Jólablað Húsfreyjunnar

Jólablað Húsfreyjunnar er að venju  einkar efnisríkt. Aðalviðtal Húsfreyjunnar að þessu sinni er við Hlín Mainka Jóhannesdóttir, Hlín er fædd í Þýskalandi en íslenski hesturinn dró hana til Íslands og hefur hún búið hér nú í 27 ár, þar af 20 ár í Skagafirðinum þar sem hún býr nú og rekur fyrirtækið Yogihorse. Í tilefni jóla er Húsfreyjan stútfull af jólalegum uppskriftum, þar á meðal fallegum jóla- og áramótadrykkjum sem eru bæði gómsætir og gleðja augað. Guðrún Bjarnadóttir, náttúrufræðingur sem rekur Jurtalitunar vinnustofuna Hespuhúsið rétt fyrir utan Selfoss er í mjög áhugaverðu viðtali þar sem hún talar tæpitungulaust um þær áskoranir sem handverksfólk glímir við þegar koma skal vöru á markað. Fyrirsögn viðtalsins við Guðrúnu er; Lítið og krúttlegt borgar ekki reikningana. Guðrún gefur lesendu einnig uppskrift að skemmtilegri húfu sem hún nefnir Horn.
husfreyjan forsida4tbl2023Kvenfélagasamband Íslands segir frá formannaráðsfundinum sem haldinn var í október á Hallveigarstöðum og móttöku sem haldin var í tilefni af 60 ára afmæli Leiðbeiningastöðvar heimilanna. En í blaðinu að þessu sinni er umfjöllun um starf Leiðbeiningastöðvarinnar síðastliðin 60 ár. Litið er til fortíðar og nokkrar kvenfélagskonur skelltu á sig svuntuna og bökuðu nær 60 ára gamlar uppskriftir sem birtust í jólablaði Húsfreyjunnar á þeim árum. Þar á meðal glæsilega jólatertu, Hlauptertu og Karamelluköku ásamt nokkrum smáköku uppskriftum.
Húsfreyjan heimsótti jólasveinana í Dimmuborgum og tók meðal annars stutt viðtal við Stúf. Smásagan að þessu sinni er eftir Hlíf Önnu Dagfinnsdóttur og heitir Horft til liðinna tíma. Við minnum auðvitað á að nú er hægt að senda inn smásögur í smásögusamkeppni Húsfreyjunnar.
Svava Sigbertsdóttir, líkamsræktarfrömuður í London er í viðtali, en hún hefur kennt Bretum að æfa eftir svokallaðri Víkingaaðferð. Svava gefur lesendum sín bestu Víkingaráð.
Albert Eiríksson sem hefur umsjón með matarþætti Húsfreyjunnar heimsótti Félag austfirskra kvenna og gefa þær lesendum uppskriftir að fjölmörgum girnilegum tertum sem voru bornar í glæsilega jólaboðinu þeirra og tilvalið að nýta sér þær uppskriftir fyrir jólin. Það er svo Hulda Waage kraftlyftingakona sem gefur uppskriftir að Vegankrásum á jólaborðið.
Jónína Óskarsdóttir er í viðtali og segir frá bók sinni Konurnar á Eyrarbakka – sitthvað af konu minni hverri. Í bókinni eru viðtöl við og samtöl við ættingja um konur, 38 konur alls sem eru fæddar á tæplega hundrað ára tímabili.
Fjallað er um W.O.M.E.N sem eru samtök kvenna af erlendum uppruna en félagið varð nýlega 20 ára. Markmið samtakanna er að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna af erlendum uppruna á öllum sviðum þjóðlífsins.
Sjöfn Kristjánsdóttir sem sér um Hannyrðahornið gefur skemmtilegar uppskriftir að prjónuðum jólagjöfum en þar má finna fallega barnapeysu, jólahúfu á börnin og lambhúshettu sem væri tilvalið að prjóna á aðventunni og skella í jólapakka. Björg Baldursdóttir segir okkar skemmtilega jólasögu sem hún nefnir Kistan hennar Grýlu. En þar segir frá samskiptum Grýlu og Leppalúða í aðdraganda jóla. Tilvalið að skemmta sér yfir þeirri sögu undir teppi með heitt kakó í bolla.
Kristín Helga Schiöth gefur svo lesendum góð ráð til að taka græn skref í jólahaldinu, en Kristín starfar sem verkefnastjóri umhverfismála hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.
Þetta og margt fleira er að finna í jólablaði Húsfreyjunnar. Þú getur gerst áskrifandi að Húsfreyjunni á vefnum okkar og nýtt þér jólatilboðið og fengið þannig sent til þín jólablaðið og eitt annað eldra blað frítt með áskrift næsta árs. Kæru lesendur njótið aðventunnar.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands