Magðalena Karlotta Jónsdóttir var kjörin gjaldkeri Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) til þriggja ár á 39. landsþingi KÍ haldið í Borgarnesi helgina 15. – 17. október sl.
Magðalena er fædd 1.ágúst 1965 og alin upp á Sölvabakka í Húnavatnssýslu, dóttir hjónanna Bjargar Bjarnadóttur og Jóns Árna Jónssonar. Hún er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og fór eftir stúdentspróf í Bændaskólann á Hvanneyri þar sem til stóð að taka við búskapnum af foreldrum sínum. Á Hvanneyri heillaði hana ungur maður og flutti hún með honum austur undir Eyjafjöll og hefur búið þar síðan 1988 í Drangshlíðardal sem bóndi og húsmóðir. Meðfram barnauppeldi og sveitastörfum hefur Magðalena notið sín í félagsstörfum og tekið þátt í þeim félagsskap í nærumhverfinu sem í boði hefur verið. Magðalena gekk í kvenfélagið Fjallkonuna árið 1993 og árið 1994 varð hún formaður þar og verið formaður þar um 15 ára skeið með hléum. Hún var gjaldkeri Sambands sunnlenskra kvenna á árunum 2003-2012. Hefur setið í skýrslunefnd SSK síðustu ár og verið skoðunarmaður KÍ síðustu 6 ár.
Aðspurð hversvegna hún hefði tekið ákvörðun um að bjóða sig fram í stjórn KÍ sagði Magðalena, eða Lena eins og hún er kölluð; „Ég hef gaman af þeim félagsskap sem kvenfélögin veita. Ég er stolt af þeim verkefnum sem kvenfélögin um land allt sinna og því merkilega hlutverki sem þau eiga í menningu, sögu, og uppbyggingu samfélagsins. Svo má ekki gleyma þeim verðmætum sem felast í því persónulega að kynnast nýjum konum um land allt og stækka tengslanetið.