Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar 2022

Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar á nýju ári er komin út og ætti að hafa borist öllum áskrifendum og vera komin á alla sölustaði.

Enn sem fyrr er efni blaðsins fjölbreytt.  Fyrsta tölublað hvers árs er sérstaklega tileinkað kvenfélagsstarfinu og er það vegna þess að 1. febrúar er Dagur Kvenfélagskonunnar.

Að því tilefni er Gyða Björg Jónsdóttir formaður Sambands vestfirskra kvenna aðalviðmælandi í þessu febrúarblaði. Gyða er búsett í Hnífsdal og á og rekur verslunina Jón og Gunnu í miðbænum á Ísafirði. Póstkort blaðsins að þessu sinni kemur frá Stellu og Grétu sem reka Kaffihúsið Bláa kannan á Akureyri.

Það á svo vel við að birta í blaðinu smásögu sem barst í Smásagnakeppni Húsfreyjunnar og ber heitið Kvenfélagskaffið. Höfundur sögunnar er Guðríður Baldvinsdóttir sem er félagi í Kvenfélagi Keldhverfinga. Skemmtileg saga um tertur og ástir í Kvenfélaginu.  Við fáum að kynnast fleiri kvenfélagskonum í blaðinu og að þessu sinni er það Hildur Traustadóttir í Kvenfélaginu Hvanneyri sem er spurð frétta og segir hún frá sér og sínum störfum.

Ný útgáfustjórn Húsfreyjunnar er kynnt til leiks og kynnt eru tvö væntanleg þing sem kvenfélagskonum býðst að sækja á árinu. Bæði þessu þing áttu að fara fram 2020 en var frestað til 2022 vegna heimsfaraldurs.

Hannyrðahornið er á sínum stað og þar fá lesendur uppskriftir að fjölbreyttum prjónaverkefnum, meðal annars; Kuldakragi og leikskólavettlingar fyrir börn og Glæta sem er falleg stuttermapeysa sem er flott að setja á prjónana fyrir komandi sumar. Einnig er að finna uppskrift að hekluðu handklæði og páskasól sem fer vel á páskaborðinu.

Í kvenfélagsfréttum er sagt og sýnt frá brauðtertuhlaðborði sem Kvenfélag Staðarhrepps í Skagafirði bauð upp á í ágúst síðastliðnum.

Albert Eiríksson eldar fyrir lesendur Húsfreyjunnar og gefur uppskriftir sem myndu sæma sér vel í hvaða kaffi- og eða matarboði.  Meðal annars er þar að finna uppskriftir að; Blómkálsklöttum, Súrdeigsbrauði, hollum hafragraut og steiktri lifur með ávöxtum og rjómakarrýsósu og fleira gómsætt.

Sigríður Helga Sveinsdóttir sýnir okkur sniðuga og fallega gjafapoka sem hún prjónaði utan um jólagjafirnar sem hún gaf síðustu jól.   Hún gefur lesendum uppskriftina.

Þetta og margt fleira í þessu fyrsta tölublaði ársins.

Þú getur gerst áskrifandi á husfreyjan.is og fengið um leið aðgang að áskriftarvef Húsfreyjunnar.

Húsfreyjan fæst einnig í lausasölu á sölustöðum víða um land.

 

Húsfreyjan 1. tbl. 2022 Forsíða LQ

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands