Uppskeruhátíð býflugnabænda verður haldin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sunnudaginn 23. september milli kl 14.00 og 16.00 í veitingatjaldi garðsins. Býflugnabændur af sunnanverðu landinu kynna býflugnarækt og koma með sýnishorn af uppskeru sumarsins. Þeir munu gefa gestum að smakka eigin framleiðslu af hunangi sem verður slengt beint úr búinu á staðnum. Einnig verður takmarkað magn íslensks hunangs til sölu. Sýndar verða lifandi býflugur í sýningarbúri og að auki gefst gestum tækifæri á að skoða og fræðast um býflugnabúið í garðinum. Kynnt verður efnið bývax og ýmis útbúnaður sýndur. Sú hefð hefur myndast að Kvenfélagasamband Íslands haldi sultukynningu á sama tíma og uppskeruhátíðin fer fram og að þessu sinni munu konur úr Kvenfélaginu Hvöt í Sandgerði koma með sultur sínar og kerti. Hægt verður að bragða á afrakstri haustsins og uppskriftum dreift til gesta.