febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar. Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, (1930) var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Það var enda löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.
Dagurinn hefur fest sig í sessi undanfarin 12 ár og er hans nú getið á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum.
Kvenfélagasambandið var stofnað árið 1930 sem sameiningar og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu sem þá þegar voru orðin fjölmörg. Fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869. Konur hafa síðan þá stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið, sérstaklega hvað varðar málefni barna, kvenna og fjölskyldna. Má segja að konur hafi með því tekið völdin í sínar hendur löngu áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfinu með kjörgengi og kosningarétti. Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu afar mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum.
Kvenfélagskonur um land allt halda uppá daginn hvert með sínum hætti.
Kvenfélagasambandið hvetur allar kvenfélagskonur til að halda daginn hátíðlegan og landsmenn alla til að heiðra kvenfélagskonur þennan dag.