Nýr ritstjóri Húsfreyjunnar

Sigridur vefGengið hefur verið frá ráðningu nýs ritstjóra Húsfreyjunnar, tímariti Kvenfélagasambands Íslands.

Sigríður er Þingeyingur líkt og forveri hennar í starfi. Fædd og uppalin á Húsavík. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Sigríður er nýtekin við starfi bæjarstjóra Fjallabyggðar. Síðastliðið sumar lét hún af störfum sem forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eftir 18 ára störf hjá stofnuninni sem framkvæmdastjóri og síðast forstjóri. Sigríður hefur einnig átt sæti á alþingi fyrir Norðurland vestra, setið í sveitarstjórn á Siglufirði, unnið í markaðsdeild Olís, sinnt kennslu við grunnskóla og háskóla, verið fréttaritari Morgunblaðsins og unnið á sjó, en þess má geta að hún er með skipstjórnarréttindi. Auk þess er hún m.a. með mastersgráðu í stjórnun (MBA) frá Háskóla Íslands og diploma gráðu í opinberri stjórnsýslu.

Sigríður er spennt fyrir nýjum verkefnum í samvinnu við öfluga ritstjórn. Yfirskrift blaðsins ,,Jákvæð og hvetjandi“ er það sem hún vill að Húsfreyjan standi fyrir. Veiti lesendum innsýn í þau fjölbreyttu verkefni sem konur um land allt eru að sinna.

Fyrsta tölublað nýs ritstjóra kemur út um miðjan september nk.

Sigríður tekur við góðu búi af Kristínu Lindu Jónsdóttur, sem setið hefur í stól ritstjóra Húsfreyjunnar síðan árið 2003. 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands