Norrænu kvennasamtökin - NKF 103 ára

þessi dagur 10. mars er er sérstakur hátíðisdagur Norrænu kvennasamtakanna- NKF ( Nordens kvinnoforbund) og eru samtökin  nú 103ja ára.  Kvenfélagasamband Íslands gerðist formlegur aðili að samtökunum 1950. Norrænt sumarþing NKF verður haldið á Íslandi dagana 10-12. júní í sumar.  

Þegar samtökin urðu 100 ára birtist í Húsfreyjunni samantekt úr 100 ára starfi samtakanna. 

Er hún endurbirt hér í tilefni dagsins. 

 

Skráning á sumarþing NKF hér: https://kvenfelag.is/nkf2022

 LOGO NKF

Norrænu kvennasamtökin - NKF í 100 ár

Það var eitt sinn að þrjár konur hittust í Kristjaníu, sem í dag er Osló höfuðborg Noregs. Ástæðan fyrir fundi þeirra var sameiginlegur vilji þeirra að stofna Norrænt húsmæðrasamband. Þetta voru þær Carla Meyer frá Danmörku, Agnes Palmstierna Ingelman frá nýstofnuðum landssamtökum húsmæðra í Svíþjóð og gestgjafinn sjálfur Marie Michelet frá Noregi. Allar höfðu þær sterkan persónuleika.

Carla Meyer og Agnes höfðu verið boðnar til Kristjaníu, til að vera viðstaddar fyrsta landsþing Húsmæðrasambandsins í Noregi sem haldið var 1. júlí 1919. Það var þá sem Norræna húsmæðrasambandið (NHF) varð til. Til að gera þetta nýja Norræna samband sannarlega norrænt var mikill vilji fyrir því að bjóða Íslandi og Finnlandi að vera með sem gerðist svo siðar. Á þessum tíma einsog í dag var mikið sem sameinaði þessi lönd. Þessi lönd (fyrir utan Ísland og Finnland) höfðu áður fyrr talað nánast sama tungumálið. Fólk á Norðurlöndunum átti margt sameiginlegt, svipað réttarkerfi, menningin var svipuð og öll iðkuðu þau sömu trú. Félagsleg þróun hafði þróast svipað, allstaðar ríkti lýðræði, frelsi og friður, sem sýndi sig á stríðsárunum 1914 – 1918, er Norðurlöndin héldu hlutleysi sínu. Að ógleymdu hinu Norræna myntbandalagi sem þá var við lýði. Konurnar í þessu nýstofnaða Norræna húsmæðrasambandi skildu hverja aðra og höfðu sömu sýn í lífinu hvað varðar heimilið og fjölskylduna. Á þessum fyrsta fundi þeirra var kosin bráðbirgðastjórn og Marie Michelet frá Noregi var kosin fyrsti formaður NHF og var það á árunum 1920 – 1924 og svo aftur 1933-1937.

Í október árið 1920 komu þær svo saman aftur og þá hafði þetta nýstofnaða Norræna húsmæðrasamband náð til allra Norðurlandanna. Það var þá sem lög voru samþykkt og endanlega gengið frá stofnun þess. Kristín Jacobsen frá Íslandi formaður Kvenfélagsins Hringsins sem stofnað var 1904, var áheyrnarfulltrúi á þessum fundi. Eitt af fyrstu verkefnum þessa sambands 1921 var að koma á fót framhaldsnámskeiðum fyrir fóstrur í Stokkhólmi. Öll samböndin sem áttu aðild að NHF höfðu staðið fyrir og/eða ráku Húsmæðraskóla eða stóðu fyrir ýmiskonar fræðslu um heimilishald. Árið eftir var svo stofnaður fyrsti norræni skólinn fyrir hjálparstúlkur húsmæðra í Uppsölum. Á norrænu námskeiði sem haldið var í Stokkhólmi 1931 af sambandinu var rætt um vinnu húsmóðurinnar sem starf og þess krafist að allar konur hljóti tvennskonar menntun, bæði til heimilisstarfa og til annars launaðs starfs. Árið 1933 var ACWW Associated Country Women of the World stofnað og hafði Marie Michelet tekið virkan þátt í stofnun þess. Var það þýtt sem alþjóðasamband húsmæðra og var Norræna sambandið aðili að því, en seinna varð svo hvert land fyrir sig aðilar að ACWW.

Í seinni heimsstyrjöldinni unnu húsmæður í Danmörku og Svíþjóð að því að aðstoða hertekna nágranna sína í Noregi og Finnlandi með fæði og klæði og með því að taka að sér börn þeirra á meðan á stríðinu stóð. Norska húsmæðrasambandið var leyst upp í stríðinu til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu notfært sér samtökin. Meðan á stríðinu stóð höfðu þjóðverjar eyðilagt allar fundarbækur og skjöl norska sambandsins. En það var svo endurreist strax aftur eftir stríðslok. Á árunum eftir stríð var unnið að því í Noregi að verðgildi heimilisstarfa væri tekið inn í hagskýrslur. Árið 1947 kom svo út ritgerðin – Fjölskyldulíf og heimilisstörf – í Svíþjóð.  Þessi ritgerð var þýðingarmikil fyrir norrænar húsmæður. Þar var gerð grein fyrir þjóðhagslegu gildi þess starfs sem húsmóðir vinnur við barnauppeldi. Fleiri rit og ályktanir af svipuðu tagi komu fram um þessar mundir. Aðildarlönd NHF stóðu meðal annars fyrir neytendafræðslu og fræðslu í heimilisstörfum, næringarfræðslu, barnauppeldi og fleira því tengdu.

Á stjórnarfundi NHF í Bergen 1949 var aðild Íslands að NHF samþykkt. Á norrænu þingi í Lillehammer 1950 var svo Kvenfélagasambandi Íslands veitt formlega aðild að NHF. Áður hafði Ísland eingöngu átt áheyrnarfulltrúa á þingum og stjórnarfundum.

Á norrænu þingi 1953 var fjallað um – Vandamál giftra kvenna, sem starfa utan heimilis- og var send ályktun til nefndar sameinuðu þjóðanna sem fjallaði um stöðu kvenna um að æskilegt sé að bæta möguleika þeirra til hálfs dags starfa utan heimilis. Það var svo 1957 sem aftur er send ítarleg ályktun um hálfs dags vinnu fyrir húsmæður, til ýmissa stofnana. NHF hafði lagt mikla áherslu á að mat á starfi húsmóðurinnar yrði tekið inn í hagtölur. Á sama tíma kemur fram krafan um dagvist barna hálfan daginn fyrir börn giftra foreldra. Á svipuðum tíma var á Norðurlöndunum farið að tala um rétt húsmæðra til að taka orlof, rétt einsog þeir sem væru á vinnumarkaði. Það var Ragnheiður Möller sem fyrst kynnti síðan framkvæmd slíkra laga á Norðurlöndum með framsögu á landsþingi Kvenfélagasambands Ísland árið 1955. Lög um orlof húsmæðra voru svo staðfest á Íslandi 1960.

Baráttumál NHF hafa verið fjölbreytt frá stofnun þess fyrir hundrað árum, þó svo fyrst um sinn hafi áherslan verið á menntun húsmæðra, barnauppeldi, neytendafræðslu og heimilið. Upp úr 1960 fór að bera meira á málefnum er varðaði stöðu kvenna almennt í samfélaginu, bæði lagalega og á heimilinu.  Á norrænu þingi í Helsingfors 1968 var samþykkt áskorun um aukna náttúruvernd gegn mengun vatns og lofts. Síðan þá hafa samböndin öll saman og í sitthvoru lagi unnið með umhverfismálin, t.d. með fræðslu um matarsóun og fatasóun. Sigríður Thorlacius þáverandi forseti Kvenfélagasambands Íslands varð svo fyrsti íslenskra kvenna til að taka að sér formennsku í NHF 1976 þegar norrænt þing var haldið í Reykjavík, en sökum fjárskorts hafði Ísland ekki gert það fyrr. Á árunum 1996-2000 var Drífa Hjartardóttir þáverandi forseti KÍ formaður þeirra.

Nafni sambandsins var breytt 1997 í Nordens kvinne og familieforbund og árið 1999 í Nordens kvinneforbund sem er núverandi nafn sambandsins skammstafað NKF.

Árið 2016 tók Guðrún Þórðardóttir núverandi forseti KÍ við formennsku Norrænu kvennasamtakanna NKF.

Norðurlöndin hafa skipt með sér formennsku og skiptast einnig á að halda Norrænu sumarþingin þar sem allar kvenfélagskonur eru velkomnar.  Þar er tekið á þeim málefnum sem NKF og aðildarsamtök þeirra láta sig varða. Á Norrænu þingunum gefst gott tækifæri til að kynnast Norrænum kvenfélagskonum og starfi kvenfélaga þeirra. Lagt er upp með að umhverfi þess staðar sem þingið er haldið á sé kynnt fyrir þátttakendum og farnar kynnisferðir um nágrenni staðarins.

 

 

Tekið saman af Jenný Jóakimsdóttur

Bygg á heimildum Sigríðar Thorlacius; söguágrip Húsmæðrasamband Norðurlanda sem tekið var saman á 50 ára afmæli samtakanna og nýtúkomnu söguágripi Nordens Kvinneforbund sem NKF gaf út í tilefni 100 ára afmælis NKF.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands