Hvað er heimilisofbeldi ?
Samkvæmt skilgreiningu Samtaka um kvennaathvarf er um að ræða
heimilisofbeldi þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli
friðhelgi heimilisins til tilfinningalegrar-, félagslegrar- og
fjárhagslegrar bindingar. Fjölskyldutengsl milli gerenda og þolenda
ofbeldis geta verið með ýmsu móti en í langflestum tilvikum er um að
ræða karlmann sem beitir konu ofbeldi í skjóli líkamlegra yfirburða.
Heimilisofbeldi getur birst í ýmsum myndum og getur bæði verið andlegt
og líkamlegt. Andlegt ofbeldi þar sem fórnarlambið er markvisst brotið
niður með hótunum, kúgun og niðurlægingu, er oft undanfari líkamlegs
og/eða kynferðislegs ofbeldis. Það er ekki síst hið andlega ofbeldi sem
erfitt er að greina og átta sig á. Samkvæmt tölum frá Samtökum um
Kvennaathvarf nefna um 90% þeirra kvenna sem leituðu til athvarfsins
2005 andlegt ofbeldi sem eina af ástæðum komu sinnar þangað. Þessar
tölur sýna að nauðsynlegt er að opna umræðuna og vekja athygli á því að
skilgreining á heimilisofbeldi á ekki einungis við líkamlegt ofbeldi.
Hvað getur þú gert?
Yfirleitt bera konur ekki með sér að þær búi við heimilisofbeldi og halda því
svo leyndu, jafnvel árum saman, að nánir aðstandendur hafa ekki hugmynd
um ástand mála. Jafnvel áttar þolandi sig ekki á vandanum heldur tekur
á sig alla ábyrgð og reynir af vanmætti að bæta ástandið með því að
"hegða sér betur."Fyrir þann sem stendur utan við er auðvelt að
segja"af hverju fer hún bara ekki?" Það getur hins vegar verið mjög
erfitt að brjótast út úr ofbeldissambandi þar sem að búið er að brjóta
niður sjálfsmynd viðkomandi. Fyrsta skrefið er að viðurkenna fyrir
sjálfum sér að maður búi við ofbeldi og það næsta að geta viðurkennt
það fyrir öðrum. Það er hins vegar einnig ábyrgð samfélagsins að
berjast gegn heimilisofbeldi. Ef grunur vaknar um ofbeldi á heimili
skal samkvæmt leiðbeiningum Samtaka um kvennaathvarf, fylgja þeirri
reglu að konan sjálf sé sérfræðingur í sínum málum. Það er því
nauðsynlegt að taka ekki fram fyrir hendurnar á þolendum heldur veita
stuðning og benda á úrræði. Besti stuðningurinn felst oft í því að
hlusta án þess að dæma og reyna að vekja þann skilning að ofbeldi sé
aldrei réttlætanlegt.
Sigurlaug Viborg, forseti Kvenfélagasambands Íslands.
Guðrún Hansdóttir, svæðisstjóri Zonta á Íslandi, formaður Zontasambands Íslands.
Rannveig Thoroddsen verkefnisstjóri mennta- og menningarmála, Soroptimistasambandi Íslands
www.zonta.is www.kvenfelag.is www.soroptimist.is