍ hafa gefið 165.017.547 kr. alls til samfélagsins á árunum 2021 – 2023. vel gert ;-)
Á vinnustofu á laugardagsmorgun að loknum venjulegum fundarstörfum voru meðal annars sýning og erindi frá Margréti Skúladóttur, félagskonu í kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal. Margrét er líka formaður Þjóðbúningafélags Íslands og félagar hennar í Þjóðbúningafélagi Vestfjarða og kvenfélagskonur sýndu nokkrar gerðir þjóðbúninga. En mikill áhugi er nú á íslenska þjóðbúningnum og hefur KÍ lengi hvatt til fræðslu um búninginn og hvatt til notkunar á honum. En þingið sendir einmitt frá sér ályktun þar sem hvatt er til notkunar á þjóðbúningum við sem flest tækifæri.
___
40. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Ísafirði dagana 11-13 október 2024, hvetur til notkunar á þjóðbúningum við sem flest tækifæri.
___
Á sömu vinnustofu voru þingfulltrúar einnig beðnar um að koma með hugmyndir um og tillögur að verkefnum tengdum 95 ára afmæli KÍ á næsta ári, kvennaári 2025 og 100 ára afmæli Kí sem óðum styttist í. Unnið verður svo nánar með þær tillögur í stjórn KÍ og formannaráði.
Eftir hádegi á laugardag voru flutt framsöguerindi samkvæmt yfirskrift þingsins Valkyrjur milli fjalls og fjöru. Eftirfarandi erindi voru flutt:
- Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.
- Er byggðaþróun karlamál?
- Nanný Arna Guðmundsdóttir
- Borea Adventures á Ísafirði
- Dóra Hlín Gísladóttir - Kerecis
- Nýsköpun á landsbyggðinni – Reynslusaga
- Íris Ösp Heiðrúnardóttir listakona Netagerðinni á Ísafirði.
- YOGER - jógaspil fyrir heimaiðkun
Að loknum þingfundi fengu svo þingfulltrúar kærkomin tíma til að skoða sig um í bænum þar sem vertar og verslanir buðu upp á veitingar og góð tilboð.
Hátíðarkvöldverður landsþings var haldinn í Félagsheimilinu í Bolungarvík, þar sem konur í SVK voru enn á ný gestgjafar kvöldsins. Andrea Gylfadóttir félagskona í kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal var veislustjóri kvöldsins. Á hátíðarkvöldverðinum var Guðrún Þórðardóttir fyrrum forseti KÍ og fyrrum forseti NKF heiðruð fyrir störf sín fyrir sambandið, konur og kvenfélögin.
Félögin á Vestfjörðum buðu upp á frábæra skemmtun þar sem var mikið hlegið og notið í stórum kvennahóp yfir góðum mat og drykk. Dans var svo stiginn fram eftir nóttu. Það var Eygló Jónsdóttir sem kallar sig DJ Gló frá kvenfélaginu Hvöt sem sá um tónlistina en langt er síðan svo margar konur hafa verið á dansgólfinu á landsþingi.
Á vinnustofa á sunnudagsmorgun voru tvö mál til umræðu : hvernig kvenfélögin geta veitt konum af erlendum uppruna stuðning á sínum svæðum og hvað kvenfélögin geta gert til að styðja við fólk á sínum svæðum varðandi Einsemd og einmanaleika.
En tillaga lá fram fyrir þinginu frá Unu Maríu Óskarsdóttur fyrrum forseta KÍ með stuðningi frá öðrum fyrrum forsetum KÍ um að kvenfélögin sameinuðust um verkefni gegn einsemd í samfélaginu. Þingið sendi frá sér eftirfarandi ályktun og voru þingfulltrúar sammála um að leggja sitt af mörkum gegn einsemd og einmanaleika á næstu árum.
_____
40. landsþing Kvenfélagasamband Íslands haldið á Ísafirði 11.-13. október 2024 vekur athygli á þeirri samfélagslegu vá sem stafar af vaxandi einsemd fólks. Þingið leggur áherslu á að unnið verði markvisst gegn einmanaleika og kallar stjórnvöld til ábyrgðar.
___
Allar tillögur og hugmyndir sem komu fram á vinnustofum verða teknar vandlega til skoðunar og unnið með hugmyndir sem þaðan komu á næstu misserum.
Kvenfélagskonur láta sig ýmis málefni varða og voru andleg heilsa og heilbrigðisþjónusta meðal umræðuefna sem þingfulltrúar hafa áhyggjur af.
Þingið sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:
___
40. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið á Ísafirði dagana 11.-13. október 2024, hvetur landsmenn til að huga vel að andlegri heilsu sem meðal annars er hægt að gera með því að njóta gæðastunda með fjölskyldu og vinum. Gott er að reyna að aðskilja vinnu og einkalíf og fjölga þeim stundum þar sem öll fjölskyldan kemur saman, talar við hvert annað, deilir áhugamálum og nýtur samvista.
___
Og eftirfarandi ályktun sem hefur því miður verið ályktað um með mismunandi orðalagi oftar en einu sinni frá landsþingi KÍ. Enda málið jafn brýnt nú sem fyrr.
___
40. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið á Ísafirði dagana 11.-13. október 2024, hvetur stjórnvöld til að efla og bæta heilbrigðisþjónustu í landinu. Efla þarf fræðslu og forvarnir fyrir landsmenn sem getur bætt lífsgæði okkar og sparað í heilbrigðiskerfinu.
___
Kosningar fóru einnig fram á Sunnudeginum og þar var Rósa Marinósdóttir frá Kvenfélaginu 19. Júní á Hvanneyri kosin meðstjórnandi til næstu þriggja ára.
Kosið er einnig um forseta KÍ og gjaldkera á KÍ og gáfu þær Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti og Magðalena Karlotta Jónsdóttir gjaldkeri sig fram til áframhaldandi setu í stjórn. Ekki bárust mótframboð þær munu því áfram sitja í stjórn KÍ næstur þrjú árin.
Lagabreytingar runnu allar í gegn en flestar þeirra voru þannig að lítlar umræður voru nauðsynlegar, um var að ræða orðalagsbreytingar og breytingar í takt við nýja tíma.
Ein lagabreyting lá þó fyrir þinginu sem hefur töluverðar breytingar á starfinu í för með sér og var sú breyting samþykkt samhljóma.
Nú geta kvenfélög þar sem ekki er starfandi héraðssamband innan KÍ fengið beina aðild að KÍ.
Ný lagagrein var samþykkt svona:
Einstök kvenfélög geta ekki orðið beinir aðilar að KÍ. Undanskilin eru kvenfélög þar sem héraðssamband á þeirra félagssvæði er ekki aðili að KÍ, þá geta þau kvenfélög átt beina aðild meðan svo er. Þau félög njóta sömu réttinda og þurfa að uppfylla sömu skilyrði og héraðssamböndin. Það kvenfélag, sem þegar var beinn aðili samkvæmt eldri lögum þegar breytt ákvæði tók gildi, er áfram félagi á upprunalegu forsendunum og lýtur einnig sömu skilyrðum og héraðssamböndin
Nú geta því stök kvenfélög á þessum svæðum sótt um beina aðild. Það er von stjórnar að nú muni kvenfélögum innan KÍ fjölga í kjölfarið á þessari lagabreytingu. Öllum kvenfélögum sem uppfylla þessi skilyrði eru boðin velkomin í starf Kvenfélagasambands Íslands.
Á landsþinginu komu saman allar kynslóðir kvenna frá um 18 ára – rúmlega 90 ára frá 15 af 17 héraðssamböndum í KÍ.
Næsta landsþing verður í Vík í Mýrdal 2027 og gestgjafar þar verða konur frá Sambandi vestur skaftfellskra kennal
Látum okkur hlakka til þess.
Frekari umfjöllun um landsþingið verður í jólablaði Húsfreyjunnar.
Takk fyrir komuna á landsþing.
JJ/ myndir Silla Páls Myndir frá þinginu er að finna á Facebook síðu KÍ.
Smelltu hér til að skoða myndir