Vorblað Húsfreyjunnar er nú komið út og ætti að hafa borist flestum áskrifendum.
Einsog alltaf er Húsfreyjan stútfull af ýmsu efni sem má njóta í sumar.
Á forsíðunni að þessu sinni er listaverk, ljósmyndaverk eftir Sigríði Sigurlínu Pálsdóttur, Sillu Páls ljósmyndara Húsfreyjunnar til ellefu ára. Áslaug Sverrisdóttir sagnfræðingur er í meginviðtali blaðsins. En Sögufélagið gaf síðastliðið haust út bókina Handa á milli um hundrað ára sögu Heimilisiðnaðarfélagsins. Um svipað leyti fagnaði Áslaug, höfundur bókarinnar áttræðisafmæli sínu. Húsfreyjan forvitnaðist um áttatíu ára ævigöngu Áslaugar.
Í þessu vorblaði er einnig upplýst um verðlaunahafa í smásögukeppni Húsfreyjunnar. Það er Húsfreyjunni heiður að birta lesendum nýjar og áhugaverðar smásögur til að lesa og njóta og kunnum við öllum þeim sendu inn sögur í keppnina bestu þakkir fyrir. Um leið óskum við verðlaunahöfum til hamingju. Í blaðinu er að sjálfsögðu sagan sem lenti í fyrsta sæti.
Eydís Ösp Eyþórsdóttir kvenfélagskona og verkefnastjóri fræðslu- og fjölskyluþjónustu Glerárkirkju svarar spurningum Húsfreyjunnar í skemmtilegu spjalli. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur heldur áfram að segja okkur frá fyrrum forsetum Kvenfélagasambands Íslands sem byrjað var á, á 90 ára afmæli KÍ á síðasta ári. Að þessu sinni skrifar Kristín um þær Helgu Magnúsdóttur og Sigríði Thorlacius.
Katrín Ólafar Egilsdóttir,meistari í vinnusálfræði og stjórnun, fræðir lesendur um kosti þess að vera með lifandi plöntur og plöntuveggi á heimilum og vinnustöðum. Ragnheiður Eiríksdóttir hefur umsjón með handavinnuþættinum að þessu sinni og hún býður upp á viðtal við Guðlaugu Svölu Steinunni Kristjánsdóttir sem gefur lesendum uppskrift að fiðrildapeysu. Ragnheiður býður einnig upp á uppskrift af göngupilsi sem er tilvalið í útivist sumarsins.
Í matarþættinum er farið í heimsókn og spjall til Hrannar Vilhelmsdóttur í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ og gefur Hrönn lesendum uppskriftir af bragðgóðum og spennandi réttum. Meðal annars uppskriftir úr eggaldinum, hrossalund og geggjaðar djúpsteiktar gellur. Leiðbeiningastöð heimilanna fjallar og afhjúpar algengar mýtur um mat sem of margir hafa tekið sem heilögum sannleik.
Verðlaunakrossgátan er að sjálfsögðu á sínum stað.
Húsfreyjan er líka aðgengileg rafræn á áskriftarvefnum.
Smelltu hér til að gerast áskrifandi, hvort eð er rafrænt eða á prenti.
Njótið lestursins og sumarsins.