Húsfreyjan er komin út

Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar 2021 er komin út.
 
Húsfreyjan 1. tbl. 2021minnstjpg
Að þessu sinni er það Kvenfélagskonan og sýkingavarnarhjúkrunarfræðingurinn Ása Steinunn Atladóttir sem er í aðalviðtalinu. Það hefur verið nóg um að vera hjá Ásu sl árið og hún deilir með lesendum lifshlaupi sínu og verkefnum.
Á haustdögum 2020 var síðasta sporið saumað í Njálurefilinn. Kristín Linda ritstjóri ræðir við aðalhvatakonur verkefnisins og segja okkur nánar frá því. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur skrifar um baráttukonuna Rannveigu Þorsteinsdóttur sem var þriðji forseti Kvenfélagasambands Íslands. Í þessu fyrsta tölublaði er einsog venja birt Norræna bréfið sem Alma Möller landlæknir skrifaði. Norræna bréfið er birt af Norrænu kvennasamtökunum NKF ár hvert og skipta löndin með sér að fá aðila til að skrifa bréfin. Ný umsjónarkona hefur nú tekið við handavinnuþætti Húsfreyjunnar. Það er Ragnheiður Eiríksdóttir prjónahönnuður og hjúkrunarfræðingur sem að þessu sinni gefur meðal annars lesendum uppskrift að spennandi dömupeysu sem prjónuð er úr lopa og mohair sem Ragnheiður hefur gefið nafnið Húsfreyjan. Halla María Sveinsdóttir deilir með lesendum nokkrum af sínum bestu uppskriftum í matarþætti Húsfreyjunnar. Halla í Grindavík á og rekur veitingastaðinn Hjá Höllu. Anna F. Gunnarsdóttir sem hefur verið með fyrirtækið Anna og útlitið gefur lesendum góð ráð varðandi val á fatnaði í tengslum við verkefnið Vitundarvakning um fatasóun.
 
Í þessu fyrsta tölublaði er fjallað um nokkur þeirra verkefna sem kvenfélögin hafa verið svo hugmyndarík að vinna að í skugga Covid-19 sl. árið.  Krossgátan er að sjálfsögðu á sínum stað og fjölbreytt efni að vanda.
 
Útgáfustjórn vill vekja athygli á að frestur til að skila smásögum í smásögusamkeppni Húsfreyjunnar hefur verið framlengdur til 1. april nk.
 
Þeir sem þegar eru áskrifendur geta skráð sig á áskriftarvefinn til að fá rafrænan aðgang að Húsfreyjunni. Smellt er á flipann ég er áskrifandi en mig vantar aðgang. 
Njótið lestursins.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands