Kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal, færði fæðingadeild Fjórðungssjúkrahússins
á Ísafirði Bilibed ljósarúm á föstudag. Rúmið er ætlað til notkunar við
að meðhöndla gulu í nýburum. Gula stafar af því að styrkur
galllitarefna eða gallrauða, svonefndu bílirúbíns, í blóðinu verður
óeðlilega hár. Allir nýburar fá slíka hækkun á fyrstu sólarhringunum
eftir fæðingu og um helmingur þeirra fær sýnilega gulu. Hjá fyrirburum
er þetta hlutfall hærra og flestir þeirra fá gulu. „Er þetta frábær
gjöf sem kemur sér afskaplega vel enda nokkuð um að nýburar fái
einhvern snert af gulu fyrstu dagana. Vill Starfsfólk stofnunarinnar og
sérstaklega fæðingadeildarinnar færa Kvenfélaginu innilegar þakkir en
þess má geta að þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem Kvenfélagið
styrkir starfsemi sjúkrahússins“, segir í tilkynningu sjúkrahússins.