Húsfreyjan er mætt fersk einsog alltaf

Nú er Húsfreyjan komin eða á leið til áskrifenda.  Í þessu fyrsta tölublaði ársins sem kemur út í febrúar er áherslan í blaðinu á fjölbreyttan hóp kvenfélagskvenna og starf kvenfélaganna víða um land. Katrín Tanja Davíðsdóttir heimsmeistari í CrossFit og kvenfélagskona í Hvítabandinu er í forsíðuviðtalinu að þessu sinni og fá lesendur að kynnast lífi þessarar kraftakonu.  Eva Michelsen er svo önnur kraftakona sem við fáum að kynnast en Eva er raðfrumkvöðull, ævintýramanneskja, bókhaldsnörd og kvenfélagskona í Kópavogi sem meðal annars rekur Eldstæðið sem er deili- eldhús í Kópavoginum.

Lilja Sverrisdóttir úr Kvenfélaginu Hjálpin í Eyjafjarðasveit segir frá bókinni Drífandi daladísir sem félagið gaf út í tilefni af 100 ára sögu félagsins. Lesendur fá svo að kynnast Hildi Harðardóttur sem er formaður stjórnar kvenna í orkumálum sem segir frá starfinu í félaginu, en hlutverk þess er að stuðla að jafnrétti í orkumálum, efla þátt kvenna og styrkja tengsl kvenna innan orkugeirans.

Í blaðinu er sagt eins og alltaf frá starfi Kvenfélagasambands Íslands, ásamt því sem nokkur kvenfélög eru heimsótt. Þeirra á meðal eru Kvenfélagið Iðunn í Eyjafjarðarsveit sem nýlega fagnaði 90 ára afmæli félagsins. Svo er það Guðný Nanna Þórsdóttir sem er í viðtali við ritstjóra og segir frá sjálfri sér og þeim fimm fræknu í Kvenfélaginu Einingu á Skagaströnd.

Í Hannyrðahorninu gefur Sjöfn Kristjánsdóttir prjónahönnuður lesendum að þessu sinni uppskriftir af fallegum flíkum fyrir fullorðna sem henta fyrir öll kyn. Flíkurnar heita Ava mynsturpeysa og Ilmur sokkar.  Auk þess er sagt frá bókinni Sjöl og teppi sem Auður Björt Skúladóttir gaf út fyrir skemmstu og fá lesendur að  njóta uppskriftar frá henni að fallegu sjali sem nefnist Vetrarboði.

Albert Eiríkson býður lesendum með sér í Páskadögurð til Árdísar Huldu Eiríksdóttur forstöðukona Hrafnistu. Meðal uppskrifta sem eru gefnar í matarþættinum eru Perur með gráðosti og pekanhnetum, Ananasostakaka, Páskamarengsterta með passioncurd , Sjávarréttabrauðréttur, Gerbrauð með fyllingu og fleira fallegt og gott til að njóta með góðu fólki. Leiðbeiningastöð heimilanna gefur ráðleggingar um hvernig við getum lengt líf þvottavélanna okkar með góðri umhirðu og einföldum ráðum við ýmsum vandamálum.

Hrefna Björk Sverrisdóttir segir frá bók sinni Viltu finna milljón og við fáum að kynnast Þórdísi Dögg Auðunsdóttur sem árið 2021 í miðjum heimsfaraldri opnaði blóma- og gjafavöruverslunina Klukkublóm á Hellu. Þetta allt, ásamt smásögu og að sjálfsögðu Krossgátunni sem er á sínum stað er að finna í fyrsta tölublaði Húsfreyjunnar.   

Húsfreyjan 1. tbl. 2023 LQ

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands