Norræna bréfið - Alma D. Möller

COVID-19: Samstaða og samvinna þjóðar og þjóða

 

Heimsfaraldur COVIDAlmaMöllerminni-19 hefur litað allt okkar líf á liðnu ári og margir eiga um sárt að binda vegna hans. Þjóðir hafa tekið hver með sínum hætti á málum, út frá mismunandi forsendum; skipulagi, lögum, menningu, gildum og fleiru. Það verður áhugavert þegar lengra líður að gera upp faraldurinn og aðgerðir gegn honum í þeim tilgangi að læra hvert af öðru um áhrif faraldurs og sóttvarnaráðstafana á lýðheilsu, hagkerfi og samfélagið í heild.

Á Íslandi hófst markviss undirbúningur þegar í janúar. Unnið var samkvæmt lögum um sóttvarnir, lögum um almannavarnir og Áætlun um heimsfaraldur. Miklu hefur skipt að skýr lög og ferlar voru til staðar og að til var lager af hlífðarbúnaði þannig að aldrei kom upp skortur.

Snemma varð ljóst að faraldurinn gæti orðið alvarlegur. Það markmið var sett að vernda nauðsynlega innviði samfélagsins, ekki síst heilbrigðiskerfið. Þar voru lykilatriði að ”fletja kúrfuna”, tryggja nauðsynlegan hlífðarbúnað og önnur aðföng, undirbúa sjúkahús og heilbrigðisstofnanir sem og stofnun bakvarðasveitar heilbrigðisstarfsmanna. Mikil samstaða var um að slá skjaldborg um aldraða og viðkvæma hópa. 

Vel tókst að fletja kúrfuna en það byggði á víðtækri samvinnu viðbragðsaðila og samstöðu þjóðarinnar allrar. Þar skipti nákvæm og hreinskiptin upplýsingamiðlun miklu. Snemma hófst útgáfa leiðbeininga til ólíkra hópa og vefurinn covid.is var opnaður. Þá voru haldnir daglegir upplýsingafundir fyrir almenning og fréttamenn og voru þeir sýndir beint á helstu sjónvarpsrásum og miðlum. Þar sátu fyrir svörum sóttvarnalæknir, yfirlögregluþjónn almannavarna og undirrituð  (”þríeykið”). Lögð var áhersla á að segja frá af hreinskilni og hafa allt uppi á borðum. Áhorf sló öll met og tókst með þessum hætti að halda þjóðinni vel upplýstri. Góð samvinna hefur verið við ríkisstjórn Íslands sem hefur staðið þétt að baki fagfólki.

Það tókst að greina smit snemma og beita einangrun. Smitrakning í samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og lögreglu er verkefni sem eftir hefur verið tekið og vel gekk að koma smitrakningar-appi í notkun. Með þessu náðist sá undraverði árangur að nær 60% smita greindust hjá einstaklingum sem þegar voru í sóttkví og því ekki að smita aðra útfrá sér. Grípa þurfti til margvíslegra samfélagslegra aðgerða sem þó voru hófstilltari hér en víða annars staðar.  

Þá varð gæfuríkt að háskólasjúkrahúsið starfrækti COVID-19 göngudeild sem án efa minnkaði þörf fyrir innlagnir á sjúkrahús og gjörgæsludeildir. Þar var hverjum einasta smituðum einstaklingi fylgt eftir símleiðis og með fjarbúnaði, áhætta metin og beitt snemmtækri íhlutun ef ástand versnaði.  Árangur meðferðar var góður. Þann skugga bar þó á nú í 3ju bylgju að smit kom upp á endurhæfingarspítala fyrir aldraða með þeim afleiðingum að 18 manns létust. Það sýnir hvers veiran er megnug og að ekki má slaka neitt á. Ánægjulegt er að heildar dánartíðni í landinu hefur ekki verið aukin og svo virðist sem heilbrigðiskerfið allt, frá heilsugæslu til gjörgæslu, hafi staðist þetta mikla álagspróf, þótt vissulega reyndi á.  

Margt hefur lagst á eitt til að góður árangur næðist. Skiptir þar máli að landið er dreifbýlt og samfélagið nægjanlega lítið til að boðleiðir eru stuttar og því hægt að bregðast snarpt við auk þess sem mögulegt er að halda yfirsýn sem auðveldar tímasetningu og framkvæmd aðgerða. Á hinn bóginn er samfélagið nægilega stórt til að hér er hægt að veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu. Þá skiptir án efa máli þrautseigja og samstaða þjóðar sem býr við óblíða náttúru og er vön náttúruhamförum. Samstaða þjóðarinnar og fylgni við aðgerðir var lykill að góðum árangri.

Þegar þetta er ritað, í desember 2020, er þriðja bylgja að renna sitt skeið. Framundan eru krefjandi verkefni, m.a. að viðhalda úthaldi landsmanna þar til vonandi hjarðónæmi hefur verið náð með bólusetningu, en farsóttarþreyta gerir vart við sig. Augljóst er mikilvægi þess að koma efnahagslífi þjóðarinnar á réttan kjöl. Íslenskt samfélag er háð ferðamennsku sem er 40% útflutningstekna og 9% vergrar landsframleiðslu. Því hafa umfangsmiklar skimanir farið fram á landamærum til að freista þess að halda landinu opnu en ljóst er að efnahagur hér, eins og í öðrum löndum, bíður mikinn skaða af faraldrinum.

Þegar litið er til alþjóðasamfélagsins er ljóst er að stórefla þarf rannsóknir á veirusjúkdómum. Mikilvægi vísinda og víðtæks samstarfs endurspeglast í leiftursnöggri þróun nýrra bóuefna og brýnt að framhald verði á slíkri samvinnu. Við getum einnig dregið lærdóm af faraldrinum við að takast á við tvær risavaxnar áskoranir; loftslagsbreytingar og vaxandi sýklalyfjaónæmi sem hvorutveggja eru miklar ógnir við heilsu okkar. Á Íslandi minnkaði notkun sýklalyfja um fjórðung í faraldrinum og ákveðnum alvarlegum sýkingum fækkaði. Það bendir til mikilvægi öflugra einstaklingsbundinna sóttvarna sem við vonandi höldum áfram. Loks þarf heimurinn að ná samstöðu um að   fletja kolefnislosunarkúrfuna til að sprona gegn loftslagsbreytingum en árið hefur kennt okkur að við komumst af með mun færri ferðalög.  Vonandi ber svo heimurinn gæfu til að endurmeta gfletjumkurfunaildi og verðmæti þar sem heill og heilsa er metið ofar veraldlegum gæðum þannig að Heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna, m.a. um heilbrigði og vellíðan fyrir alla, verði náð.  Þjóðir heimsins verða að standa saman.

 

----------

Alma Möller er fædd árið 1961. Hún er með sérfræðiviðurkenningu og doktorsgráðu í svæfinga- og gjörgæslulækningum, meistarapróf í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu, sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun og diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur numið við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann í Lundi, Svíþjóð. Hún hlaut sérfræðimenntun sína við Háskólasjúkrahúsið í Lundi þar sem hún var á árunum 1993-2003 og gegndi þar stjórnunarstörfum á svæfingadeildum, auk þess að starfa sem sérfræðingur á gjörgæsludeild barna við sjúkrahúsið.

Frá árunum 2003-2018 var hún yfirlæknir og stjórnandi á svæfinga- og gjörgæsludeildum Landspítalana Háskólasjúkrahúss. Árið 2018 var hún skipuð landlæknir, fyrst kvenna í 258 ára sögu embættis landlæknis. Þá var hún líka fyrsta konan sem starfaði sem læknir á þyrlu Landhelgisgæslunnar árið 1990. Alma hefur verið í framvarðarsveit í baráttunni við faraldur COVID-19 á Íslandi.

Norræna bréfið er birt af Norrænu kvennasamtökunum (NKF – Nordens Kvinneforbund)  ár hvert á degi Norðurlandanna. Kvenfélagasambönd innan NKF skipta með sér að fá aðila til að skrifa bréfin. 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands