Í dag á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er ekki hægt annað en að hugsa til þeirra fjölmörgu kvenna frá Úkraínu sem nú leita skjóls og/eða eru á flótta vegna stríðsátaka. Konur eru meirihluti flóttafólks frá Úkraínu, fjölskyldur eru sundraðar og konur og börn flýja einar út í óvissuna á meðan eiginmenn, feður, elskhugar og bræður berjast í stríði sem var ófyrirséð fyrir aðeins nokkrum dögum síðan. Við sem horfum á utanfrá erum agndofa og sorgmædd yfir þessari árás á sjálfstæða þjóð. Í dag er því rétti dagurinn til að íhuga hvernig við getum hjálpað.
Á heimasíðu Stjórnarráðsins er að finna upplýsingar um hvernig einstaklingar geta veitt stuðning til Úkraínu þannig hann nýtist sem best. Þar kemur fram að eins og sakir standa koma bein fjárframlög að betri notum en útbúnaður og gögn. Því er mælst til þess að þau sem vilja leggja hjálparsamtökum og öðrum lið vegna stöðunnar í Úkraínu skoði beinan fjárstuðning við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og félagasamtök sem nú þegar eru á vettvangi.
Hér eru upplýsingar um einstaka fjársafnanir á vegum íslenskra félagasamtaka sem eiga í samstarfi við utanríkisráðuneytið:
- Barnaheill – Save the Children á Íslandi
- Hjálparstarf kirkjunnar
- Rauði krossinn á Íslandi
- SOS barnaþorpin á Íslandi
- Landsnefnd UNICEF á Íslandi
- Landsnefnd UN Women á Íslandi
Ef þú þekkir til eða ert í samskiptum við fólk á flótta sem vill leggja leið sína til Íslands er þér bent á upplýsingasíðu Útlendingastofnunar á íslensku og á ensku. Þar koma alltaf fram nýjustu upplýsingar fyrir fólk frá Úkraínu sem hyggst koma til Íslands.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur skipað sérstakt aðgerðateymi vegna komu einstaklinga á flótta frá Úkraínu. Teymið fer með yfirstjórn aðgerða og vinna að skipulagningu á móttöku fólks frá Úkraínu.
Í gær kom fram í fréttum að opnuð verður rafræn gátt fyrir tilboð um aðstoð svo tryggja megi yfirsýn og meta þörf og eftirspurn. Sérstaklega á það við um tilboð um húsnæði til skemmri eða lengri tíma.
Í dag er dagurinn til að sýna samstöðu kvenna. Hvernig getur þú og/eða þitt kvenfélag hjálpað?