Beinverndardagurinn 20. október

Léleg bein eru ástæða beinbrota hjá 1200 Íslendingum á ári hverju. Í flestum tilvikum má koma í veg fyrir beinþynningu og beinbrot af völdum hennar með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Alþjóðlegi Beinverndardagurinn er næstkomandi laugardag. Markmið dagsins er að vekja athygli á þeim þáttum sem geta stuðlað að beinþynningu og um leið að undirstrika þá þætti sem geta komið í veg fyrir skjúkdóminn síðar á ævinni, því bein gisna með aldrinum, bæði hjá konum og körlum. Á Beinverndardeginum verður gestum Smáralindar boðið upp á fræðslu og kalkríkar veitingar milli klukkan 13.00 og 15.00.

Áhættuþættir
Beinþynning gengur í erfðir. Það er staðreynd að þriðja hver kona og áttundi hver karlmaður eru haldin sjúkdómnum. Ef móðir eða faðir hafa fengið beinþynningu eru miklar líkur á því að afkomendur fái sjúkdóminn.
Meðal annarra þátta sem stuðla að beinþynningu má nefna:

Líkamsþyngd -smábeinóttar konur eru í meiri hættu en aðrir Hreyfingarleysi Reykingar Neysla áfengis Að auki má nefna að aðrir sjúkdómar og lyf geta haft áhrif á kalkbúskap líkamans og haft áhrif á þynningu beina.

Forvarnir
Mikilvægt er að huga að beinheilsu strax á unga aldri og þar skiptir hollt mataræði miklu máli. Mælt er með kalkríku fæði og nægjanlegu D -vítamíni.
Flestar mjólkurvörur innihalda mikið kalk og D-vítamín fæst meðal annars úr lýsi og hvers konar fiskmeti auk þess sem húðin myndar D-vítamín fyrir tilstuðlan sólarljóss.

Regluleg hreyfing stuðlar að sterkum beinum og best er að forðast reykingar og neyta áfengis í hófi.

Nánari upplýsingar má finna á www.beinvernd.is

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands