Á alþjóðlega hrósdeginum er tilvalið að hrósa öllum þeim sem hafa lagt söfnuninni Gjöf til allra kvenna lið. Hvort sem er með fjárframlögum eða vinnu. Stórt hrós og þakklæti til allra sem komið hafa að þessu stóra verkefni.
Af söfnuninni er það að frétta að afmælisnefnd KÍ hitti þær Huldu Hjartardóttur yfirlæknir Kvennadeildar LSH og Önnu Sigríði Vernharðsdóttur yfirljósmóður hjá LSH 23. febrúar sl. Þar var farið yfir stöðu söfnunarinnar og næstu skref.
Til upprifjunar eru þetta þrír liðir sem verið er að vinna að:
• Kaupa ný tæki þar sem þau vantar
• Uppfærslur á tækjum þar sem þau eru þegar til staðar en þarf að uppfæra tengi o.fl.
• Kaupa hugbúnað/forrit til að tengja tækin saman og rafvæða landið
Þær Anna Sigríður og Hulda eru afskaplega ánægðar og þakklátar með framtak kvenfélaganna og er sömuleiðis eftirvænting eftir þessum tækjum og hugbúnaði hjá heilbrigðisstarfsfólki um allt land.
Næstu skref er að vinna með öllum fagaðilum og koma þessu í rétt ferli. Panta tækin, setja upp ofl. Þetta er margþætt verkefni þar sem margir eiga í hlut og mun því taka einhverja mánuði að ganga frá öllu.
Afmælisnefndin mun halda söfnunarreikningnum áfram opnum ásamt sölu á armböndum og súkkulaði þar til allt er frágengið.
Meðfylgjandi mynd var tekin af afmælisnefnd og fulltrúum LSH á fundinum sem fór fram í miðjum skjálftum á miðvikudagsmorgun.
Elinborg Sigurðardóttir frá SSK, Ágústa Magnúsdóttir frá KSGK, Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ, Hulda Hjartardóttir, Anna Sigríður Vernharðsdóttir, Þórný Jóhannsdóttir varaforseti KÍ, Linda B. Sverrisdóttir SBK, Sólveig Ólafsdóttir stjórn KÍ og Eva Michelsen formaður afmælisnefndar frá KSK.
Á myndina vantar Jenný Jóakimsdóttur starfsmann KÍ, sem tók myndina af hópnum.